fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Fókus

Hannaði eitt flottasta hostel landsins og gefur góð ráð við sumarhúshönnun

Tobba Marinósdóttir
Mánudaginn 1. júní 2020 11:00

Arna Þorleifsdóttir, innanhúshönnuður

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með bærilegra hitastigi fara sumarhúsaeigendur að rífa fram pallaolíuna og hlýraboli, en margir hverjir hyggja á að breyta og bæta, eða jafnvel byggja. Innanhússhönnuðurinn Arna Þorleifsdóttir kemur hér með skotheld ráð fyrir huggulegra sumarhús.

Arna Þorleifsdóttir lærði innanhússhönnun í KLC School of Design í London og útskrifaðist árið 2009. Hún vann meðal annars fyrir hönnunarstofurnar London Design Group Ltd. og Mdesign London, áður en hún flutti heim til Íslands árið 2012. „Verkefnin voru mörg en toppurinn var að vinna í teymi að hönnun W hótelsins við Leicester Square,“ segir Arna sem í dag tekur að sér hin ýmsu verkefni bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. „Með árunum hef ég sérhæft mig í eldhúsum og baðherbergjum og ásamt því að vera sjálfstætt starfandi vinn ég líka hjá Eirvík og teikna þar sérsmíðaðar innréttingar frá bulthaup og Häcker.“

Hlaða varð að hönnunarparadís

Arna segist reyna að sameina það klassíska og djarfa, „hönnun sem endist en er um leið djörf“. The Barn er verkefni sem Arna kom að og í því kristallast einmitt þetta stórkostlega jafnvægi á milli klassíkur og töffaraskapar. „Einn eigandi The Barn, Ásgeir Einarsson, bað mig um að hanna konsept fyrir nýbyggingar sem þeir stefndu á að opna árið 2017 og hlutu nafnið Black Beach Suites. Það var unnið út frá byggingateikningum Birkis Kúld í BK hönnun. Litlar einbýlis-svítur með útsýni yfir Reynisfjöru. Þetta var virkilega skemmtilegt verkefni – við vildum einfalt umhverfi, stílhreint og þægilegt. Útsýnið skipti öllu. Innréttingar voru svo sérsmíðaðar í hvert horn.“ „Í framhaldi ákváðu eigendurnir að auka umsvifin og var ákveðið að endurbyggja stóra hlöðu á jörðinni. Hún var hrá og falleg, með ekta íslenska steinsteypta veggi, sem fengu að njóta sín. Sett var milliloft og húsið klætt með lerki – ásamt því að gluggarnir voru gerðir svartir. Unnið var með hugmyndina „poshtel“, eða glæsi-farfuglaheimili, með kojurýmum og einkaherbergjum. Hostelið fékk nafnið The Barn. Það kom ótrúlega skemmtilega út og hafa viðbrögð gesta verið mjög góð.“

Sumarhúsahönnun – pottþétt ráð

Hafandi hannað slíka glæsigistingu úti á landi, hefur Arna góða innsýn í hönnun sumarhúsa. Hún segir ytri stíl hússins og smekk eigenda spila stórt hlutverk og að algengt sé að fólk sækist annaðhvort eftir notalegum sveitastíl, eða eftir stílhreinu og heldur mínímalísku húsi.
„Í sumarhúsum þykir mér oft koma vel út að fara í andstæðu við heimili sitt. Mér finnst sumarhús verða að vera tilbreyting frá heimilinu. Eitthvað sem hjálpar þér að slappa af og kúpla þig út. Til dæmis, á meðan þú vilt kannski hafa allt einfalt heima, hafa fáa hluti og vel flokkaða – gæti verið sjarmerandi að hafa það hrárra í bústaðnum. Til dæmis opna skápa, hangandi potta og pönnur og sleifar í krús. Antík, teppi og skrautlista.“ Arna segir fólk mega vera óhrætt við ólík efni sem gefi mismunandi upplifun. Svo er það praktíkin sem þarf að hafa í huga. „Mikilvægt er að hafa góða skápa í eða út frá forstofu, þar sem hægt er að geyma klæðnað fyrir mismunandi veðráttu – þannig að það þurfi ekki endilega að ferja allt á milli heimilis og sumarhúss í hvert skipti.“ Í stofunni skiptir svo sköpum að hennar sögn að hafa mjög þægilegan sófa sem umvefur fjölskylduna og góðan hægindastól fyrir lestur og prjónaskap.

Má panellinn lifa?

Mörg íslensk sumarhús eru klædd viðarpanel að innan, sem fólk hefur hamast við að mála samkvæmt nýjustu tísku, en er sú tíska á undanhaldi? „Ég elska íslenskan 80’s sumarhúsapanel. Mér finnst stundum mjög flott að leyfa honum að vera upprunalegum. Mála gluggana dökka, skella upp PH 5 Paulsen ljósi og skapa danska og hráa stemmingu. Kamelbrúnt leðursófasett, fullt af góðum bókum og praktískt eldhús. Sleppa þess vegna of miklum skrautmunum. Á hinn bóginn getur líka komið virkilega vel út að mála hann í fallegum lit og gluggana hvíta. Taka loftin þess vegna í sama lit. Lofthæðin þarf ekki að vera mikil til þess. Það er líka glæsilegt að mála veggi ljósa og loft dökk eða í litum.“

Panelinn hér er algjört konfekt. Mynd: Pinterest

Umhverfismat fyrir pallasmíð

Pallar eru oft framlenging á sumarhúsum og heimilum landsmanna, enda Íslendingar líklegir til að sitja úti í öllum veðrum. Lykillinn að smart og notendavænu útisvæði, að mati Örnu, er umhverfismat sem eigendur þurfa að framkvæma, svo nýtingin sé sem best og útlitið njóti sín. „Pallurinn er mikilvægur. Bestu stundir í sumarhúsum eru oft um hásumar og það er gott að hafa góða aðstöðu. Það er mikilvægt að byggja pallinn í takt við sólarstöðu, til að fá sem flestar klukkustundir í sól. Mér finnst fallegt þegar hann er til dæmis byggður í takt við villt kjarrið og birkið. Falleg garðhúsgögn og sófar eru fáanleg í mörgum verslunum í dag og er gaman að geta tekið á móti mörgum á pallinum. Góð geymsla undir pullur og púða er sniðug lausn. Það þarf vart að nefna mikilvægi pottsins í góðum bústað og falleg, gamaldags útisturta til dæmis úr kopar er frábær til að minnka álagið á sturtunni inni.“

Hugmyndafundur á 34.900 krónur

Aðspurð um kostnað við að ráða innanhússarkitekt segir Arna að það sé mjög misjafnt, en hún bjóði upp á hugmyndafundi sem séu allt að 90 mínútur fyrir 34.900 krónur. „Fólk er að biðja um hönnun fyrir alls kyns rými. Frá sérteikningum fyrir sérsmíðaða barnakoju, upp í hótelhönnun. Mörgum hentar ráðgjöf á staðnum – jafnvel fyrir hjón að viðra sínar hugmyndir sem þau geta ekki verið sammála um. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt, að hjálpa til við málamiðlanir,“ segir hún, en ætla má að það sé töluvert streituminnkandi að fá málamiðlara í verkefnið, séu íbúar með mjög ólíkar hugmyndir og skoðanir.

 

Hér má sjá myndir af The Barn:

Mynd: Birgitta Stefánsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 6 dögum

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“
Fókus
Fyrir 1 viku

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“
Fókus
Fyrir 1 viku

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó
Fókus
Fyrir 1 viku

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“