Tískuhönnuðurinn Alexander Wang neitar alvarlegum ásökunum um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Alexander Wang er einn vinsælasti tískuhönnuðurinn í dag og er hann mjög vinsæll meðal stjarnanna. Að sögn Paper hefur verið hvíslað um hegðun Alexanders Wang í tískubransanum í mörg ár en það hefur verið lítið sem ekkert fjallað um það í fjölmiðlum.
En það breyttist allt þegar fyrirsætan Owen Mooney sakaði Alexander um að hafa gripið í kynfæri sín án leyfis á skemmtistað í New York árið 2017.
Owen segir að skemmtistaðurinn hafi verið pakkaður og hann hafi lítið geta hreyft sig, hann segir Alexander hafa nýtt sér aðstæður, káfað á honum og gripið í kynfæri hans. „Ég fraus alveg því ég var í svo miklu sjokki,“ segir hann í myndbandi á TikTok.
„Ég horfði til vinstri til að sjá hver þetta væri og ég sá að þetta væri mjög frægur fatahönnuður. Ég trúði ekki að þetta væri hann sem var að gera mér þetta. Ég fékk enn meira áfall.“
Í kjölfarið hafa fleiri sögur um óviðeigandi hegðun Alexanders litið dagsins ljós. Instagram-síðurnar @Diet_Prada og @ShitModelMGT birtu sögur frá meintum þolendum Alexanders. Diet Prada birti einnig skjáskot frá Instagram-síðu Azeliu Banks, tónlistarkonu og fyrrum vinkonu Alexanders, þar sem hún birtir skilaboð sem hún fékk frá meintum þolanda hans og spyr: „Ertu þarna úti að nauðga konum Alexander?“
„Alexander Wang er meintur kynferðisafbrotamaður, margar karlkyns fyrirsætur og trans fyrirsætur hafa tjáð sig um meint kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hálfu Alexanders Wang,“ kemur fram í Instagram-færslu frá Shit Model Mgt.
View this post on Instagram
Ásakanirnar á hendur Alexander eru mjög alvarlegar og hafa nokkrir sakað hann um nauðgun.
„Vinur minn var að starfa sem fyrirsæta og Alexander Wang var þarna líka. Þeir enduðu með að djamma saman og hann var alltaf að bjóða vini mínum drykk, þó hann hafi ekki viljað drekka það mikið. En hann vildi vera kurteis og endaði með að verða frekar fullur. Næsta sem hann man var að hann var í herbergi með Alexander Wang sem hafði klætt hann úr buxunum og var að láta hann snerta sig og var að reyna að láta hann veita sér munnmök. Þó svo að vinur minn sé gagnkynhneigður og hefði sagt Alexander það. Vinur minn var varla með meðvitund en honum tókst að ýta Alexander frá sér og forða sér, en þetta hefur haft mikil áhrif á hann,“ segir einn maður um Alexander.
View this post on Instagram
Alexander hefur einnig verið sakaður um að byrla fólki ólyfjan og fíkniefni án þeirra vitneskju.
„Vinur minn er trans maður var í lúxusbifreið (e. limo) með Alexander á leið í „eftir-partý“. Þegar fólk kom inn í bifreiðina gaf Alexander öllum vatn og það var eitthvað loðið þar sem Alexander passaði að allir myndu klára vatnið sitt,“ kemur fram í einni sögunni. Stuttu seinna kom í ljós að ekki um venjulegt vatn væri að ræða heldur var fíkniefnið „Molly“ í vatninu og allir voru undir verulegum áhrifum.
Annar karlmaður hefur svipaða sögu að segja. Hann glímir við geðhvarfasýki og eftir að hafa drukkið „Molly“ vatnið fór hann í maníu og endaði á geðdeild í nokkrar vikur og eyðilagði ferill sinn. „Ég er á furðulegan hátt feginn að hafa verið lagður inn á geðdeild þetta kvöld því hver veit hvað hefði gerst ef plan hans hefði gengið upp.“
Alexander Wang neitar öllum ásökunum í yfirlýsingu til People. Hann segir þær vera „fáránlegar“ og að það séu engin sönnunargögn sem ýti undir þessar staðhæfingar.
„Ég ætla að komast til botns í þessu og finna þann sem er ábyrgur fyrir að dreifa þessum lygum á netinu,“ segir hann.