fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Tímavélin: Japani dansaði nakinn og hvítmálaður á Lækjartorgi

Auður Ösp
Fimmtudaginn 23. júlí 2020 20:05

Ljósmynd/Tímarit.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Japanski dans og hreyfi­listamaðurinn Min Ta­naka var umtalaður þegar hann kom fram á tveimur sýningum Listahátíðar í Reykjavík sumarið 1980. Ástæðan var sú að Tan­aka dansaði allsnakinn og hafði þar að auki rakað hvert einasta hár af líkama sínum. Undir dansinum léku japanskir tónlistarmenn undir á slagverkshljóðfæri og einn þeirra jóðlaði i takt við dansinn.

 Í dag kl. 15.00 verður Min Tanaka, japanski dansarinn, með fyrri sýningu sína í Laugardalshöll. Ekki er að efa að sýning hans er með forvitnilegri atburðum á Listahátíð, enda hefur Min Tanaka getið sér orð fyrir sérstæða danslist og hvarvetna hlotið lof gagnrýnenda og óskipta athygli áhorfenda.“

Þannig hófst grein sem birtist í Dagblaðinu þann 7. júní 1980. Fram kom að Min Tanaka dansaði nakinn og nauðrakaður og notaðist ekki við nein hjálpartæki við listiðkun sína. Blaðamaður Þjóðviljans var á meðal áhorfenda í Laugardalshöll og lýsti upplifun sinni í grein sem birtist í blaðinu nokkrum dögum síðar:

„Sá dans eða sú hreyfingalist sem Japaninn flutti var svo langt frá hversdagslegri reynslu okkar að skilningurinn haltrar langt á eftir undruninni og mikill vafi á að hann nái henni nokkru sinni. Fyrst kom Japaninn inn í regnkápu og tók eins konar forskot á það sem síðar kom. Í seinna skiptið birtist hann í opnum dyrum íþróttahallarinnar allsnakinn og rak- aður. Hreyfingar hans voru í fyrstu firna hægar, eins og reynt hefði verið að hægja á tímavélinni, þannig valt hann inn gólfið, fjarlægur á svip eins og hugurinn væri enn austur í Japan.

En mestallan þann tíma sem þessi sérstæða sýning stóð var Min Tanaka á fótum, hann sveigði og hneigði með einkennilegum hætti og einhver líkti hreyfingunum við krampa. Nema hvað, eftir því sem lengra leið komu aðstoðarmenn Min Tanaka meira við sögu. Þeir börðu á slagverk, dauft og strjált í fyrstu, eða skutust um að baki áhorf-enda og töluðu fuglamál, sem dansarinn að lokum tók undir. Engin saga var sögð, en ferill sýningarinnar var fólginn í eins konar stigmögnun, í æ ofsafengnari hreyfingum í svitabaði, í miklum bumbuslætti undir lokin.“

Dáleiðandi áhrif

Í dagskrá hátíðarinnar var haft eftir Min Tanaka að hann vildi með atriði sínu stefna á að koma á sambandi staðar, tíma og rúms, skapa þeim er á hann horfa nýjar víddir, kenna þeim að líta sjálfa sig og umhverfi sitt í öðru ljósi en þeir hafa vanist. Blaðamaður Þjóðviljans efaðist um að Tanaka hefði tekist ætlunarverk sitt í Íslandsheimsókninni.

„Hræddur er ég um að slík og þvílík kraftaverk hafi ekki gerst meðal áhorfenda í Laugardalshöll, og voru þeir þó forvitnir vel og velviljaðir því sem fram fór. En þeir höfðu orðið fyrir óvenjulegri reynslu, sem í einhverju líktist dáleiðsluáhrifum.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Tanaka flutti atriði sitt tvisvar á Listahátíð, í fyrra skiptið í Laugardalshöll, og svo aftur á Lækjartorgi nokkrum dögum síðar. Blaðamaður Vísis settist niður með Tanaka að lokinni sýningu á Lækjartorgi. Í viðtalinu lét Tanaka meðal annars hafa eftir sér að „nektin tæki enga afstöðu.“ Blaðamaður Vísis lýsti fundi þeirra svo:

„Min Tanaka er hæglátur maður og rólegur við fyrstu sýn en býr augljóslega yfir firnamiklum krafti. Dans hans er á einhvern hátt ofurmannlegur, ómannlegur, en ótrúlega magnaður.“

Tanaka tjáði blaðamanninum að hann fyndi það mjög vel að nekt hans kæmi óþægilega við Íslendinga.

Ljósmynd/Tímarit.is

„Þegar ég dansa hér finnst mér að sú staðreynd að ég er nakinn skipti áhorfendur meira máli en dansinn sjálfur, ólíkt öðrum stöðum sem ég hef dansað á. Hvers vegna ég dansa nakinn?“ Min Tanaka glotti. „Var það ekki í ykkar blaði sem spurt var hvort dans minn væri list eða „strip-tease“? Allt í lagi, þetta eru venjulega viðbrögðin sem við fáum. Ástæðan fyrir nektiinni er einfaldlega sú að ég er að reyna að losa mig við hvers konar menningarlega umgjörð. Sko til, ef ég dansaði í einhverjum vissum búningi væri um leið auðvelt að tengja mig við eitthvað sérstakt menningarumhverfi, Japan til dæmis. Og þó ég hefði ekki nema hár: sítt hár, stutt hár, þetta þýðir allt saman eitthvað. Ég vil forðast svona einfaldar lausnir, leitast við að vera hlutlaus, algildur. Nektin tekur enga afstöðu. Þegar ég hafði losað mig við allar þær menn- ingarlegu klisjur sem ég gat þákomstégaðþvíaðégvar orðinn næstum nakinn!“

Blaðamaður Vísis skrifaði að þótt Íslendingum fyndist erfitt að skilja listina og það sem lægi að baki dansi Min Tanaka, væri óumdeilt að listamanninum hefði tekist að koma töluverðu róti á hugsanir fólks.

„Með komu sinni á Listahátíð hefur hann altént knúið fólk til umhugsunar. Það má þó alltaf teljast nokkurs virði, hvað sem öðru líður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“