fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Hilmir Snær telur metoo-byltinguna hafa farið yfir mörk um tíma: „Eðlilega á enginn að slá í rassa eða káfa á brjóstum sem þeir þekkja ekki“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 14. mars 2020 09:05

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja frægðarsól Hilmis Snæs Guðnasonar hafi risið svo að segja á einni nóttu því strax eftir útskrift varð hann eftirsóttur leikari.

Ferilinn hófst í Hárinu sem sett var upp í Gamla bíói en þar fór Hilmir með eitt af aðalhlutverkunum. Hann segir athyglina fljótlega hafa orðið áþreifanlega. „Ég hef alltaf reynt að vera auðmjúkur gagnvart þessu. Auðmýktin skilar manni lengst og bestu leikarar sem ég hef hitt eiga það sameiginlegt að vera bæði lítillátir, mjúkir og kátir. Ég hef reynt að tileinka mér þeirra hugarfar því það skilar manni mestu, sem og að hlusta á fólkið í kringum sig. Ég finn alveg fyrir frægðinni og er vanur því, en það er ekkert sem íþyngir mér. Ég finn aldrei fyrir neinu áreiti þannig – fólk er meira að koma og þakka manni fyrir, sem er gleðilegt. Ég held að við hér á Íslandi verðum síður stjörnustjörf nema ef við sjáum einhverri Hollywood-stjörnu bregða fyrir, en við látum nú fólkið okkar mestmegnis í friði. Þetta er bara eins og hvert annað starf, ég gæti alveg eins verið pípari, þótt þetta sé ekki beint iðnaður snýst þetta um ákveðið verklag, skipulag og vinnu og auðvitað smá sköpun, sem betur fer.“

Mynd: Eyþór Árnason

En íslenska smæðin hefur vissulega tvær hliðar og spurður hvort hann finni fyrir Gróu á Leiti segist Hilmir hafa fundið vel fyrir nærveru hennar í gegnum tíðina. „Auðvitað hafa oft verið sögur, bæði sannar og ósannar, og óhjákvæmilega finnur maður fyrir því, en það er eitthvað sem venst. Hvar sem maður kemur er talað um mann og stundum hefur maður ekki verið passasamur og þá fer það út um allt, en aðra stundina er maður meira að passa sig.“

Nauðsynlegt hverri byltingu að ganga of langt
Æfingar á leikverkinu Oléanna standa nú sem hæst en sýningin verður frumsýnd síðar í mánuðinum. Hilmir sér um leikstjórn en þau Ólafur Darri og Vala Kristín fara með hlutverk tvö. Sýningin vísar að miklum hluta til þeirra breyttu viðhorfa sem #metoo-byltingin hafði í för með sér. Spurður hvernig það hafi verið að fylgjast með atburðarásinni, bæði sem starfsmaður innan leikhússins og líka sem faðir, segist Hilmir taka breytingunni fagnandi. „Nú á ég tvær dætur, önnur er tuttugu og fimm og hin er tíu ára. Í ljósi þeirra finnst mér þetta auðvitað þörf bylting. Eðlilega á enginn að slá í rassa eða káfa á brjóstum sem þeir þekkja ekki, en það er hlutur sem ég held að ég hafi aldrei gert sjálfur og mjög margir karlmenn hafa ekki gert það, þótt vissulega hafi maður séð þetta. Þessi bylting var því andskoti þörf og ég tek henni fagnandi því það þurftu allir á henni að halda og að skoða það hvernig við berum virðingu hvert fyrir öðru. Við megum ekki ganga of langt í okkar samskiptum, en að því sögðu tel ég að hún hafi farið yfir ákveðin mörk, um tíma. Ég held að núna fyrst séum við að finna jafnvægi, en kannski er það nauðsynlegt hverri byltingu að ganga aðeins of langt. Við eigum kannski eftir að endurskoða hana síðar meir þegar við lítum í baksýnisspegilinn, þá sjáum við fyrst hvað það var sem gerðist. Auðvitað fer þetta líka í hina áttina og maður hefur sjálfur orðið fyrir svona, það er ekkert skemmtilegt en það er eins og karlmenn eigi frekar að taka því. Jafnvel eftir að byltingin komst í hámæli lenti ég í þessu einu sinni eða tvisvar og maður á bara að taka því. Hins vegar er maður bara fullorðin manneskja og kann að koma sér út úr svona aðstæðum. Maður þarf ekkert að æsa sig yfir öllu, en maður bendir bara kurteislega á þetta eða færir sig og fer eitthvert annað.“

Viðtalið í heild má lesa í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“