fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Tímavélin – Soltnu úlfarnir og fegurðin

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 7. desember 2020 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fegurðin… fegurðin. Flestar konur grípa áfergjulega hvert fegurðarráð eins og soltnir úlfar. Hvort ráðin eru góð, hvort þau lækna ágalla viðkomandi er ómögulegt að fullyrða nema með tilraunum. En konurnar eru þolinmóðustu og fúsustu tilraunadýr í heiminum,“ svo sagði í Alþýðublaðinu í maí 1959. Krem, farði, mataræði, fatnaður, líkamsburður, mál og fas. Margt er það sem konur hafa talið sig þurfa að huga að til að vera aðlaðandi í gegnum tíðina. Konan hefur í aldanna rás þurft að glíma við kröfur samfélagsins um æsku og fegurð, en slíkar kröfur eru íþyngjandi og oft og tíðum mannskemmandi. Sem betur fer hefur þróun síðustu ára verið í þá átt að þær einu kröfur sem kona ætti virkilega að reyna að uppfylla eru að vera heilbrigð og hamingjusöm, þó svo því markmiði sé oft erfitt að ná geta flestir verið sammála um að það markmið sé jákvætt.

Engu að síður stendur okkur til boða heill hafsjór af ýmsum kremum, smyrslum og tólum sem eiga að gera líf okkar og útlit betra. Þannig var það líka í gamla daga þó úrvalið hafi þá verið heldur minna. Og þar sem vantaði upp á úrvalið redduðu konur bara málunum með hinu og þessu sem þær áttu heima við.

Ostrur og hrá eggjarauða

„Fegurð sjáum við t.d. í hreinu hörundi, grönnum líkama, tindrandi augum og hraustu hári,“ sagði í Vikunni í nóvember 1977. Þar fylgdu með góð ráð til að viðhafa snyrtilegt útlit. Svo sem með því að sofa á bakinu til að fyrirbyggja hrukkumyndun, og líka ostruát. „Lærðu að meta ostrur og annan hráan mat eins og „buff-tartar“ með hrárri eggjarauðu. Engum finnst neitt athugavert við að borða hrátt grænmeti.“

Það voru ekki öll fegrunarráð góð frá þessum tíma en mörg þeirra voru hins vegar alls ekki galin og eiga enn fullan rétt á sér í dag, þó ekki endilega hvað fegurð varðar heldur hvað varðar heilsu og heilbrigði. Í Samtíðinni í nóvember 1963 sagði:

„Það er ákaflega mikilvægt í sambandi við útlit þitt og vellíðan að læra að hvíla sig algerlega eða „slappa af“, eins og oft er sagt í daglegu tali.“

Í Samvinnunni í júní 1951 voru birt svonefnd fegurðarboðorðin tíu. Meðal þeirra ráða var að forðast hægðatregðu og æfa líkamsstöðu með því að setja bók á höfuðið. Sítrónusafi var vinsæll og notaður meðal annars til að lýsa hár og húð. Mjólk og súrmjólk þóttu hentugar í maska enda er vitað í dag að sýran sem er að finna í bæði sítrónu og mjólkurvörum getur hjálpað húðinni að losna við dauðar húðfrumur.

Gúmmíkefli og megrunarráð

Megrunarráðin voru hins vegar oft frekar furðuleg miðað við þá þekkingu sem við búum að í dag, auk þess sem nú er það margsannað að megrun er skaðleg heilsunni.

„Þar til gerðu gúmmikefli er rennt um líkamann, einkum þar, sem fita hefur safnazt á hann. Renna skal keflinu ekki sjaldnar en hundrað sinnum yfir þá staði, sem á að grenna.,“ sagði í Samtíðinni í desember 1953. Konum var ráðlagt að reyna að nudda burt fituna, skrúbba hana eða hreinlega forðast nánast allan mat. Þessum ráðum var beint til ungra stúlkna í Æskunni árið 1965:

„Þær ungar stúlkur sem vilja halda línunum, eins og það er kallað, ættu að forðast allan mat, sem skapar fitu. Mest fitandi tegundir matar eru þessar: Svínakjöt, feitt kjöt, heilagfiski, feitur fiskur, lax og síld. Steikt kjöt og fiskur er meira fitandi en soðið. Mjólkursúpur, sætar súpur, mjólkurgrautur með mjólk út á, mjólk súr og ósúr, rjómi, smjör. Allar sósur eru fitandi, bæði feitar og sætar. Mayonnese, rjómabúðingar, eggja- og mjólkurbúðingar, brauð og kökur.“

Hörkumeðferðin

Árið 1940 sagði í Morgunblaðinu frá amerískri fegrunaraðferð sem kallaðist „Hörkumeðferð“, sagði svo um hana: „Fínustu dömurnar standa á höfði þrátt fyrir alls konar lokkaskrýfingu, því það kvað hreinsa svo vel húðina og slétta hrukkur. Á snyrtistofum láta þær lemja sig allar að utan með hárpískum þar til tárin koma fram í augun til þess að koma blóðinu á hreyfingu.“

Í þessari aðferð fólst að skrúbba húðina á líkamanum vel og vandlega með naglabursta og að toga hressilega í hárið á sér. Eins átti að bursta hár sitt svo hressilega að „það standi út í allar áttir eins og á broddgelti.“

Ekkert undanskilið

Enginn hluti líkama kvenna virtist undanskilinn útlitskröfunum. Mikið var lagt upp úr snyrtilegum höndum og fótum og áttu konur að vera mjúkar og sléttar. Í Vikunni í febrúar 1952 sagði: „Það er undravert að sjá hve margar konur hafa ljóta olnboga. Ef húðin er gróf og hörð er alveg hættulaust að nota vikur (pimpstein) til þess að ná því mesta“.

Litið til baka í den

En líkt og við lítum til baka einmitt nú, var það einnig gert hér forðum þar sem menn furðuðu sig á fegrunarráðum fortíðarinnar.

Í Vísi árið 1941 var litið til baka: „Sjötíu ára kona segir að í bernsku hafi sér verið skipað að bera bækur á höfðinu í margar klukkustundir á hverjum degi. Það átti að gefa henni fallegra göngulag. Hún átti líka að hlaupa upp og ofan stiga oft á dag. Það átti að koma blóðinu á hreyfingu og var talið hollt. Sólböð mátti ekki tala um, það var hneyksli og ekki nokkurri siðlegri stúlku sæmandi.“

Þar er einnig vísað í frásögn 87 ára konu um fegrunaraðferðir æsku sinnar. „Þá sóttum við vatn í bolla að nóttu til þegar tungl var í fyllingu. Þetta vatn urðum við að sækja í einhvern brunn, sem var í námunda við kirkju. Við sólarupprás urðum við að drekka vatnið, en þá urðum við að vera stödd í kirkjugarði, því annars kom það ekki að neinum notum. Eftir nokkra mánuði kom undraverður árangur í ljós“. Níræð kona kom með enn furðulegri aðferð. Hún hafi átt að búa til meðal gegn hrukkum og var það meðal annars búið til úr seyði af hvítum baunum, soðinni hænu og hundafeiti.“

Líklega var það besta ráðið sem fram kom í Sjómannablaðinu í janúar 1982: „Besta fegrunarlyf konu er nærsýnn maður“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Í gær

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla