fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Fókus

Mikilvægt að leggja ekki árar í bát

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 9. febrúar 2020 10:08

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er einn af hugmyndasmiðum dagbókanna MUNUM en samhliða fyrirtækjarekstri vinnur hún að lokaverkefni sínu í samstarfi við Barnaheill. Þóra segist elska að vinna ólík verkefni á fjölbreyttum sviðum en innblástur hugmynda sinna sækir hún úr ólíklegustu áttum.

Sjálf lýsir Þóra sér sem tveggja barna móður úr Kópavogi sem elskar kjötsúpu, ferðalög og ævintýri. Hún er viðskipta- og markaðsfræðingur að mennt og er í þann mun að ljúka meistaranámi í stjórnun og stefnumótun. „Ég hef fengist við ýmislegt fram til dagsins í dag og hef alltaf elskað ólík verkefni sem veita mér ástríðu. Í dag starfa ég sjálfstætt en það fyrirkomulag hentar mér vel. Mér finnst gaman að geta sett upp mismunandi hatt fyrir hvern dag, en suma daga er ég viðburðastjóri, aðra er ég að vinna í Dokobit, sem er fyrirtæki sem við maðurinn minn rekum og tengist því að rafvæða ferla og gera vinnu fólks skilvirkari með því að nota rafrænar undirskriftir. Einnig er ég að vinna í lokaverkefni mínu í samstarfi við Barnaheill sem felst í því að fá fyrirtæki til að opna augun fyrir því að innleiða barnvænar stefnur í fyrirtæki sín og hvaða ávinning það getur haft í för með sér og svo er það auðvitað MUNUM, sem á stóran hlut af hjarta mínu.“

Mikilvægt að endurskilgreina markmiðið
Spurð hvernig hugmyndin að dagbókunum hafi kviknað segir Þóra að hvatvísi hafi ráðið för. „Við Erla Björnsdóttir, samstarfskona mín og vinkona, deildum saman skrifstofu í Austurstræti á þeim tíma sem hugmyndin að dagbókinni kviknaði. Það má segja að dagbækur hafi tengt okkur saman, en báðar vorum við alltaf með nokkrar bækur í einu sem héldu utan um ólíka þætti og við vorum báðar alltaf að leita að hinni fullkomnu dagbók, sem innihéldi alla þá þætti sem okkur fannst skipta máli að hafa í dagbók. Þegar vonin dvínaði um að við myndum finna þessa bók ákváðum við að búa hana til sjálfar. Þetta var í október 2014 og við ætluðum að gefa bókina út fyrir jólin sama ár. Eins og svo oft þegar maður á sér einhvern draum eða markmið sem maður vill framkvæma þá tekst það ekki í fyrstu tilraun, en þá er svo mikilvægt að leggja ekki árar í bát og gefast upp, heldur að endurskilgreina markmiðið eða drauminn sem við eigum. Í okkar tilviki var það tímaramminn sem var algjörlega óraunhæfur, en að gefa út dagbók fyrir jólin og byrja á henni í október með enga reynslu eða þekkingu á því sviði, er algjörlega galið. Í staðinn fyrir að leggja árar í bát settum við nýjan tímaramma; að gefa hana út ári seinna, í stað þess að hugsa að okkur hefði mistekist. Þá allt í einu varð markmið okkar um að gefa út þessa bók rau nhæft, þótt það hefði á sama tíma verið krefjandi.

Mynd: Eyþór Árnason

Það var auðvitað mikið út fyrir öryggisrammann okkar að leggja af stað í þetta ferðalag og við óttuðumst fjölmargt sem tengdist því að gefa þessa bók út. Hvað ef enginn kaupir dagbókina og hún er algjör tímaskekkja á snjallöldinni sem við lifum á? Hvað ef það væru nú vitleysur í henni? Og svo lengi mætti telja. En það er það besta við það þegar maður stígur út fyrir öryggishring sinn að þá gerist oft eitthvað magnað. Þess vegna er svo mikilvægt að leggja óttann til hliðar og þora að kýla á hlutina. Í stað þess að hugsa; hvað ef þetta klúðrast?, viljum við snúa hugsuninni við og spyrja; hvað ef þetta fer bara nákvæmlega eins og mig dreymir um og gangi bara sjúklega vel? Ef við temjum okkur þess konar hugsunarhátt og hættum að óttast mistök sem eru hluti af lífinu, erum við miklu líklegri til að láta vaða. Í þessu tilfelli seldist bókin upp á fjórum dögum og við fórum í nýtt prent. Við höfum gefið hana út árlega síðan og erum að selja hátt í tíu þúsund bækur á ári, svo við vorum sannarlega ekki einar um það að elska dagbækur. Við höfum verið að reyna að koma henni að á erlendum mörkuðum og erum á hverju ári að stækka á því sviði, en það er mikil þolinmæðisvinna og við ætlum okkur að halda áfram, en þar liggja helstu tækifæri okkar til stækkunar. Við elskum þó að sjá hvað við erum komnar með sterkan hóp hérna heima sem notar bókina ár eftir ár og er að hjálpa okkur í að móta hana og betrumbæta.“

Algengustu mistökin að láta draumana ekki rætast
Þóra lýsir dagbókinni sem hefðbundinni þótt sérstaða hennar felist í að auðvelda fólki markmiðasetningu, tímastjórnun og að efla jákvæða hugsun á einfaldan og árangursríkan hátt. „Það er ótrúlega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að setja okkur markmið sjálf, þá fyrir okkur en ekki bara vinnutengd. Ef maður hefur ekkert markmið í persónulegu lífi má segja að maður sé stefnulaus, eða hafi ekki sýn á hvert mann langar að fara, gera eða upplifa í lífinu og lendi því hugsanlega oft í aðstæðum sem maður kaus ekki endilega sjálfur. Eða maður upplifir að maður framkvæmdi aldrei það sem löngunin stóð til í lífinu. En þegar fólk er spurt að því á dánarbeðinum hverju það sæi mest eftir í lífinu þá er algengasta svarið að viðkomandi hafi varið of miklum tíma í vinnu eða aldrei látið drauma sína verða að veruleika. Við erum svo ótrúlega oft að bíða, bíða eftir rétta tækifærinu eða hinum fullkomna tíma til að láta draumana rætast. En þessi fullkomni tími á silfurfati kemur sjaldnast og því þurfum við að sjálf að búa til tímann og aðstæðurnar til að láta þessa hluti verða að veruleika.“

Mynd: Eyþór Árnason

Sjálf lýsir Þóra verkferlinu sem lærdómsríku þar sem stöllurnar renndu blint í sjóinn og þurftu því að læra frá grunni allt sem fólst í því verkefni að gefa út bók. „Þetta á aðallega við um allt sem varðar uppsetningu og hönnun, en til að lágmarka alla áhættu við verkefnið ákvað ég að læra að gera það sjálf og hef séð um uppsetningu og hönnun á dagbókinni sem og öðru efni sem við gerum. Erla er sálfræðingur og með doktorsgráðu í líf- og læknavísindum og svo kem ég úr allt annarri átt, sem kemur sér vel í verkefni eins og þessu, en svo sameinumst við í þessari miklu ástríðu fyrir skipulagi, tímastjórnun, markmiðasetningu og í raun í vinna í því að láta drauma okkar rætast. Við höfum haldið okkur við útgáfu á dagbókinni síðustu ár og það að reyna að koma henni á markað erlendis, en það er þolinmæðisverkefni sem stækkar þó alltaf með hverju ári. Við höfum verið síðustu ár að vinna þetta samhliða annarri vinnu og öðrum verkefnum, en erum að gefa aðeins í núna, árið 2020, með því að gefa út nýjar MUNUM-vörur sem eru væntanlegar á næstu vikum og mánuðum.“

Tíminn það mikilvægasta sem við eigum
Og Þóra viðurkennir að líf hennar hafi tekið stakkaskiptum eftir að hún hóf að skipuleggja tíma sinn betur. „Ég afkasta mun meiru á styttri tíma en ég næ líka að halda utan um drauma mína og markmið og reyna á markvissan hátt að láta þá verða að veruleika. Það er svo mikilvægt að skipuleggja tímann vel, ekki síst til að hafa tíma til að gera það sem okkur finnst skemmtilegt og það sem nærir okkur. Öll eigum við það sameiginlegt að hafa jafn margar klukkustundir í sólarhringnum og að við höfum ekki endalausan tíma. Það þekkja allir eitthvert fólk sem virðist hafa fleiri klukkustundir í sólarhringnum en aðrir, en það fólk á það yfirleitt sameiginlegt að skipuleggja tíma sinn og markmið vel og veit þannig hvert það er að fara. Við verðum því að taka tímann alvarlega, því hann er það mikilvægasta sem við eigum og eitt því fáa í þessum heimi sem fæst ekki fyrir peninga. Veitum honum athygli og pælum aðeins í hvað tíminn okkar fer í. Við vinnum 1.500–2.000 klukkustundir á ári, en erum við ánægð í þeirri vinnu sem við erum í? Verjum tíma í það sem nærir okkur andlega og líkamlega en ekki bara skyldur og það sem við verðum að gera? Verjum tíma með fólki sem gefur okkur orku en tekur hana ekki frá okkur. Oft hættir okkur til að umgangast fólk af vana eða skyldurækni. Ég mæli svo innilega með því að fólk velti þessu fyrir sér. Við Erla erum einmitt að bjóða upp á námskeið nú í febrúar þar sem við munum fara yfir alla þessa þætti og fá fólk til að leggja línurnar fyrir árið og svo auðvitað framtíðina, ná tökum á betra skipulagi og tímastjórnun og hvetja fólk til að leyfa sér að dreyma og kýla á það sem það langar til að gera. Hægt er að lesa meira um það á munum.is ef einhver hefur áhuga á því, en Meistaramánuður er að ganga í garð um helgina og því gott tækifæri til að reyna að verða eins góð útgáfa af þér og hægt er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Jóhanna Guðrún opnar sig um umfjöllunina eftir að vinir Sjonna sigruðu: „Ég fékk vægt taugaáfall“

Jóhanna Guðrún opnar sig um umfjöllunina eftir að vinir Sjonna sigruðu: „Ég fékk vægt taugaáfall“
Fókus
Í gær

Hilary Duff setti fylgjuna í þeyting og finnst það „ennþá ógeðslegt“

Hilary Duff setti fylgjuna í þeyting og finnst það „ennþá ógeðslegt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tíu vinsælustu TikTok myndböndin

Tíu vinsælustu TikTok myndböndin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bubbi um ástæðu slagsmálanna: „Ég sá mann girða niður um stelpu“

Bubbi um ástæðu slagsmálanna: „Ég sá mann girða niður um stelpu“