Rússneskir áhrifavaldar með milljónir fylgjenda áttu margir erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum þegar þeir kvöddu fylgjendur sínar um helgina, en á mánudag tók í gildi Instagram-bann í Rússlandi.
Einn þeirra, raunveruleikastjarnan Olga Buzova deildi löngu myndbandi á sunnudaginn þar sem hún grét yfir því að missa þennan vettvang til að ná til fylgjenda.
„Ég er ekki hrædd við að viðurkenna að ég vil ekki missa ykkur. Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég hef bara deilt hér lífi mínu, vinnu og sál. Ég gerði þetta ekki bara að atvinnu heldur er þetta hluti af sál minni. Þessi vinna á stóran hlut í mínu hjarta og nú er verið að taka lífið mitt frá mér.“
Með myndbandinu skrifaði hún í texta – „Ég elska ykkur. Afsakið tilfinningasemina… en þið elskið mig samt og ég vildi bara segja enn og aftur – takk fyrir allt.“
Austur-Evrópski miðillinn NEXTA deildi einnig myndbandi af ónefndum rússneskum áhrifavald sem deildi myndbandi á föstudag og átti erfitt með að halda aftur af tárunum.
One of the #Russian bloggers cries that in two days her Instagram will stop working
She does not care at all about the thousands of dead people, including her compatriots. Obviously, her biggest worry right now is that she won't be able to post pictures of food from restaurants. pic.twitter.com/LSdBiSlwHr
— NEXTA (@nexta_tv) March 11, 2022
The Guardian greindi frá því um helgina að það hafi verið þungt hljóð í rússneskum áhrifavöldum á Instagram um helgina á meðan þau biðu eftir að bannið tæki gildi.
„Þetta er lífið mitt, þetta er sálin mín. Þetta er það sem ég hef verið vakin og sofin yfir síðustu fimm árin. Ég er reið og hvergi nærri tilbúin að sætta mig við þetta,“ sagði tískubloggarinn Karina Nigay sem hefur um þrjár milljónir fylgjenda.
„Um helmingur tekna minna koma í gegnum auglýsingar á Instagram. Til að vera hreinskilin þá er ég algjörlega niðurbrotin að ég sé að missa síðuna mína. Ég hef haldið henni úti í rúman áratug. Líklega þarf ég núna að finna mér aðra leið til að afla tekna og þarf að enduruppgötva sjálfa mig,“ sagði plötusnúðurinn og áhrifavaldurinn Karina Istomina.
„Pútín hefur ráðist inn í fullvalda ríki og er að herja þar stríð…. Það hefur lengi verið ljóst að Pútín er alveg sama um fólk,“ sagði Yuri Dudt, áhrifavaldur.
Instagram var einnig mikilvægur vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Rússlandi, en þau notað miðilinn til að eiga samskipti við viðskiptavini og til að afla sér viðskipta.
Guardian vísar til orða Dilyara Minkrakhmanovu sem heldur úti fatamerkinu Outlaw í Rússlandi. En hún sagði að um 96% af umferð hennar á samfélagsmiðlum komi frá fyrirtækjum í eigu Meta fyrirtækisins, Facebook og Instagram.
„Instagram hefur orðið að okkar heimavelli og brú okkar yfir í hinn alþjóðlega heim. Síðan við hófum rekstur fyrir sjö árum höfum við náð að leiða saman stóran hóp af fólk með sameiginlegt hugarfar. Það er sárt að hugsa til þess að nú séum við að missa þetta.“
Áhrifavaldar og fyrirtæki nýtti síðustu daganna fyrir bannið til að vekja athygli á öðrum miðlum sínum, samskiptaforritinu Telegram og samfélagsmiðlinum Vkontakte sem eru í eigu Rússa.
Stofnandi Vkontakte, Pavel Durov, hefur þó gefið upp að miðil hans sé hlutlaus og eru úkraínskir notendur þar velkomnir og gögn þeirra sögð örugg.
„Ég stend með notendum okkar sama hvað. Réttur þeirra til friðhelgi einkalífs er heilagur – nú sem aldrei fyrr,“ skrifaði hann í síðustu viku.
Telegram hefur heldur ekki alltaf hlotið náð í augum rússneskra yfirvalda en aðgangur að miðlinum var bannaður á árunum 2018-2020.
Einhverjir áhrifavaldar ákváðu þó að unna ekki banninu og hafa leitað leiða til að komast hjá banninu. Tvöfalt fleiri en áður leituðu á netinu eftir VPN-þjónustu í síðustu viku og einn bloggari, Tanya Mingalimova sagði fylgjendum sínum á sunnudag að hennar dagskrá þann daginn væri að „fá mér kvöldmat og svo setja upp VPN.“
Vasilisa Volodina er með um milljón fylgendur og virðist enn vera að birta efni á Instagram þrátt fyrir bannið. Hún birti á sunnudag færslu þar sem sagðist ekki vera viss hvort að fólk ætlaði sér að komast hjá banninu eða hvort það væri illa séð af yfirvöldum að svo væri gert í tilfellum „venjulegra notenda“ hins vegar benti hún fylgjendum sínum á hvar VPN-þjónustur og sagði auðvelt að nota slíkt. Hún er enn að birta efni á síðu sinni.
Förðunaráhrifavaldurinn rússneski Goar Avetisyan er með rúmlega 11 milljónir fylgjenda og deildi á sunnudag færslu til fylgjenda þar sem hún sagði framtíðina óljósa og líklega þurfi hún að nota annan vettvang til að eiga samskipti við fylgjendur. Engu að síður hefur hún þó undanfarna daga bæði birt færslur á Instagram sem og myndskeið í „story“ svo ekki hefur bannið haft mikil áhrif á hana.
Eins hefur áhrifavaldurinn sem greint var frá að ofan, Olga Buzova, haldið áfram að birta efni. Svo spurningin er hvort að Instagram-bannið sé að hafa þau áhrif sem rússnesk yfirvöld voru að sækjast eftir, en bannið var sett á í kjölfar þess að móðurfyrirtæki Instagram, Meta, ákvað að heimila vissa hatursorðræðu í garð rússneska innrásarhersins. Ljóst er að margir Rússar komast framhjá banninu og virðast því áhrifavaldar margir hverjir halda sínu striki. Tárvotum hjartnæmum kveðjum var deilt á sunnudag, þegar áhrifavaldar voru óvissir um hvernig þeir kæmust hjá banninu, en hafa nú margir þeirra vinsælustu hreinlega haldið sínu striki þó svo að þeir hafi reglulega minnt á aðra miðla sína – ef bannið skildi fá meira bit í náinni framtíð.