fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Fókus

Ótrúleg ástarsaga – Fordómar stíuðu þeim í sundur fyrir 40 árum en þau gleymdu aldrei hvoru öðru

Fókus
Þriðjudaginn 26. október 2021 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Penny Umbers og Mark Bethel kynntust á áttunda áratug síðustu aldar og felldu hugi saman. Mark kom frá Bahamaeyjum og fluttist til Bretlands til að ganga þar í skóla. Þau voru 16 og 17 ára og urðu yfir sig ástfangin.

Þegar Mark sneri aftur til Bahama héldu þau sambandinu lifandi með því að skiptast á ástarbréfum, ljóðum og teikningum. En það var ekki nóg svo Mark tókst að fá námsstyrk til að sækja háskóla í London og Penny skráði sig í háskóla á sama svæði svo þau gætu verið saman.

Lífið var ljúft þar til einn daginn, að því er virtist upp úr þurru, Mark sagði Penny að hann væri hættur með henni og gaf henni enga ástæðu.

Fékk loksins að vita sannleikann

Penny var eyðilögð. Hún flosnaði upp úr námi og reyndi jafnvel að fremja sjálfsvíg. En lífið hélt áfram. Penny gifti sig tvisvar og skildi jafnoft. Hún hætti þó aldrei að hugsa um Mark. Þar til dag einn, árið 2019, að hún fékk skilaboð á Facebook. Það var þá sem hún komst að því hvers vegna Mark hafði hætti með henni.

„Ég vissi það ekki þá en pabbi minn fór í skólann til Mark og kallaði hann þar út af fyrirlestri og fór með hann á skrifstofuna til aðstoðarskólastjórans. Þar sagði pabbi honum að hann ætti áhrifamikla vini og gæti látið afturkalla námsstyrkinn ef hann myndi ekki hætta með mér, og að ég mætti aldrei vita um þetta samtal. 

Þetta var erfið staða fyrir 19 ára strák sem var langt að heiman. Foreldrar hans voru hættir að styðja hann fjárhagslega, og án námsstyrksins gæti hann ekki klárað námið sitt. Hann var milli steins og sleggju. Auk þess höfðu foreldrar Marks beitt hann svipuðum þrýsting.

„Þau höfðu sagt honum að hann ætti ekki að vera í sambandi með hvítri stelpu. Hann hefði aldrei haft það af í London án námsstyrksins og hefði þurft að snúa aftur til Bahamaeyja með enga háskólagráðu,“ sagði Penny.

Þetta var ömurlegt

Mark tók undir þetta og sagði að eins ömurlegt og það hafi verið að hætta með Penny, þá hafi hann haft um fátt annað að velja.

„Ég hafði ekki margra kosta völ. Ég var 3 þúsund mílur að heiman í ókunnugu landi. Ég var algjörlega háður námsstyrknum mínum,“ sagði Mark. „Ég þurfti að taka erfiðustu ákvörðun lífs míns og ég þurfti að taka hana einn. Ég hafði ekkert stuðningsnet, enga vini eða fjölskyldu. Ég gat ekki útskýrt fyrir henni hvers vegna ég var að slíta þessu. Þetta var ömurlegt.“

Gleymdu aldrei fyrstu ástinni

Mark kláraði námið sitt í hótel- og veitingarekstri og varði næstu áratugum í að ferðast um heiminn og starfa í hótelrekstri.  Penny vék þó aldrei úr huga hans og hann hætti aldrei að reyna að hafa uppi á henni.

„Ég var alltaf að leita að nafninu Penny Umbers, en það var ekki lengur til því hún hafði breytt því þegar hún gifti sig. Síðan dag einn fann ég mynd af henni í svörtum fötum fyrir utan Windsor kastalann. Þrjátíu og níu árum síðar. Ég var ekki viss hvort þetta væri hún. Ég sendi henni ítrekað skilaboð en hún var ekki mjög virk á Facebook svo það liðu nokkrir mánuðir áður en hún sá þau. Ég spurði bara : „Er þetta Penny?“ og þegar þetta reyndist vera hún varð ég stressaður, kvíðinn, hamingjusamur og spenntur.“

Kórónuveiran tafði endurfundina

Hins vegar var þrautaganga parsins ekki búin. Einmitt þegar þau höfðu fundið hvort annað aftur, skall kórónuveirufaraldurinn á. Því þurftu þau að bíða í eitt og hálft ár með endurfundina vegna ferðatakmarkanna. Það var svo í júní sem þau gátu loksins ferðast og Penny dreif sig við fyrsta tækifæri til Bahamaeyja.

„Þegar við sáum hvort annað í fyrsta sinn þá er ég ekki frá því að ég hafi fellt eitt tár, jafnvel tvö,“ sagði Mark. „Ég bara trúði því ekki að hún væri hér í heimalandi mínu og í örmum mínum. Sumum hlutum er ætlað að verða, en guð ákveður hvar og hvenær. Þegar við hittumst fyrst var greinilega ekki rétti tíminn.“

Penny bætti við: „Ég hafði ekki séð hann síðan við við vorum 18 og 19 ára en þetta var dásamlegt, það var eins og við hefðum bara verið aðskilin í ár. Það var þessi sameiningartilfinning og það var eins og enginn tími hefði liðið. Þetta var ekki undarlegt eða óþægilegt. Hann tók í höndina mína og við kysstumst í gegnum grímurnar.“

Fór á skeljarnar

Penny eyddi þremur vikum á Bahamaeyjum og fór svo aftur til Bretlands. Svo fór hún aftur núna í október og þá fór Mark á skeljarnar um leið og hún steig út úr flugvélinni.

„Ég er að yfirgefa líf mitt í Bromsgrove og ætla að búa með Mark á Bahamaeyjum. Það er stórt skref að rífa sig upp með rótum og það eru ekki mörg blönduð pör hér á Bahamaeyjum. En ég hef aldrei elskað neinn eins og ég elska Mark.“

Mark og Penny vonast til þess að fordómar gegn blönduðum pörum hafi minnkað síðan þau hittust fyrst. Þau hafa nú gefið út bók um ástarævintýri sitt sem ber nafnið ThirtyNine Years in the Wilderness.

Penny segir að hún hafi fengið sjálfstraustið til baka að vita loksins að Mark hætti aldrei að elska hana, þó svo hún óski þess að hann hefði komið hreint fram á sínum tíma. „Ég hugsa að ef hann hefði rætt þetta við mig þá hefðum við getað fundið einhverja lausn, en hann var alltaf meira tilbúinn en ég að sætta sig við yfirvald annara og var ekki eins uppreisnargjarn og ég. Hann vildi vera viðurkenndur af samfélaginu og standa sig vel, sem hann hefur gert, en hann þurfti að færa fórnir til að geta það,“ segir Penny.

Með bók sinni vilja þau vekja athygli á sögu sinni og hvernig fordómar héldu þeim frá hvoru öðru í næstum 40 ár.

Heimild – BirminghamLive

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 4 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni