fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Fókus

Guðni vill leysa nágrannaerjur vina sinna í Langholti: „Svona vorum við nú kærir vinir og hann bjargaði mér frá Breiðuvík“

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 6. júní 2021 19:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Allar nágrannaerjur eru af hinu illa og enda jafnan með vandræðum. Langholtsdeilan er dæmigerð sem slík. En allar deilur eiga sér þrjár hliðar það er mín hlið, þín hlið og svo sannleikurinn. Að Hreggviður hafi verið heimsóttur 360 sinnum af lögreglunni á 6-7 árum og ekkert gerst til lausnar deilunni er fáránleiki.  Þetta ástand er mannréttindabrot bæði gagnvart honum og Ragnari og Fríði. Að lögreglustjórinn hafi ekki gripið til aðgerða það skil ég ekki. Það er meiriháttar ákvörðun að kalla lögreglu út og slökkvilið, það gera menn ekki sísona. Þetta mál ber að taka föstum tökum og keyra það áfram til lausna og úrslita,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra.

Umræðuefnið er áralangar nágrannaerjur í Langholti í Flóahreppi sem DV hefur fjallað ítarlega um. Nýlega steig Hreggviður Hermannsson, annar deiluaðila, fram í viðtali við DV og lýsti ótrúlegum afskiptum lögreglunnar af málinu sem hefur lítið gert annað en að draga deilurnar á langinn.

Sáttanefndir leystu mál á árum áður

Guðni segir að  á árum áður hafi af og til komið upp deilumál í sveitinni en að forystumenn sveitarinnar, þar á meðal oddvitinn faðir hans, hafi lagt sig fram við að leysa erfið mál.

„Þegar ég var ungur drengur á Brúnastöðum. Þá kom upp deila í Langholti vegna laxveiði milli bæjanna Langholts og Hallanda á milli tveggja ungra frænda. Faðir minn Ágúst á Brúnastöðum var þá bæði oddviti og sáttanefndamaður en þá var skipaður einn slíkur fyrir hverja sveit. Hann tók Mósa sinn og reið í Langholt. Hitti þar deiluaðila. Fyrst Hermann og Guðbjörgu, foreldra Hreggviðs, og Þorstein son þeirra  í Langholti. Það var mikið sómafólk.“

Því næst hafi faðir hans farið að Hallanda og hitt þar hina aðilana að málinu Geir og Margréti, afa og ömmu Margrétar konu Guðna og Óskar son þeirra. „Hann hlustaði á báða aðila, lagði sig svo í laut, setti því næst  fund og kom með tillögu að lausn sem allir féllust á og urðu sáttir. Guðbjörg móðir Hreggviðs var svo þakklát að hún færði foreldrum mínum fullan poka af lopasokkum og lopavettlingum um haustið. Svona voru málin leyst þá en núna ganga sambærileg mál árum saman og snúast upp í að verða lífshættuleg. Eins og um þessa heimtröð sem er svo ekki heimtröð,“ segir Guðni.

Að hans mati er óásættanlegt að svona deilumál séu ekki sett niður. Héraðsdómur hafi til að mynda leyfi til þess að fara sáttaleið og það eigi vel við í þessu máli. „Auðvitað þurfa báðir aðilar að fallast á það en þetta er mál sem menn eiga að leysa.“

Barði Hreggvið í illsku sinni

Í viðtalinu fór Hreggviður með himinskautum og lýsti einnig fjandskap sínum við Framsóknarmenn í sveitinni í gegnum árin og dró þar Ágúst Þorvaldsson, föður Guðna, inn í umræðuna. Þá ræddi hann einnig vináttu sína við Guðna sjálfan í æsku og hvernig samskipti þeirra hafi minnkað á meðan ráðherrann fyrrverandi var á kafi í pólitík. Þau hafi síðan aukist að nýju en að framundan væri slagur við Guðna um netaveiði.

Guðni minnist vinskaparins við Hreggviðs með hlýju og segir hana vara enn. „Hreggviður var með mér í skóla og var gríðarlega hæfileikaríkur, hagur á tré og járn. Teiknaði betur en hinir krakkarnir  og málaði listaverk þá þegar. Hann var mikill og góður námsmaður en aðeins seinn í lestri.“

Hreggviður Hermannsson er mikill hæfileikamaður að mati Guðna

Einu sinni hafi soðið upp úr milli félaganna en þá hafi sættir náðst. „Ég barði hann einu sinni í illsku minni. Hreggviður var nautsterkur, miklu sterkari en ég en ég náði þessu óþverrahöggi. Ég slasaði hann aðeins og var hræddur um að ég yrði sendur á Breiðuvík og rekinn úr skólanum. Þá lagði ég sáttagjörð upp í hendurnar á Hreggviði svo að þetta yrði ekki að neinu máli og myndi aldrei fréttast heim að Brúnastöðum né til foreldra hans að Langholti og allra síst til skólastjórans.“

Hann segir að Hreggviður hafi þá komið með lausnina og sett eitt skilyrði. Að Guðni yrði að lesa upp allar sögubækurnar í skólanum upp fyrir sig til vors og á það féllst Guðni. „Þetta var rétt eftir áramót. Svo las ég allar sögubækurnar fyrir alla krakkana í heimavistinni og Hreggviður varð langhæstur á vorprófi. Svona vorum við nú kærir vinir og hann bjargaði mér frá Breiðuvík. Mér hefur aldrei verið illa við Hreggvið enda er hann eiginlega í minni fjölskyldu. Hann er ljóshærður og bláeygður eins og Gunnar á Hlíðarenda og engum sem hann hittir  dettur í hug að hann sé deilu-maður,“ segir Guðni.

Ekki nóg pláss fyrir Hreggvið og Kára Stefáns á litlu holti

Guðni segir að þrátt fyrir áralangar deilur er Hreggviður ekki óvinsæll í sveitinni þó menn óttast hann kannski. „Hann byrjaði með Hermanni bróður sínum að byggja hús um allar sveitir og engir höfðu við þeim bræðrum í að slá upp. Hermann hefur fylgt bróður sínum, ja ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Nei nei Hermann deilir ekki við neinn og er líkur sínu fólki. Ég hygg að Hermann sé velgjörðarmaður á hverju heimili í sveitinni þar hefur hann smíðað og lagað hús. Nei Langholtsfólkið var mikilsmetið og Hreggviður naut þess. En menn skilja alls ekki þessar illdeilur Hreggviðs. Eitt sinn var Kári Stefánsson að leita sér að jörð, Ragnar hafði auglýst Langholtið til sölu. Ég sagði við Kára nú er góður hrossabúgarður til sölu, austurbærinn í Langholti. Kári svaraði að bragði: ,,Ertu galinn heldurðu að svona lítið holt beri okkur Hreggvið báða.“

Kári Stefánsson taldi útilokað að hann og Hreggviður myndu rúmast á litlu holti.

 

Klögubréfunum var samviskusamlega drekkt

Að sögn Guðna voru þeir félagarnir og krakkarnir ansi fyrirferðarmiklir á þessum árum.

„Já, við vorum óþægir við skólastjórann.  Við vorum í heimavist en á laugardögum gekk ég heim að Brúnastöðum. Þá sendi skólastjórinn mig mjög oft með klögubréfin til pabba. Við Flóaáveituna stoppaði ég alltaf og setti stein í bréfið og drekkti því. Klögumálin komust því aldrei í hendur pabba. Hann var oddvitinn í sveitinni og hefði tekið hart á mér ef hann hefði lesið þessi bréf,“ segir Guðni og getur ekki annað en brosað af minningunum.

Hann segist síðast hafa farið í heimsókn til Hreggviðs í vikunni og fært honum herta þorskhausa eins og hann geri árlega á vorin, og nýja bók fyrir barnabörnin því kallinn er góður afi. „Ég fer nefnilega til Grindavíkur til að ná í þorskhausana á útmánuðum fyrir Margréti mína og Vigdísi systur hennar og svo förum við upp að Stóru Reykjum til Gísla og Jónínu og þurrkum og herðum þá undir þakskeggi. Þetta er besti matur sem til er. Þær rífa hausana eftir kúnstarinnar reglum og hver biti heitir eitthvað. Svo situr maður eins og lítið barn og biður um að fá einn og einn bita með smjöri og kartöflum. Þetta þykir þeim systrum og Hreggviði og Hermanni, bróður hans, náttúrulega betra en jólamaturinn.“

Guðni færir Hreggviði vini sínum herta þorskhausa og bók fyrir barnabörnin í vikunni

Guðni segir það ekki standast neina skoðun að Framsóknarmenn hafi reynst Hreggviði erfiðir. „Ég er á þeirri skoðun að Framsóknarmennirnir sem leiddu mína sveit í heila öld hafi verið höfðingjar. Gísli Jónsson á Stóru-Reykjum, – afi Margrétar – var  annálaður foringi og friðarmaður. Pabbi tók við af honum. Hann var orðlagður sáttamaður og elskaður og dáður í sinni sveit. Langholtsfólkið var ekkert annað en Framsóknarmenn. Svo lýgur Hreggviður því að hann hati Framsóknarmenn! Ef hann hatar Framsóknarmenn þá er hann bara eins og Guðrún Ósvífursdóttir, þeim var ég verst sem ég unni mest. Þá er það bara þannig,“ segir Guðni og er kominn á flug.

