fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024
Fókus

„Ég strauja ekki fyrir þig, ég faxa ekki fyrir þig, ég vélrita ekki fyrir þig.“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 13. júní 2020 08:00

Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og byggingaverkfræðingur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilborg Yrsa Sigurðardóttir er orðin landsþekkt og gott betur fyrir löngu. Glæpasögur hennar eru seldar í yfir 100 löndum, en hún er ekki bara einn virtasti glæpasagnahöfundur landsins, byggingaverkfræðingur, móðir og amma, því hún er einnig ötul talskona kvenréttinda.

 

Yrsa, eins og hún er alltaf kölluð, er dóttir fyrsta íslenska kvendoktorsins í stærðfræði, Kristínar Höllu Jónsdóttur, og Sigurðar B. Þorsteinssonar smitsjúkdómalæknis. „Ég er ákaflega stolt af foreldrum mínum. Ég á líka eina systur, Laufeyju Ýri, sem er barnalæknir á Landspítalanum. Þau eru öll svakalega klár,“ segir Yrsa en systir hennar er sérfræðingur í taugalækningum og átta barna móðir, svo vinnusemi virðist þeim systrum í blóð borin.

Læknanámið látið fjúka

Því liggur beinast við að spyrja hvort Yrsa hafi aldrei hugsað sér að læra til læknis. „Jú, jú. Ég var að spá í að fara í læknisfræði en svo fór ég sumarið eftir stúdentinn að vinna á MS Eddu,“ segir Yrsa, og vísar í íslenskt skemmtiferðaskip sem sigldi milli Íslands, Englands og Þýskalands. „Ég var sum sé á sjó þetta sumar, svo að foreldrar mínir sóttu um háskólanám fyrir mig. Það var þeirra mat að ég væri ekki efni í lækni, enda var ég ógurlega latur námsmaður. Ég hefði aldrei náð að sinna náminu eins og þurfti enda er læknisnámið ákaflega krefjandi,“ segir hún og hlær. Þetta stingur í stúf við þá staðreynd að Yrsa hefur gefið út eina bók á ári samhliða vinnu í tvo áratugi, fyrir utan tveggja ára hlé þegar hún skipti úr barnabókum yfir í glæpasögur. „Ég er nú enn frekar afslöppuð, en dugleg þegar ég tek mig til. Ástæðan fyrir því að ég hef komið þessu í verk er að ég hef engin önnur áhugamál. Ég er ekki í líkamsrækt eða golfi og átti lengst af ekki sjónvarp.“

Yrsa og fjölskylda áttu ekki sjónvarp um árabil en hún segir það ákveðinn tímaþjóf. Það hafi hins vegar verið ákveðið í kjölfar þess að hún bauð í Eurovisionpartí, án þess að eiga sjónvarp, að líklega væri kominn tími á tæki. Gestunum var nefnilega ekki skemmt.

Foreldrar Yrsu þekkja greinilega dóttur sína vel, því fagið sem þau skráðu hana í á hug hennar allan. „Það er nú ekki alveg þannig að þau hafi ákveðið að ég yrði verkfræðingur, en það var eitthvað sem ég hafði nefnt áður og þau sóttu því um það, enda ekki hlaupið að því að ná í mig í síma á þessum tíma, stadda úti á rúmsjó.“

Úr varð að Yrsa lærði til verkfræðings og starfar enn sem slíkur. „Verkfræðin er mjög skemmtileg og á vel við mig. Núna þegar ég er farin að minnka við mig vinnu get ég líka valið mér verkefni sem mér finnst skemmtileg. Það hefði verið erfiðara að velja sér skemmtilega, lítið veika sjúklinga.“

Heimurinn myndi loga

„Fyrsta alvöru starfið mitt var vinna hjá verktaka suður með sjó, Ellerti Skúlasyni hf. Þar var ég fyrsta konan sem var ráðin í eitthvað annað en að elda mat. Það var mjög gaman að vinna þar og mér var tekið ótrúlega vel. Þar vann ég í eitt ár. Ég held að það sé oft auðvelt að vera fyrsta konan. Þá fylgir manni nýjabrum sem hjálpar til, svo fremi sem vinnustaðurinn er ekki eitraður.“

Yrsa er vön því að vera eina konan á staðnum, en hún var eina konan sem útskrifaðist sem byggingaverkfræðingur árið 1988. „Í dag er þetta ekki eins og þegar ég var að byrja. Þá voru nánast engar konur í framkvæmdum. Það var slatti af konum inni á verkfræðistofunum en ég var úti í skurði. Það var samt aldrei neitt vandamál. Ég hef alltaf bara reynt að vera eins og ég er. Ég held að það sé ekkert fengið með því að við konur reynum að haga okkur eins og karlmenn. Það bara gengur ekkert upp. Ef við breyttumst allar í karlmenn myndi heimurinn loga stafnanna á milli. Það þarf þessa blöndu.“

 

Yrsa gefur í fyrsta skipti í ár út tvær bækur fyrir jólin.

Kynjahlutfallið vonlaust

Yrsa hefur sjaldnast ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og segist snemma hafa gert sér grein fyrir því að hún yrði að hafa fyrir því að útvega sér þekkingu og reynslu.

„Ég var spurð hvort nafnið mitt mætti vera í tilboði, þegar verkfræðistofan sem ég vann hjá sóttist eftir að sinna eftirliti með stíflum og göngum, sem til stóð að bjóða út í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Í svona útboðum er reynt að safna saman teymi fólks með sem mesta reynslu og þekkingu og allar kanónurnar notaðar í tilboðið. Ég sagði já við því að nafnið mitt yrði þar á meðal, en sé svo síðar að ég er eina konan á lista þeirra sem eiga að vera á svæðinu að sinna eftirlitinu.
Ég sá strax að það kynjahlutfall væri vonlaust. Þarna áttum við að vinna og búa saman í fleiri ár. Það skipti miklu máli að þarna yrðu fleiri konur og yngra fólk upp á dýnamíkina, en þegar mest lét vorum við á milli 60 og 100 manns í eftirlitinu. Íslensku stofurnar í þessu samstarfi sameinuðust um að breyta þessu og undir lokin voru konur rúmlega 30 prósent starfsmanna í stað þess að ég væri sú eina og ungt fólk var í bland við gömlu kanónurnar.“

Tilboðinu var tekið og nú þurfti að standa við stóru orðin og flytja rúmlega 900 kílómetra frá fjölskyldunni. „Þegar það kemur að því að við fáum þetta verk, þarf ég að standa við það að hafa sett nafnið mitt í tilboðið. Þá áttaði ég mig líka á því, þegar maður stígur inn í sögulega karllægt umhverfi, að þetta er það sem þeir hafa látið sig hafa að mestu möglunarlaust. Farið frá fjölskyldum sínum og unnið uppi á hálendi í snjóstormum og algjörlega einangraðir, nú eða úti á sjó. Til að vera með þurfti ég að stíga út fyrir þægindarammann alveg eins og þeir. Ég gat ekki ætlast til þess að fá afslátt eða undanþágu af því að ég væri kona. En það hefði verið svo sorglegt ef öll sú reynsla sem fékkst í þessu mikilvæga og flókna verkefni hefði farið til erlendra aðila eða eingöngu til karlkyns verk­ og jarðfræðinga.“

Sex ára dóttirin eftir heima

Yrsu fannst lítið mál að búa í hálfgerðum sumarbústað og kveinkar sér ekki þegar álagið berst í tal, en unnið var á vöktum, tíu daga í vinnu á móti fjórum dögum heima hjá fjölskyldunni. Yrsa og eiginmaður hennar, Ólafur Þór Þórhallsson, eiga dótturina Kristínu Sól og soninn Mána. Dóttir þeirra hjóna var aðeins sex ára gömul og við það að byrja í skóla þegar Yrsa pakkaði ofan í ferðatösku og flutti að Kárahnjúkum. „Pabbi hennar steig inn og sinnti bæði móður­ og föðurhlutverkinu á meðan ég var í burtu. Svo reyndum við að hafa þetta þannig að þau komu nánast aðra hverja helgi austur og ég kom heim hinar helgarnar á móti.“

Hún segir ekki hafa verið mikið um grát í síma, þó að dóttirin hafi auðvitað saknað móður sinnar, en sonur hennar var fluttur að heiman. „Pabbi hennar sinnti henni svo vel. Dóttir mín var með dálítið ruglað hár þarna um tíma, en annars gekk þetta vel og þeim fannst gaman að koma upp eftir til mín.“

Vinnuslysin hryllingur

Verkefnið tók alls rúm fimm ár en Yrsa bjó á Kárahnjúkum í um fjögur ár. Það er langur tími í krefjandi vinnu og aðstæðum, í alls konar veðri. Hún segist þó aldrei hafa fengið upp í kok. „Ég held að stór hluti af því hafi verið hvað það var fjölbreyttur hópur þarna. Unga fólkið var duglegt að skipuleggja gönguferðir og halda félagslífinu gangandi.“ Hún segist aldrei hafa upplifað sig óörugga á Kárahnjúkum, þó að það hafi vissulega ekki verið notaleg tilfinning að keyra í bandbrjáluðu veðri upp bratta fjallshlíð og yfir heiðina til að komast að svæðinu.
„Ég reyndi hvað ég gat að vera samferða Þorgrími Árnasyni, öryggisstjóranum okkar, sem er afburðagóður bílstjóri. En það urðu mörg bílslys sem blessunarlega fóru ekkert allt of illa, nema hvað bílana sjálfa varðaði. Hins vegar voru vinnuslysin sem urðu algjör hryllingur. En ég upplifði mig aldrei í hættu enda mikið inni að garfa í pappír.“

Ég strauja ekki fyrir þig

Yrsa var titluð tæknistjóri eftirlitsins og var einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem stofnað var fyrir rekstur eftirlitsins. Hún segir að almennt hafi íslensku karlmennirnir á svæðinu ekki komið öðruvísi fram við hana af því að hún var kona, en það hafi erlendu mennirnir gert. „Ég lenti í því til dæmis að það var eldri erlendur karlmaður sem var að biðja mig um að hjálpa sér að strauja skyrturnar sínar. Svona asnalegar uppákomur gerðust ítrekað til að byrja með. Á endanum var þetta orðið hálfgert grín, ég var farin að setja gula miða á hurðina hjá mér sem á stóð allt það sem ég gerði ekki; ég strauja ekki fyrir þig, ég faxa ekki fyrir þig, ég vélrita ekki fyrir þig.“ Gulir miðar bættust jafnt og þétt við og létu vinnustaðagrínararnir ekki sitt eftir liggja og bættu við alls kyns grínmiðum á hurðina.

Yrsa brosir að minningunni í dag en segir þessar óskir um allrahanda aðstoð hafa komið sér spánskt fyrir sjónir á sínum tíma. „Þegar ég var orðin nokkuð pirruð á þessu spurði ég einn þessara útlendinga hvernig honum dytti í hug að labba út allan ganginn, fram hjá fullt af fólki sem hafði minna að gera en ég og banka hjá mér til þess
að spyrja mig að því hvort ég gæti ljósritað fyrir hann, eða hvað það nú var. Þá sagði greyið maðurinn: Þeir eru svo fúlir, meðan þú ert svo almennileg!“

Yrsa segir að þar standi hnífurinn einmitt í kúnni. „Við konur erum oft liðlegri að aðstoða og hjálpa. Ég held að þetta sé ekki það að það sé litið niður á mann af því að maður er kona, heldur að fólk búist frekar við því að því verði betur tekið ef það biður um aðstoð. Við erum sneggri til að þjónusta.“


Viltu kaffi?

Yrsu er umhugað um kvenréttindi og hefur opinberlega rætt um hvað gæti betur farið til að ýta ungum konum í átt að markmiðum sínum. „Ef þú ætlar að vera fagmanneskja og ná langt er, held ég, mikilvægt að varast það að fara að þjónusta fólkið í kringum þig. Byrja fundinn á að bjóða öllum kaffi og betri stól. Það eru allir voðalega glaðir og ánægðir og finnst þú mjög næs, en það er hætt við að festast í því hlutverki, þjónustuhlutverki. Þetta getur leitt af sér annað sem mér finnst óþægilegt að horfa upp á, sem er þegar mjög flottar og klárar konur koma sér í það hlutverk að vera besti vinur aðal. Þá á ég við að gíra sig í það að vera ofboðslega liðleg við þann sem er yfir og aðal. Gera hluti fyrir hann sem eru þeim í raun ekki samboðnir. Í stað þess að setja orkuna í að taka þau skref sem þarf til þess að verða aðal sjálf, ef það er það sem heillar.“

Í því samhengi nefnir Yrsa að henni finnist of mikil áhersla meðal ungs fólks á að verða stjórnandi. „Allir eiga að vilja vera stjórnendur. Kannski er ég bara gamaldags, en þegar ég var að læra verkfræði  var það toppurinn að vera sérfræðingur. Að kunna eitthvað rosalega vel í staðinn fyrir það að vera alltaf að fara yfir tímaskýrslur, sinna starfsmannamálum og sitja fundi. Það er ekkert allra. Það er ekkert bara upphefð í því.“

Bækur gefa forskot í félagsþroska

Yrsa segir barnabækur gefa börnum mikilvægt forskot í félagsþroska og kenna þeim samkennd. „Með lestri læra börn að setja sig í spor annarra og finna fyrir samkennd. Þú þarft ekki að lenda í einelti til þess að upplifa hvað það er hræðilegt, sem dæmi. Ég fór því upprunalega að skrifa barnabækur fyrir son minn, sem hafði engan sérstakan áhuga á lestri.“ Sjálf hafði Yrsa alltaf mestan áhuga á krimmum og les þá helst sjálf. Rómantískar dægurmálasögur sjást því ekki á hennar á náttborði.

Hún segist meðvitað hafa forðast að skrifa sjálf ekki hræðilegri glæpasögur með hverju árinu. „Ég man þegar ég skrifaði Sogið að ég var uppfull af reiði eftir að hafa kynnt mér nokkur gömul mál þar sem illilega var brotið á börnum. Eftir þau skrif áttaði ég mig á því að ég yrði að stíga eitt skref til baka. Ég gæti ekki farið út í það að reyna að toppa síðustu bók í óhugnaði. Bókin þar á undan, DNA, hafði einmitt verið fremur andstyggileg. Ef ég myndi halda því áfram myndi ég bara enda í „torture porn“, eins og það kallast á ensku. Ég tók þá ákvörðun að forðast að vera alltaf með andstyggilegri og grafískari morð en í síðustu bók, ekki það að morð séu nokkurn tíma hugguleg.“

Mun aldrei skrifa rómans

Að því sögðu nær Yrsa vissu jafnvægi í ár, en þetta er fyrsta árið sem hún sendir frá sér tvær bækur, eina barnabók og eina glæpasögu. Það skapast visst jafnvægi með því að vinna í tveimur svo ólíkum verkum samtímis. „Það virkar í raun eins og smá frí að fara í barnabókaskrifin á milli þess sem ég skrifa krimm ann. Dóttir mín er mjög góð að teikna og hún var mikið hjá okkur í Covid-fárinu þegar ég sat við skriftir og úr varð að hún teiknar myndirnar í barnabókinni.“

Aðspurð hvort dóttir hennar sé menntuð listakona kemur á daginn að hún er hátækniverkfræðingur. „Ég var alltaf með stýrimannadrauma fyrir hennar hönd. Mér fannst vanta konur í sjómennsku en hún hafði engan áhuga á því. Hún er að fara í framhaldsnám í gervigreind og stýrikerfum og ég er afskaplega glöð með það. Ef það á að fara að forrita líf mitt og umhverfi vil ég að konur komi einnig að. Bæði kynin þurfa að starfa við þróun gervigreindar og sjálfstýringa, sem eru þegar farnar að breyta lífi okkar allra svo um munar. Ég er því ægilega ánægð að hún fór ekki á sjó og  er í þessu núna.“

Máni, sonur Yrsu og Ólafs, er vélaverkfræðingur og því ljóst að Yrsa hefur reynst þeim heilmikil fyrirmynd. Í því sem glæpasagnahetja Íslands er kvödd kemur ástin upp í hugann, þar sem Yrsa hefur átt sama manninn frá því á menntaskólaaldri. Þau eiga vel saman og eru sterk eining. Er enginn séns á að þú hendir í einn rómans?
„Nei. Aldrei. Kannski heimsendabók eða SciFi. En aldrei rómans.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Draumateymið eru stjörnurnar sem hafa tröllriðið fyrirsögnum ársins – Fyrrverandi J. Lo, Baby Reindeer parið og Gypsy Rose

Draumateymið eru stjörnurnar sem hafa tröllriðið fyrirsögnum ársins – Fyrrverandi J. Lo, Baby Reindeer parið og Gypsy Rose
Fókus
Fyrir 2 dögum

Skömmunum rignir yfir RÚV – „Vér mótmælum öll“

Skömmunum rignir yfir RÚV – „Vér mótmælum öll“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þakkar litlu Ellý fyrir að standa með sér – „Þú hefur sýnt það og sannað að þú trúir á okkur“

Þakkar litlu Ellý fyrir að standa með sér – „Þú hefur sýnt það og sannað að þú trúir á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég geri mitt besta til að lifa einn dag í einu og gera það besta úr hverjum degi sem mér er gefinn“

„Ég geri mitt besta til að lifa einn dag í einu og gera það besta úr hverjum degi sem mér er gefinn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?

Skaftáreldar 1783–1784 – Voru þeir örlagavaldur í þróun vestrænna samfélaga?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarinn segir það hjálpa ferli sínum að vera lögblindur

Leikarinn segir það hjálpa ferli sínum að vera lögblindur