fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Fókus

Völvuspáin 2021 – Ríkisstórnin hangir á bláþræði – „Hann nær að kreista fram eitt eilífðar smátár“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 10. janúar 2021 11:02

Völva DV rýnir inn í það sem framundan er á árinu 2021.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér – eða hvað? Völva DV sér lengra en margur og hefur merkilega oft rétt fyrir sér, enda spádómsgáfan hennar vöggugjöf. Hún segir kynngimagnaðan kraft krauma undir landinu og að það séu bjartari tímar fram undan þó að sorgartímar séu einnig sjáanlegir. Hræðilegt morð skekur þjóðina og miklar mannabreytingar verða í stjórnmálum.

Hér er brot úr völvuspá DV 2021

Það verður mikill titringur í ríkisstjórninni í ársbyrjun og hún hangir á bláþræði. Þrátt fyrir það tekst henni með herkjum að komast í gegnum sumarið og að næstu kosningum. Ríkisstjórnin nær ekki endurkjöri. Ég sé tvö stór hneyksli sem tengjast þingmönnum og eitt sem tengist ráðherra sem eiga sér stað fyrir sumarið. Eitt málið tengist metoo-byltingunni.

Unga kynslóðin kemur sterk inn þegar stjórnmálin eru annars vegar á nýju ári og ég sé mörg ný andlit á Alþingi í kjölfar kosninganna næsta haust og nokkur þeirra eru á þrítugsaldri.

Árið 2021 verður mikið átakaár í stjórnmálum, þrír flokkar munu tilkynna fyrir kosningar að þeir geti ekki hugsað sér samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og munu kynna sig sem nokkurs konar sameiginlegt mótframboð gegn íhaldinu.

Kosningarnar munu svo fela í sér miklar breytingar og nýja leikmenn. Allt er breytt.

Framsókn og Miðflokkur fara í harða kosningabaráttu og skipta á milli sín fylgi miðjumanna. Ég sé þó Framsóknarflokkinn fá meira fylgi að lokum. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra, verður vinsæll sem og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, og verða þau lykilmenn í að landa atkvæðum kjósenda til flokksins. Ég sé Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknar hætta í stjórnmálum og mun Lilja taka við af honum. Sigurður hugar loksins almennilega að heilsunni, þar sem styrkur hans dvínar á árinu og hann breytir um takt í lífinu og nýtur lífsins með fólkinu sínu í stað þess að vera á sífelldum hlaupum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins mætir daglega í líkamsræktina eins og alþjóð og tekur mataræðið í gegn, því hér er talað um ofsakvíða eða ótta sem hann tekst á við. Það er eitthvað ójafnvægi innra með honum og hann fær aðstoð hvað það varðar. Rödd hans er ekki eins hávær árið fram undan og áður.

Flokkur fólksins missir fylgi. Niðurstaða kosninganna er þokukennd en annað hvort mun flokkurinn ekki ná inn á þing eða fá algjöra lágmarkskosningu. Má þetta rekja til tilkomu Sósíalistaflokksins sem tekur til sín stóran slurk af fylgi Ingu Sæland.

Sósíalistaflokkurinn fær til liðs við sig kanónu úr verkalýðshreyfingunni sem verður þeim mikilvægur liðsstyrkur og hjálpar til við að koma þeim inn á þing. Ég sé það ganga eftir og munu þingmenn Sósíalista vera áberandi í pontunni á Alþingi á haustþingi.

Inga Sæland í Flokki fólksins er hávær. Hún kallar og hrópar hér en hún fær ekki þá athygli eða stuðning sem hún gerir ráð fyrir. Hér reynist henni erfitt að sjá árangur erfiðis síns. Flokkurinn fær ekki hljómgrunn og Inga örmagnast.

Inga Sæland, alþingiskona

Píratar munu mælast vel í könnunum fyrir kosningar, enda sækja þeir mikið fylgi til unga fólksins. Hins vegar hefur unga fólkið sögulega verið latt við að mæta á kjörstað og kjósa. Ég sé þó breytingu þar á, ekki gífurlega en þó svo nokkru munar. Unga fólkið er betur upplýst í dag og kjörsókn á aldrinum 18-29 ára verður betri en undanfarna þrjá áratugi.

Vinstri græn og Katrín Jakobsdóttir bíða afhroð í kosningunum. Ég sé þó tveggja stafa tölu í framtíðinni en hún er í lægra falli. Líklega rétt rúmlega 10 prósent. Hjónaband Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins lagðist illa í kjósendur á vinstri vængnum, sem finnst þeim ekki lengur stætt að fylgja Katrínu. Katrín þarf að verjast harðri gagnrýni langt fram eftir næsta ári og sífellt kveður minna að henni. Undir lok kjörtímabilsins er ljóst að Katrín hefur þurft að færa alvarlegar fórnir til að halda ríkisstjórnarsambandinu lifandi, fórnir sem hún sér eftir.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Mynd: Stjórnarráð

Svandís Svavarsdóttir þarf að verjast harðri gagnrýni í byrjun árs, svo harðri að hún hefur ekki upplifað viðlíka áður. Mun það leggjast verulega á hana andlega og mun valda því að hún lætur minna á sér kveða en þjóðin ætti að búast við í heimsfaraldri. Vekur það enn meiri gagnrýni. Ljós mun koma til Svandísar og hún tekur góða ákvörðun sem færir henni sátt á erfiðum tímum.

Sjálfstæðisflokkurinn spilar varnarleik í kosningunum og mælist áfram stærsti flokkurinn á Íslandi, þó minnkar fylgið lítið eitt sem torveldar honum að mynda starfhæfan meirihluta. Bjarni Benediktsson er áfram í broddi fylkingar og verður áberandi í eftirminnilegri kosningabaráttu Sjálfstæðismanna þar sem engu verður til sparað. Bjarni mun flytja ræðu í aðdraganda kosninganna þar sem hann nær að kreista fram eitt eilífðar smátár, en það mun vera sérgrein hans í kosningabaráttu.

Ungir nýliðar munu reyna að hrista upp í ásýnd Sjálfstæðisflokksins sem er orðin þreytt. Jafnvel sveitt. Eða bæði. Já bæði.

Brynjar Níelsson heldur sínu striki. Orðrómur mun ganga þess efnis að hann ætli að segja skilið við þingstörf en sá orðrómur reynist ekki á rökum byggður. Hann verður hins vegar ekki ráðherra, fremur en að vanda.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verða áfram í forystu flokksins, þó mun kveða meira að Þórdísi. Ég sé Áslaugu áfram reyna að setja niður fótinn í málefnum hælisleitenda við litlar vinsældir. Þarf hún að verjast gagnrýni og ásökunum um grimmd og mun það reynast henni þungbært. Ég sé hana taka sér gott sumarfrí þar sem hún leitar sér sálfræðiaðstoðar til að vinna úr reynslunni.

Ég sé líka nokkra umræðu skapast í aðdraganda kosninga um kostnað sem Sjálfstæðismenn hafa varið í almannatengsl og samskiptaráðgjöf. Mun sú umræða skapa nokkra tortryggni um trúverðugleika flokksins og sannleiksgildi loforða hans.

Samfylkingin bætir við sig fylgi svo nokkru munar. Hér kemur önnur sterk kona fram sem öflugur leiðtogi hjá Samfylkingu en það er hagfræðingurinn Kristrún Frostadóttir. Hennar reynsla úr bankaheiminum er hennar styrkur og mun hún vinna öflugt starf fyrir íslensku þjóðina þegar fram í sækir. Hún býður sig fram í Reykjavík og breytir andrúmsloftinu heldur betur. Hún fær góðan hljómgrunn sem leiðtogi og samviskusöm er hún og þess vegna tengir þjóðin við hana.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Nokkur nýliðun verður í þingflokki Samfylkingar og sé ég Ágúst Ólaf Ágústsson hverfa á braut. Logi Einarsson vekur athygli í kosningabaráttunni fyrir að klæðast fatnaði með lóðréttum röndum en hingað til hafa rendurnar verið láréttar. Telja margir þetta vott um afstöðu hans að leiða flokkinn áfram með nýjum áherslum. Logi saknar þess að gefa sér tíma til þess að skapa og teikna. Hann þreytist á þófinu en gefst ekki upp.

Viðreisn bætir einnig við sig og þakka margir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir það enda er hún sterk, en einnig hávær og skynsöm. Engar öfgar eru henni að skapi og hún lætur heldur betur í sér heyra árið fram undan. Fylgi Viðreisnar vex ekki eins hratt og hún hefði viljað. Þorgerður einblínir hér á heildina. Hún er eins og sálugur faðir hennar, sem stendur ávallt við hlið hennar og hún veit það, með hjarta sem slær í takt við fólkið í landinu og ef hún ákveður að ganga í takt við hjartslátt þjóðarinnar þá fyrst nær hún í gegn. Þorsteinn Víglundsson er á öðrum slóðum og það hefur hefur veikt stöðu Viðreisnar.

Bæði Samfylking og Píratar reyna að fá Andrés Inga Jónsson, þingmann utan flokka, til liðs við sig en það gengur ekki eftir.

Að kosningum liðnum taka við æsispennandi viðræður um myndun meirihluta. Þar sé ég framtíðina afar óskýra og mun ráðast mikið af því hvort minni flokkarnir geti náð samstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Þetta verða langar og strangar þreifingar þar sem ekkert er útséð fyrirfram.

Ég sé þó að Bjarni Benediktsson verður ekki forsætisráðherra, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkur myndi meirihluta. Það verður Katrín Jakobsdóttir ekki heldur.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri 

Borgarstjórn heldur áfram að vekja athygli vegna illinda og stórra mála. Áfram verður tekist á um Borgarlínuna en sú umræða fellur þó í skuggann af stóru máli sem kemur upp á vordögum sem er enn eitt málið sem varðar framúrkeyrslu í framkvæmdakostnaði borgarinnar. Ég sé Dag B. Eggertsson segja af sér, ekki vegna hneykslis eða þess háttar heldur vegna langvarandi þreytu og heilsubrests. Dagur vill ný verkefni og bjartari daga. Nýr borgarstjóri verður kona.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Mæðgur naktar saman í Playboy

Mæðgur naktar saman í Playboy
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

Mæðgur tóku þungunarpróf saman – Bjuggust ekki við þessu

Mæðgur tóku þungunarpróf saman – Bjuggust ekki við þessu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Rebel Wilson var rænt og ógnað með byssu – „Ég var skíthrædd“

Rebel Wilson var rænt og ógnað með byssu – „Ég var skíthrædd“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sýnir hvernig það er að vera lömuð með „kvíðavaldandi“ æfingu sem allir geta prófað

Sýnir hvernig það er að vera lömuð með „kvíðavaldandi“ æfingu sem allir geta prófað