„Svo kom Stefán Guðmundsson í Túni. Hann ríkti í 30 ár og var einn mesti friðarmaður og ljúflingur sem ég hef kynnst. Ég man þegar hann fór á þorrablótin, en Stefán tók alltaf þátt í öllu með fólkinu, þegar kallarnir voru orðnir fullir og ætluðu að fara að skammast í Stefáni fyrir eitthvað þá sagði Stefán þessa frægu setningu. Það þýðir ekkert að skamma oddvitann – ég skyldi hann eftir heima.“

Stangveiði og netaveiði geti vel farið saman

Í viðtali DV við Hreggvið segir hann að framundan séu áflog milli stangaveiðimanna og netaveiðimanna. Sjálfur hafi hann hagsmuni af stangaveiði en að Guðni sé í liði með netaveiðimönnum. Meðal annars skrifaði Hreggviður grein sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hann atast í Guðna.

„Hann gerir mikið úr því að ég hafi verið djöfullegur stangveiðimönnum á minni tíð í Landbúnaðarráðuneytinu. Það er einfaldlega ekki rétt. Ég er aðdáandi stangveiði,“ segir Guðni.

Hins vegar verði að líta á sjónarmið beggja aðila. „Jesús Kristur veiddi  í net í Gensesaretvatni en slík veiði hefur verið tíðkuð síðan á hans tímum. Menn taka ekkert netaveiðiréttinn af bændum sem hafa farið með hann í þúsund ár á jörðum sínum nema með samningum. Það er dásamlegt við Urriðafoss í Þjórsá, þessari beljandi jökulá, þar sem bóndinn er búinn að bera allan laxinn á herðum sér, þessa gríðarlegu veiði, upp frá fossinum. Nú koma stangveiðimenn og sækja fiskinn. Hvergi er meira gaman að veiða á stöng en við Urriðafoss þrátt fyrir að bóndinn sé með net neðar í ánni“ segir Guðni og áréttar að þetta tvennt geti vel farið saman ef menn fara að lögum.

„Stangveiðin er ein mesta auðlind sem við eigum. Hingað koma ríkustu menn heims að veiða. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hafði á orði að það væri miklu skemmtilegra að fara með höfðingjana sem kæmu til Íslands í laxveiði en að drekka brennivín með þeim á Hótel Borg. Þannig að ég styð og hef stundað stangveiði sjálfur,“ segir Guðni.

Kallaður netaveiðihundur en ekkert sé fjarri lagi

Á tíma sínum í ráðuneytinu var hann hins vegar uppnefndur grimmilega útaf aðkomu sinni að netaveiði hjá tengdaföður sínum í Hvítá. „Ég veiddi í 10-15 sumur fyrir Hauk Gíslason tengdaföður minn í net við Austurkotseyju, í Hvítá. Það var ævintýri að róa út á ána á kvöldin í fegurðinni eða í morgunbirtunni við fuglasöng. Við Jesús Kristur myndum báðir veiða á stöng í dag, en netin eiga sinn alda gamla rétt eigi að síður,“ segir Guðni.

„Einhverju sinni fékk Stangaveiðifélag  Reykjavíkur  landbúnaðarráðherrann á árshátíð til sín. Það ætlaði allt vitlaust að verða. Ungur uppreisnarmaður gerði að mér hróp með félögum sínum. Ég var kominn  í gin úlfsins. Nú var að duga eða drepast . Mér tókst að halda magnaða ræðu og uppreisnarstrákurinn sem heitir Jón Júlíusson sættist við mig og gaf mér veiðiflugur, við urðum vinir á ballinu.  Ég er langt í frá óvinur stangveiðinnar, það væri heimska.“

Guðni varð veiðikóngur fyrir hádegi

Þegar viðtalinu er nýlokið er eins og sönnur séu færðar á þessa fullyrðingu Guðna. Hann fær þá boð, frá Einari Sigfússyni, um að opna veiðitímabilið í Norðurá. „Þetta verður einn besti dagur lífs míns,“ segir Guðni þegar hann kveður blaðamann og það varð raunin. Guðni varð veiðikóngur fyrir hádegi og fékk tvo væna laxa sem hann gaf líf, rétt eins og Jesús Kristur hefði eflaust gert.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 4 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni