Fimmtudagur 23.janúar 2020
Fókus

Saga sökk djúpt í neyslu og endaði á götunni: „Ég þurfti að finna þennan botn“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 7. september 2019 20:00

Saga hefur þroskast og dafnað síðan hún varð edrú fyrir tæpum tveimur árum. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Saga Ýr Nazari var nýskriðin á kynþroskaskeiðið þegar hún byrjaði að drekka áfengi. Nokkrum árum síðar tóku eiturlyf við og fyrr en varði lá leiðin hratt niður á við. Stuttu áður en Saga varð nítján ára ákvað hún að fara í meðferð. Hún var þá heimilislaus, búin að lenda í alls kyns hremmingum og leið eins og hún væri einskis virði. Í enda þessa mánaðar fagnar Saga tveggja ára edrúafmæli sínu og er þakklát fyrir það litla í lífinu. Hún er stolt af íslensku þjóðinni og hvernig hún tekst á við fíknivandann og er jafnframt stolt af því að geta verið fyrirmynd þeirra sem þrá vímulaust líf. Saga segir lesendur DV sögu sína til að styðja við átakið Á allra vörum sem nú stendur yfir.

„Þetta þróaðist þannig hjá mér að ég byrjaði tiltölulega ung og áfengi var fyrsti vímugjafinn minn. Það sem ég held að ég og allir fíklar eða alkóhólistar eigum sameiginlegt er að ég varð háð því að komast í hugbreytandi ástand. Það skipti engu máli hvort það var kannabis, áfengi eða eitthvað annað – bara að aftengjast aðeins. Fá frelsi frá daglegu lífi. Neyslusaga hjá öllum er mismunandi en hjá mér þá byrjaði þetta með áfenginu. Þetta þróaðist rosalega hratt hjá mér. Ég dáðist strax að þessu kæruleysi. Í byrjun fannst mér ég geta verið ég sjálf undir áhrifum. Ég var minna feimin, ég var fyndnari, félagslyndari. Um leið og rann af mér daginn eftir hugsaði ég: Hvenær getum við gert þetta næst? Ég greip öll tækifæri til að drekka aftur, ég drakk mikið og helst í „blackout“. Mér fannst það geggjað. Ef ég ældi þá ældi ég og hélt áfram. Mér fannst allt í kringum þetta mjög aðlaðandi,“ segir Saga. Þegar leiðin lá í menntaskóla byrjaði hún að neyta fíkniefna. Fyrst var um helgarneyslu að ræða en samhliða henni byrjaði hún að reykja kannabis á virkum dögum, því það var „viðurkennt“ af jafnöldrum hennar. Fyrst um sinn dró hún sig hins vegar stundum í hlé og tók sér pásu frá vímuefnum – þegar henni fannst hún missa stjórnina á neyslunni.

Saga segir sögu sína til að hjálpa öðrum. Mynd: Eyþór Árnason

„Ég dró mig til hliðar ef ég gerði eitthvað óvenju stjórnlaust og tók eftir því að ég var farin að brjóta einhver prinsipp sem ég ætlaði mér aldrei að brjóta. Mörkin hjá sjálfri mér færðust alltaf lengra og lengra í burtu og ég byrjaði að brjóta alls konar persónulegar reglur og gildi sem ég var með. Það var hins vegar aldrei tímaspursmál hvort ég myndi byrja aftur, heldur hvenær. Ég var bara háð því að finna fyrir þessari aftengingu.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Saga segir sögu sína í DV sjónvarpi:

Alltaf ófullnægð

Saga hafði aldrei fengið fræðslu um einkenni fíknar og alkóhólisma, heldur eingöngu afleiðingar þess. Hún telur þann skort á fræðslu hafa leikið hlutverk í því að hún hafði ekki þekkingu til að takast á við hann – að taka í taumana.

„Í mínu tilviki varð neyslan verri og verri. Ég náði kannski að draga mig í hlé í smá tíma en þegar ég dró mig í hlé, og mér finnst það einkenna alkóhólista sem hafa ekki fengið fræðslu á sínum sjúkdómi, þá var ég ófullnægð. Ég varð alkóhólisti á öðrum sviðum í staðinn. Ég varð öfgasjúk í vinnu, ég fór í skóla, ég var í þrjá klukkutíma í ræktinni á dag og ég misnotaði ljósabekki. Ég var alltaf að reyna að laga mig með veraldlegum hlutum því ég var ófullnægð. Ég var að reyna að sækjast í heilbrigða, veraldlega hluti sem áttu að fylla upp í eitthvað sem annars áfengi og vímuefni hefðu átt að fylla upp í. Ég var alveg jafn óhamingjusöm þá og þegar ég var í neyslu. Ég held að það hafi „mindfuckað“ mig mest á þessum tíma því ég skildi ekki að ég væri að taka ákvörðun um að vera edrú og gera allt sem ég hélt að manneskja gerði til að öðlast hamingju og flæði í lífinu, en ég var samt ófullnægð.“

Hent út

Saga hefur komið sjálfri sér á óvart eftir að hún kom úr meðferð. Mynd: Eyþór Árnason

Saga trúir að fíkn og alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur og segir að sjúkdómurinn sé áberandi í hennar fjölskyldu, þótt foreldrar hennar séu ekki alkóhólistar. Hún segir flesta, ef ekki alla, fíkla finna botninn á einhverjum tímapunkti. Hún sjálf fann botninn á götunni.

„Áður en ég vissi af gat mamma mín ekki meir, henti mér út og klippti á naflastrenginn. Ég er henni mjög þakklát fyrir það. Ég veit að maður getur ekki ætlast til að allir foreldrar geri það og ég veit að þetta var ein erfiðasta ákvörðun sem hún hefur tekið, en í mínu tilviki þurfti ég að finna fyrir því að ég hafði ekki neitt. Ég þurfti að finna þennan botn,“ segir Saga. Hún gerði sér hins vegar ekki grein fyrir að hún væri allslaus strax, sem hún segir einkenna þá sjálfsblekkingu sem fíklar lifa í. „Til að byrja með upplifði ég geggjað frelsi. Mér fannst ég vera sjálfstæð kona og þurfti enga ábyrgð að taka í lífinu. Ég upplifði mig rosa frjálsa – samt var ég heimilislaus að flakka á milli sófa hjá fólki. Þetta sýnir hvað neyslan veldur mikilli sjálfsblekkingu um allt; um umhverfið, um sjálfsmyndina, um hlutverk manns í lífinu. Ég varð hins vegar mjög fljótt ein. Ég áttaði mig frekar ung á, að ég væri líklegast dópisti. Fyrst þegar ég var kölluð það var það móðgun, en besta leiðin fyrir mig til að höndla það var að vera stoltur dópisti. Ég ætlaði að sýna fólki hve mikill dópisti ég væri. Þessi brenglaða hugsun til að verja egóið. Ég var bara mjög stolt af því á tímabili að vera dópisti og sætti mig einhvern veginn við það, því ég vissi ekki að það væri nein lausn. Ég trúði því líka að þetta væri aumingjaskapur. Margir fíklar upplifa fíkn sem aumingjaskap. