Sjónvarpsstöðin Hringbraut leitar að konu í þáttastjórnun á stöðinni. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri Hringbrautar , óskar eftir því að heyra í konum sem hafa áhuga á að starfa við sjónvarp.
„Hringbraut hefur verið með kynjabókhald frá upphafi og vill vera með fjölbreytta þætti í umsjón allra kynja. Hringbraut leitar nú að konu í þáttastjórnun á stöðinni og fyrsta skrefið er að heyra í áhugasömum konum þarna út,“ segir í tilkynningu um starfið.
Sigmundur segir í samtali við DV að ástæðan fyrir auglýsingunni sé að athuga hvort það séu einhverjar konur þarna úti sem eiga heima í sjónvarpinu. Það sé markmið Hringbrautar að vera ekki bara með jafnt kynjahlutfall þegar kemur að viðmælendum heldur einnig þegar kemur að stjórnendum þátta á stöðinni.
Ef þú hefur áhuga á starfinu geturðu sent svar við spurningunum hér fyrir neðan á netfang Sigmundar, ser@hringbraut.is.
Langar þig að stýra þætti? Hvernig þætti?
Ertu með reynslu af sjónvarpi?
Af hverju ættum við að fá þig í prufu hér á Hringbraut?
Taktu upp tveggja mínútna myndskeið með svörum við þessum spurningum eða sendu nokkrar línur á ser@hringbraut.is fyrir mánudaginn 22. mars 2021. „Við viljum kynnast fjölbreyttum hópi kvenna – Við viljum kynnast ÞÉR!“