fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Fókus

Ráð til að standa við áramótaheitið – Setjum okkur skýrari og skemmtilegri skref

Fókus
Föstudaginn 15. janúar 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem á í vandræðum með áramótaheitið.

Kristín Tómasdóttir

Kæra Kristín.

Ég setti mér nokkur áramótaheit en finn að það er strax orðið erfitt að standa við þau. Heilt yfir var áramótaheitið að hugsa betur um sjálfa mig en þar undir setti ég mér það markmið að léttast, vera duglegri að hreyfa mig og drekka meira vatn. Ertu með einhver ráð til að vera líklegri til að standa við áramótaheitin?

Endurskoða stefnumörkunina

Sæl. Gleðilegt ár og takk fyrir klassíska áramótaspurningu.

Mikið er ég glöð að heyra að áramótaheitið þitt sé að hugsa betur um sjálfa þig. Vel forgangsraðað! Við þurfum öll að setja súrefnisgrímurnar fyrst á okkur sjálf en margir eiga auðvelt með að gleyma sjálfum sér í dagsins önn. Áramótin eru góð tímamót til þess að setja sér markmið til jákvæðra breytinga en það getur verið snúið að hafa þau raunhæf. Ef við ætlum okkur of mikið þá getur það snúist upp í andhverfu sína og hætta skapast á að fólk fari heldur að draga sig niður. Til þess að koma í veg fyrir slíkt skulum við líta á muninn á stefnu, stefnumótun og stefnumörkun.

Plís, ekki hætta að lesa! Ég veit að þetta er þurrt, leiðinlegt og mætti heldur vera grein í fagtímariti stjórnsýslufræðinga en þetta gæti reynst þér hjálplegt. Áramótaheit heyra undir hugtakið stefna. Í stefnumótun felst að þú markar ákveðin skref svo stefnan nái fram að ganga og skrefin, þau heita stefnumörkun. Yfir konfektkassanum milli jóla og nýárs getur „að léttast“ hljómað sem vænlegt skref í átt að því að hugsa betur um sig, en þar gæti einmitt mergur málsins legið. Þú ert nú þegar farin að ströggla og í staðinn fyrir að herða á kaloríutalningu, vera svöng og pína þig í leiðinlega hreyfingu, gæti þá verið ráð að endurskoða stefnumörkun þína?

Tengsl við aðra lykillinn

Það er lítið til af rannsóknum sem sýna bein tengsl milli kílógramma og þess að líða almennt vel. Við vitum öll að það er gott að borða hollt og drekka vatn, en það er mikil kúnst að gera það án þess að drepast úr leiðindum. Af þeim sökum velti ég fyrir mér hvort þú ættir að setja þér skýrari og skemmtilegri undirskref svo stefnan þín megi ná fram að ganga.

Hamingjurannsóknir sýna að sú breyta sem hefur mest áhrif á andlega hamingju og líkamlega heilsu eru góð tengsl við aðrar manneskjur. Sterk og örugg tengsl minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, minnistruflunum, depurð, þunglyndi, einmanaleika og svo ótalmörgu öðru. Ef þú hreyfir þig með öðru góðu fólki þá ertu líklegri til þess að finnast hreyfingin skemmtileg. Þar af leiðir að þú endist miklu frekar í reglulegri hreyfingu. Ef þú hreyfir þig reglulega verður þú þreyttari, í kjölfar þess sefur þú betur og svefn og hreyfing kalla á meiri vatnsdrykkju og hollari matarvenjur. Þetta helst allt í hendur og getur verið skýrara og skemmtilegra en þig grunar.

Dæmi:

Áramótaheit (stefna): Ég vil hlúa betur að sjálfri mér þannig að ég upplifi mig hamingjusama fleiri daga ársins.

Áramótaplan (stefnumótun): Ég vil stuðla að líkamlegri og andlegri vellíðan, eiga í góðum tengslum við fólk og gera mikið skemmtilegt og lítið leiðinlegt.

 

Áramótaskref (stefnumörkun):

  • Ég vil stunda skemmtilega hreyfingu a.m.k. þrisvar sinnum í viku.
  • Ég vil hlúa að andlegri vellíðan a.m.k. einu sinni til tvisvar sinnum í viku.
  • Ég vil hitta fjölskyldu/vini tvisvar sinnum í mánuði.
  • Ég vil borða hollan mat eins oft og mögulegt er.

 

Spennandi eftirfylgni

Eftirfylgnin er svo það sem á að vera mest spennandi. Í henni getur falist broskalladagatal þar sem þú keppist við að setja niður sem flesta broskalla eftir daglegri líðan þinni í dagbók. Myndrænt skipulag yfir hreyfingu þar sem þú krossar í þar til gerð box í hvert skipti sem þú hreyfir þig. Persónulegar áskoranir einu sinni í mánuði í tengslum við félagsleg tengsl eða að fara út fyrir þægindarammann. Allt hefur þetta skjót, hvetjandi áhrif og árangurinn verður mælanlegur í hamingju þinni á mun skemmri tíma en kílógrömmin á vigtinni.

Ætlun mín er alls ekki að draga úr þér, síður en svo. Þú ert með frábært áramótaheit, þetta er bara spurning um að gera leiðina að því ögn skemmtilegri. Megi árið 2021 færa þér ómælda hamingju og vellíðan.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 4 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni