fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Tímavélin – Baráttan um pylsuvagnana – Beinlínis andstyggileg svínastía“

Fókus
Föstudaginn 14. ágúst 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Samkvæmt lýsingu bankastjórnarinnar verður ekki á séð að hverju er mestur ósóminn skepnum eða mannskepnum – flugum, rottum eða mannbjálfum – víst er um það, að allir þessir aðilar gera öll sín stykki við dyr bankans og á gangstéttina að þeim,“ svo sagði í grein sem birtist í Þjóðviljanum árið 1943. Úti í heimi tókust á herfylkingar í heimsstyrjöldinni síðari, en í Reykjavík átti sér stað annars konar stríð. Stríð gegn pylsuvögnum.

Pylsur með tómat og sinnepi voru fyrsti skyndibiti Reykvíkinga og annarra ferðalanga sem hafa á undanfarinni öld stigið dans fram á rauðanótt í miðbænum.

Pylsuvagnar hófu starfsemi sína á snemma á síðustu öld og nutu fljótt mikilla vinsælda, einkum á næturnar. Skoðanir á ágæti vagnanna voru þó skiptar og þótti mörgum mikið um óþrifnaðinn og ónæðið sem fylgdi pylsusölu á næturnar. Vagnarnir löðuðu að sér rottur og maríneraða Reykvíkinga sem notuðu götur og byggingar borgarinnar sem almenningssalerni, öðrum íbúum til takmarkaðrar gleði.

Stríð í Reykjavík

Það fór svo að á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var eitt helsta deilumál Reykjavíkurborgar tilvist pylsuvagna í miðborginni og rötuðu heitar deilur þeirra vegna ítrekað inn á borð borgaryfirvalda, sem áttu í stökustu vandræðum með að leysa úr þeim. Átti að banna vagnana alfarið? Átti að banna þeim að selja á næturnar og hvar á götum borgarinnar átti salan að fara fram?

Pylsuvagnar nutu mikilla vinsælda í borginni á þriðja áratug síðustu aldar og hafði borgin framan af lítil afskipti af starfsemi þeirra. Þó fór að rigna inn gagnrýni, þá einkum vegna staðsetningar vagnanna, hreinlætis í umhverfi þeirra og ónæðis frá viðskiptavinum. Salan fór að mestu fram á nóttunni þegar knæpur borgarinnar skelltu í lás og Reykvíkinga hungraði í smá skyndibita áður en þeir legðust til svefns.

Pylsuvagnar til ama

Fyrst reyndi borgin að lægja öldurnar með því að takmarka opnunartíma vagnanna. Árið 1939 gerði borgin vögnunum skylt að hætta sölu fyrir miðnætti, en sú ákvörðun var óvinsæl, enda mikið tap á viðskiptum hjá pylsusölum. Þá var gripið á það ráð að heimila sölu til tvö á nóttunni, og lögreglunni bent á að það væri hennar verkefni að gæta að þrifnaði við vagnana og halda þar uppi lögum og reglu. Þessu mótmælti lögreglan og vildi taka alfarið fyrir starfsemi pylsuvagna, enda væri ljóst að pylsusala á næturnar laðaði að sér slæpingja og fyllibyttur, sem væru öllum til ama.

Næst greip borgin á það ráð að færa vagnana, sem til þessa höfðu haldið sig við tröppur Útvegsbankans. Árið 1940, rétt á undan frétt með fyrirsögninni „Hitler í Berlín“, birtist á síðum Morgunblaðsins frétt um að Reykjavíkurborg hefði ákveðið að pylsuvagnarnir þyrftu að yfirgefa Útvegsbankann og flytja sig yfir í Kolasund.

Ekki dugði það þó til. Útvegsbankinn var áfram ósáttur við staðsetninguna og pylsusalarnir sjálfir voru lítt hrifnir og kvörtuðu sáran til borgaryfirvalda.

Gott að fá sér pylsu

Í Alþýðublaðinu í desember árið 1942 var rituð ítarleg úttekt á deilum innan borgarstjórnar vegna pylsuvagnanna.

Einn borgarfulltrúi greindi þar frá því að hann hefði sjálfur rannsakað aðstæður við pylsuvagnana:

„Ég get vitnað um það, að þarna í kringum pylsuvagnana er hin argvítugasta svínastía, já, beinlínis andstyggileg svínastía. Þarna koma hálffullir og alfullir menn út úr knæpum og skúmaskotum, snapandi sér þá fæðu, sem þarna er að hafa. Þetta er ófögur sjón. Ég vil láta banna pylsuvagnana.“

Komst annar borgarfulltrúi við þetta í mikið uppnám og barði í borð og sagði pylsuvagnana nauðsynlega þjónustu í borginni: „Það er gott að geta fengið sér pylsu eða svoleiðis þegar menn eru að vinna fram á nótt að blaðaskrifum eða öðru þess háttar. […] Ég er með pylsuvögnunum.“

Borgarstjóri kvaðst þá standa með pylsuvögnum: „Hvað geta menn betur gert, þegar þeir eru orðnir fullir, en að fara og fá sér pylsu áður en þeir fara heim?“

Málamiðlun

Bankastjórn Útvegsbankans ritaði borgarstjórn bréf í maí 1943 þar sem þess var krafist að pylsuvögnunum yrði gert að víkja úr Kolasundi. Slíkur væri óþrifnaðurinn og ónæðið að starfsmenn bankans ættu erfitt með að ganga til vinnu og íbúar í nágrenninu gætu ekki sofið um nætur. Í kjölfarið greip borgarstjórn til þess ráðs að banna pylsuvagna með öllu í Reykjavík

Ákvörðun borgarstjórnar varð þó ekki langlíf, því í ágúst sama ár var bannið fellt úr gildi og ákveðið, að tillögu talsmanna pylsuvagnanna, að finna pylsusölunum nýjan samastað á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu.

Þegar þarna var komið virtist loks farsæl lausn hafa fundist í málefnum pylsuvagnanna í Reykjavík, þó svo málið hafi skotið upp kollinum við og við í kjölfarið. En í dag vita flestir að í miðbæ Reykjavíkur er enn í dag hægt að kaupa sér heita pylsu á næturnar, áður en haldið er heim í háttinn eftir heiðarlega áfengisdrykkju á börum borgarinnar. n

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki