fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Ritdómur um Brúin yfir Tangagötuna: Ástarsaga án hörmunga

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 15. apríl 2020 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Eiríkur Örn Norðdahl

Útgefandi: Mál og menning

216 bls.

Ég veit ekki hvort Eiríkur Örn Nordahl er spámaður en saga hans Brúin yfir Tangagötuna er eins og skrifuð inn í þá daga sem við lifum núna. Hún fjallar þó hvorki um drepsótt né kreppu. Hún lýsir samfélagi á landsbyggðinni í þeirri uppsveiflu ferðamannaiðnaðar sem við höfum upplifað á undanförnum árum. En heimarnir eru margir og misstórir og í þessari sögu lokast heimur aðalpersónunnar tímabundið vegna vinnslustopps í rækjuvinnslunni. Ekki bætir úr skák að gatan sem hann býr við er sundurgrafin. Þetta tímabundna ástand minnir furðu mikið á þá stemningu sem tók völdin í samfélaginu ekki löngu eftir að þessi bók kom úr prentun.

Í næsta húsi við aðalsöguhetjuna býr kona sem hann er orðinn hrifinn af þó að hann þekki hana ekki neitt, hefur raunar aðallega fylgst með henni út um gluggann, fremur óviðurkvæmilega. Með hinum almennasta hætti má segja að sagan fjalli um tilraunir manns til að tengjast sjálfum sér og annarri manneskju. Á sama tíma horfir hann upp á samfélag æsku sinnar umbreytt í túristaparadís og líkar miður.

Eins og við hæfi er í sögu þar sem veröld persónunnar nánast stöðvast þá er sagan hæg. Afburðafrjór og skemmtilegur stíll höfundar nýtur sín vel í svo hægri atburðarás og það er gaman að lesa bókina hægt og gefa sér nokkrun tíma í lesturinn þó að sagan sé ekki löng.

Það kemur þó að því að dregur til tíðinda. En þá springur ekki út hið þunga mannlega drama sem lesandinn væntir. Harmleikurinn sem hefðin býður manni að sé óumflýjanlegur þegar lagt er upp með ástarsögu um mann sem á í vandræðum með að fóta sig í tilverunni, er ekki með sterka sjálfsmynd og tengir sig ekki ýkja vel við samtíma sinn – hann verður aldrei.

Ef þetta væri höfundur sem ég vissi ekkert um hefði ég ályktað að viðkomandi hefði valið ódýra og þægilega leið til að vinna úr söguhugmyndinni. En Eiríkur Örn Norðdahl hefur aldrei og mun aldrei velja auðveldu leiðina. Þessi sérstæði höfundur sem einhvern veginn er oft samtímis lítt lesið utangarðsskáld og höfundur ársins – bækur hans eru seljast frá því undir 100 eintökum og upp í tugi þúsunda og eru þá útgefnar á nokkrum tugum tungumála – hann er framsækinn og fer sína eigin leiðir í hverju einasta verki, jafnvel hverri setningu. Það hefur líklega verið bölvuð sérviska framúrstefnuskáldsins sem rændi okkur dramanu í þessi skáldsögu.

Það hefur verið sagt að mannskepnan hafi þörf fyrir sögur og leikrit vegna þess að slík verk eru uppfull af uppgjörum en uppgjör skorti sárlega í líf fólks sem séu hlaðin óuppgerðum málum. Saga með þeirri áferð sem einkennir Brúna yfir Tangagötu felur í sér fyrirheit um að alvarlegir árekstrar virðast óumflýjanlegir. Af þeim verður þó ekki.

Sá sem fylgir hefðinni gæti spurt með þjósti: Hvernig dirfist maður með allan þennan stílþrótt og hæfileika til að flytja magnað örlagabálka að skrifa ástarsögu án þess að kremja hjörtu persónanna og lesandans?

Í hnotskurn: Brúin yfir Tangagötuna er ljómandi skemmtileg og vel stíluð skáldsaga. Hún er hins vegar hvorki eins áhrifamikil og né eftirminnileg og lesandinn gæti vænst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Í gær

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna