fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Heimskonan Margrét – Átján daga stefnumót og ævintýri alls staðar

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 14. nóvember 2020 08:00

Margrét Jónsdóttir Njarðvík Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsborgarinn Margrét Jónsdóttir Njarðvík elti ástina til Siglufjarðar og er nú orðin rektor Háskólans á Bifröst. Í foreldrahlutverkinu hefur hún lagt áherslu á að láta muna um sig í lífinu.

Forsíðuviðtal við Margréti sem birtist fyrst í helgarblaði DV 6. nóvember má lesa hér í heild sinni.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík tók við sem rektor Háskólans á Bifröst í sumar. Þegar tilkynnt var um ráðningu hennar í janúar óraði engan fyrir þeim áhrifum sem COVID-19 ætti eftir að hafa á menntakerfið í heild sinni.

Á Bifröst er hins vegar yfir 20 ára reynsla af fjarnámi og þykir skólinn framúrskarandi á því sviði. „Bifröst er algjörlega COVID-klár háskóli og nýtur góðs af því nú,“ segir hún.

Það kemur því vart á óvart að þetta viðtal er tekið í gegn um fjarfundarbúnað, Margrét á Bifröst og blaðamaður í Reykjavík. Það getur verið erfitt að ná tengslum í gegnum tölvu en persónuleiki Margrétar er svo sterkur og afgerandi að hann nær samt að skína í gegn um vélbúnaðinn. Hún er hlý og hláturmild, persónuleg og æðrulaus. Margrét er ekki kona í tómi. Hún lætur um sig muna.

Fjölskylda Margrétar var ein af þeim fyrstu sem fluttu í Breiðholtið þegar það var að byggjast upp. „Við bjuggum í Ljósheimum þegar ég fæddist en árið 1968, þegar ég er alveg að verða tveggja ára, flytjum við í Bakkahverfið þar sem ég er alin upp. Breiðholtið hafði ákveðinn stimpil á sér og við Breiðholtsvillingarnir svokölluðu upplifðum að við þyrftum alltaf að sanna okkur þrefalt á við aðra. Ég held að úr bekknum mínum séum við átta sem eru með doktorsgráður, þrátt fyrir að alast upp í þeirri trú að við værum ekki jafn merkileg og krakkar í öðrum skólum.

Bifröst er ákaflega góður skóli en lengi hafa þeir sem ekki sjá dýrðina í fjölbreytni háskólamenntunar í landinu talið sig hafa veiðileyfi á Bifröst, alveg eins og það var veiðileyfi á krakka úr Breiðholtinu. Þess vegna finn ég að ég á vel heima hér, í háskóla sem er talaður meira niður en nokkur innistæða er fyrir,“ segir Margrét sem hefur átta ára reynslu af störfum hjá Háskóla Íslands og níu ára reynslu af störfum hjá Háskólanum í Reykjavík. Nú sé kominn tími til að Bifröst njóti sannmælis.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík Mynd/Stefán Karlsson

Vill leika sjálf í leikritinu

Margir þekkja Margréti sem stofnanda og eiganda ferðaskrifstofunnar Mundo. Fyrirtækið sérhæfir sig meðal annars í þjálfunarferðum íslenskra kennara erlendis, skiptinámi og sumarbúðum ungmenna á erlendri grundu auk þess að annast ráðgjöf í alþjóðamálum. Hún er með doktorspróf í spænsku og bókmenntum frá Princeton University og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún var lektor í spænsku við HÍ og síðan dósent við viðskiptadeild HR, auk þess að stýra alþjóðasviði skólans.

Hvað einkennir góðan stjórnanda?

„Góður stjórnandi er góður hlustandi og hann hefur nokkur kíló af hugrekku í sitthvorum rassvasanum. Góður stjórnandi lyftir öðrum upp. Hann passar að vera þjónandi og greiða götu fólksins sem hann er að vinna með,“ segir hún sem raunar rímar vel hugmyndafræðina á Bifröst þar sem boðið er upp á nám í þjónandi forystu.

Hún stofnaði Mundo 2011 eftir að hafa misst vinnuna. „Tíu dögum seinna var ég búin að stofna Mundo. Fyrst ætlaði ég að vera með styrkjaráðgjöf því ég er góð í að ná í alþjóðlega styrki en svo fannst mér ekkert skemmtilegt að sækja um styrki nema ég væri sjálf að leika í leikritinu,“ segir hún og hlær. „Ég fór því að hugsa um hvar styrkleikar mínir lægju; ástríða, hæfileikar og menntun.“

Jakobsvegurinn breytti lífinu

Margrét kynntist Spáni þegar hún fór sjálf út sem skiptinemi og þá varð ekki aftur snúið. „Ein af mínum bestu vinkonum enn í dag er „mamma“ mín á Spáni. Ef við heyrumst ekki einu sinni í viku, þrjátíu og sex árum síðar, þá heyrumst við tvisvar eða þrisvar í viku. Við höfum gert svo margt saman í gegn um árin. Ég setti á laggirnar sumarbúðir í gamla þorpinu mínu hjá henni og bjó til skiptinám á Spáni, Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum.“

Hún situr í stjórn Félags kvenna í atvinnurekstri, hefur lengi hvatt aðrar konur áfram á ýmsan hátt, meðal annars til að stofna fyrirtæki, en viðurkennir að hún hafi sjálf haft efasemdir um Mundo fyrstu tvö árin, eða réttara sagt haft efasemdir um sjálfa sig. „Mér fannst ég þurfa að fá mér alvöru vinnu og þorði ekki að setja alla orkuna mína í þetta verkefni. Mundo tók síðan flugið en ég þurfti að heyra það frá góðri vinkonu að ég ætti að veðja á sjálfa mig. Oft eru stærstu hindranirnar innra með okkur sjálfum. Það tók mig tíma að fá trú á sjálfa mig.“

Meðal þess sem Mundo hefur boðið upp á eru ferðir um Jakobsveginn sem Margrét hefur farið fimmtán sinnum, hvorki meira né minna. „Ég fékk fyrst áhuga á honum þegar ég fór út sem skiptinemi. Allar fallegustu minjar byggingarlistasögu miðalda eru við Jakobsveginn. Ég var alltaf að reyna að draga fyrrverandi manninn minn með mér á Jakobsveginn en ég fór síðan í fyrsta skipti með nokkurra vikna fyrirvara árið 2012. Ég spurði þá bara á Facebook hver vildi koma með mér og ein vinkona mín var nógu vitlaus til að segja já,“ segir Margrét hlæjandi en snýr sér fljótt að alvörunni.

„Þetta var lífsbreytandi fyrir mig. Við hjóluðum Jakobsveginn og gerðum ekkert annað en að borða, sofa og hjóla. Þarna var lífið einfaldað niður í þessar grunneiningar og það fer óhjákvæmilega eitthvað magnað af stað í huganum á manni þegar maður skynjar andann á veginum.“

Margrét Jónsdóttir Njarðvík Mynd/Stefán Karlsson

Uppgötvaði að hún var frumkvöðull

Margrét var gift í þrjátíu ár og það var skömmu fyrir skilnaðinn sem fyrsta ferðin af fimmtán var farin. Jakobsvegurinn er ein vinsælasta gönguleið heims og er gjarnan tengdur við andlega vinnu. „Við förum öll í gegn um lífskrísur, sumir velja að gera ekki neitt og þær verða að stóru graftarkýli. Margir upplifa ákveðin skil á milli líkama og sálar, tengslaleysi sem myndast þegar við hlustum ekki á okkur sjálf. Með því að fara Jakobsveginn er eins og maður nái að tengja sig aftur og nái utan um sjálfan sig. Mér finnst ég hafa verið fjarlæg sjálfri mér á ákveðnum tíma í lífinu en ákvað svo að axla ábyrgð á sjálfri mér, eiga stefnumót við sjálfa mig og sinna sjálfri mér.“

Hún segir að hennar eigin ferðalag til þroska og umbreytinga hafi í raun byrjað um áratug fyrr þegar hún byrjaði í Háskólanum í Reykjavík. „Það var þá sem ég fattaði að ég var frumkvöðull,“ segir Margrét sem þá var komin hátt á fertugsaldur. „Ég hafði verið að vinna hjá opinberri ríkisstofnun og skildi ekki af hverju ég var alltaf með kúlu á enninu. Þarna uppgötvaði ég að það var því ég passaði ekki inn í kassann. Í HR fékk ég frjálsar hendur og frjóan jarðveg og vinnan var eins og frjór blómsturpottur fyrir mig. Ég bjó til spænsk-íslenska /íslensk-spænska orðabók, stofnaði alþjóðasvið skólans og ásamt öðrum meistaranám í alþjóðaviðskiptum. Ég fór síðan í MBA-nám þar sem ég tók kúrs um frumkvöðla og áttaði mig þá á minni eigin frumkvöðlavinnu í gegn um árin. Í MBA-náminu fór ég að vinna með sjálfa mig og varð alltaf jákvæðari og bjartsýnni.“

Hér kemur blaðamaður með þá athugasemd hversu magnað það sé að uppgötva seint á fertugsaldri að maður sé frumkvöðull en Margrét skellir upp úr: „Þetta heitir að vera seinþroska!“

Fullt hús af alþjóðlegum gestum

Um tvítugt flutti Margrét í Vesturbæinn í Reykjavík þar sem hún hefur alið manninn flest ár sín á Íslandi. Heimili hennar hefur almennt verið afar alþjóðlegt og alltaf pláss fyrir alþjóðlega gesti. Eftir skilnaðinn fór hún þá leið að leigja út herbergi með fæði til að halda húsinu og var þá oft margt um manninn. „Ég var um tíma með eina úr Vestmannaeyjum, einn hálfspænskan og eina kínverska. Synir mínir þurftu stundum að spyrja: „Mamma, hver er þetta?“ Þeir, sem finnst óþægilegt að tala ensku, hafa í gegn um tíðina forðast að koma óboðnir í heimsókn því það eru alltaf einhverjir útlendingar á heimilinu.“

Eða þannig var það. „Alveg þar til ég elti ástina á Siglufjörð árið 2017. Þrátt fyrir allt mitt doktorsnám og meistaranám þá var ekkert sem nýttist mér jafn vel og að hafa búið í þrjú ár á Siglufirði áður en ég flutti á Bifröst.“

Eiginmaður Margrétar er Hálfdán Sveinsson sem á Hótel Siglunes á Siglufirði og rekur hinn margrómaða marokkóska veitingastað. „Ég fékk mikinn áhuga á byggðaþróun eftir að ég flutti þangað og fór að skilja landsbyggðina svo miklu betur. Það er ekkert sjálfsagt að allt sópist til höfuðborgarsvæðisins, það er verið að gera svo frábæra hluti um landið allt. Ég hef búið um allan heim – í Mexíkó, í Bandaríkjunum, á Spáni – en aldrei hef ég fengið jafn mikið menningarsjokk og þegar ég flutti til Siglufjarðar sem er mjög fyndið. Ég fattaði þá hvað við getum gert mikið fyrir landið okkar. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum til að halda Íslandi öllu í byggð. Við þurfum fleira fólk inn í landið okkar og við þurfum að dreifa byggðinni. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð okkar. Það er gott að hugsa um að bjarga heiminum og loftslagsmálunum en byrjum heima hjá okkur og hlúum að öllu landinu þannig að það haldist í byggð. Unga fólkið á erindi út á land.“

Hún stýrði ferðaskrifstofunni Mundo síðan frá Siglufirði og var því komin með þriggja ára reynslu af fjarvinnu fyrir tíma COVID-19. „Það þurfti að vera einn starfsmaður á skrifstofunni, annars gat starfsfólkið bara verið hvar sem er og unnið að heiman. Það sem skipti máli er ekki hvar þú ert heldur að þú náir árangri með þau verkefni sem þú ert að sinna.“

Margrét Jónsdóttir Njarðvík Mynd/Stefán Karlsson

Átján daga stefnumót

Samtals eiga Margrét og Hálfdán fimm börn, hún þrjá syni og tvö stjúpbörn, sem öll eru komin yfir tvítugt. Og blessuð börnin voru áhrifavaldar að kynnum þeirra. „Ég skildi í mars 2015 og í júní hitti ég systur Hálfdáns sem sagði mér að bróðir hennar hefði einmitt líka verið að skilja. Síðan gerist ekkert fyrr en tveimur árum seinna. Þá skráði besti vinur sonar míns mig á stefnumótaforritið Tinder og sonur Hálfdáns skráði hann á Tinder – og við „mötsuðum“. Við töluðum ekki saman í síma eða hittumst fyrr en mánuði seinna þegar við vorum búin að senda hvort öðru alls um þrjú hundruð blaðsíður. Ég var þá hætt að sinna Mundo og hann hættur að sinna hótelinu sínu,“ segir hún, augljóslega alveg bálskotin.

„Ég bauð honum þá í tebolla sem varð að átján daga stefnumóti sem lauk bara því ég þurfti að fara til útlanda. Við hittumst fyrst í sumarbústaðnum mínum í Borgarfirði. Við erum sannkallaðar tvíburasálir og bæði skemmtilega hvatvís. Það liðu því bara nokkrir dagar þar til hann kynnir mig fyrir foreldrum sínum og segir að hér sé komin konan sem hann ætli að giftast. Ég kynnti hann síðan fyrir pabba. Þetta gerðist allt mjög hratt og hefur verið mikið ævintýri. Ég kikna enn í hnjánum þegar ég sé hann. Það er eins og að vinna í happdrætti lífsins að kynnast einhverjum sem nennir þér eins og þú ert.“

Fyrir heimskonu eins og Margréti gæti margur ætlað að það væri stórt skref að flytja út á land, jafnvel til að elta ástina, en henni fannst þetta aldrei spurning. „Ég hefði líklega hugsað þetta öðruvísi ef ég hefði ekki farið Jakobsveginn fimmtán sinnum, ef ég hefði ekki fundið næringuna og gleðina sem náttúran hefur alltaf veitt mér. Í þessu COVID-hruni í mars þegar allir voru í panikk var ég bara á gönguskíðum í eyðifirðinum Héðinsfirði. Auðvitað hafði ég áhyggjur því ég vissi að ég var að tapa svakalega miklum peningum þar sem allar ferðir féllu niður en ég náði að njóta stundarinnar þar sem ég var alein á gönguskíðum í tunglskini að horfa á spikfeita rebba fara um hlíðarnar. Þessi náttúrutenging gaf mér svo mikla orku og heilun. Ég er mikið náttúrubarn í mér og náði að hætta á blóðþrýstingslyfjum eftir að ég flutti á Siglufjörð.“

Og frumkvöðullinn Margrét fór af stað með gönguskíðanámskeið Mundo á þessum frábæra stað. „Fólk fór alveg á gönguskíði á Siglufirði en það voru engin námskeið. Nú eru gönguskíði bara málið og rosalega mikið bókað. Stundum fæ ég svolítið góðar hugmyndir,“ segir hún og kímir. „Stundum kemur þú inn í nýtt umhverfi, kemur með þínar hugmyndir og nærð að skapa.“

Ræturnar í Borgarfirði

Þá voru það lítil viðbrigði að flytja á Bifröst en þar liggja rætur Margrétar. „Pabbi er fæddur hér í Borgarfirðinum, í Fljótstungu á Hvítársíðu. Mamma kom í Borgarfjörðinn sem kennslukona og hér kynntust þau. Ég er því komin í fótspor mömmu og pabba. Maðurinn minn núverandi er líka úr Borgarnesi þannig að ég tengist samfélaginu sterkt. Fyrsta morguninn sem ég fór út að hlaupa í morgunsólinni á Bifröst heyrði ég hamarshögg. Þarna voru þá komnir smiðir sem voru að vinna hjá móðurbróður mínum í Borgarnesi og ég þekkti pabba þessara ungu smiða. Ég er komin á stað sem skiptir mig miklu máli og ég vil byggja samfélagið á Bifröst upp þannig að það tengist út allan Borgarfjörðinn.“

Hún segir Háskólann á Bifröst hafa þá sérstöðu að þar nemi margir af landsbyggðinni sem búi svo áfram í sinni heimabyggð eftir útskrift. „Þeir sem fara af landsbyggðinn í háskóla í Reykjavík ílengjast þar oft. Bifröst skiptir því miklu máli fyrir byggðaþróun í landinu og er ótrúlega merkilegur háskóli upp á það að gera. Fyrir þá sem kjósa fjarnámið þá er það umhverfisvænt og fer vel með tíma þinn þar sem það sparar ferðir til og frá skóla. Þú getur hlustað á fyrirlestra á meðan þú ferð í gönguferð eða horft á þá um leið og þú eldar kvöldmatinn. Hér eru kennarar með mikla reynslu og þekkingu af fjarkennslu og finnst gaman að kenna á þann hátt.“

Meistaranám í forystu og stjórnun, viðskiptalögfræði og menningarstjórnun er meðal þess sem hefur notið hvað mestra vinsælda meðal nemenda. Nú á haustönn var bryddað upp á þeirri nýbreytni að taka á móti nemendum á miðri önn en annir á Bifröst skiptast í lotur þannig að hæg voru heimatökin. „Þúsundir hafa misst vinnuna síðustu mánuði. Við ákváðum að sýna samfélagslega ábyrgð, taka á móti nemendum beint inn í seinni lotu annarinnar og það mæltist afar vel fyrir. Það skiptir máli fyrir fólk á krossgötum að hafa val um að fara í nám og gera eitthvað uppbyggilegt.“

Margrét Jónsdóttir Njarðvík Mynd/Stefán Karlsson

Metfjöldi nemenda

Hún segir metfjölda nemenda við skólann í vetur og aldrei fleiri í meistaranáminu. Þá er nú í fyrsta skipti boðið upp á diplómanám í skapandi greinum. Þetta er hagnýtt nám þar sem lögð er áhersla á að læra með því að koma skapandi hugmyndum og verkefnum í framkvæmd. „Nemendur koma þá inn með hugmynd – kannski að bók sem þá langar að skrifa eða fyrirtæki sem þá langar að stofna – vinna að hugmyndinni í heilt ár og fá námskeið fyrir hvert þrep í ferlinu. Í lokin er hugmyndin fædd. Það er allt of algengt að við látum ekki drauma okkar rætast. Hér breytum við því.“

Næsta haust verður boðið upp á nýtt meistaranám í því sem hefur verið kallað áfallastjórnun, eða „master of disaster“. Margrét segir þetta einstaklega viðeigandi eftir hið mikla hamfaraár 2020 en námið er skipulagt í samstarfi við ríkislögreglustjóra, Rauða krossinn, Landsbjörg og Slökkviliðið, meðal annarra. „Þetta ár byrjaði með óveðri og rafmagnsleysi víða um land. Það var síðan bara byrjunin,“ segir hún.

Mamma í vegagerð

Margrét segir sig búa að því að hafa alist upp með fyrirmyndir sem létu til sín taka í samfélaginu. „Mamma var ein af þeim sem stóðu að kvennafrídeginum, fór í leiðsögunám, öldungadeildina, háskólann og vann úti. Hún var af fyrstu kynslóð íslenskra kvenna sem voru alltaf í vegagerð, alltaf að búa til nýja vegi og fara gegn almenningsálitinu. Það getur verið erfitt en líka skemmtilegt.“

Synir Margrétar hafa ekki síður verið óhræddir við að feta eigin brautir. Tveir þeirra, Snorri og Bergþór Mássynir, halda úti hinum vinsæla hlaðvarpsþætti Skoðanabræður þar sem þeir fara ekki í grafgötur með skoðanir sínar. Snorri er blaðamaður á Morgunblaðinu og Bergþór umboðsmaður hljómsveita og með útvarpsþátt um rapp. Hann er við það að hefja nám í fjölmiðlafræði. Þriðji bróðirinn er Ari sem býr í Ástralíu og talar tíu tungumál. „Hann var að vinna sem landvörður fjóra mánuði á ári og ferðaðist þess utan um heiminn og lifði á loftinu.“

Margrét var svo ekki svikin um stjúpbörn en Sveinn Gunnar starfar sem sálfræðingur og Kristín er í mastersnámi í CBS í Danmörku. Og hún er bara nokkuð stolt af þessum krakkaskara.

„Ég vona að mér hafi tekist að gefa þeim hugrekki til að láta bara vaða. Ég held að þau hafi fengið skýr skilaboð frá foreldrum sínum um að láta muna um sig í lífinu. Það er allt í lagi að bulla stundum og allir gera fullt af mistökum. En láttu muna um þig. Það er hægt að velja það að læðast um en ég vona að þetta hafi verið gjöfin til þeirra. Að láta muna um sig í lífinu.“

 

Viðtal: Erla Hlynsdóttir
Myndir: Stefán Karlsson

Förðun: Elín Reynisdóttir
Sérstakar þakkir: Blómagallerí

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Í gær

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Í gær

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu

Travis Barker gagnrýndur fyrir að birta mynd af Kourtney á klósettinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“

„Í dag er þetta eitthvað sem gerir mig sterkari“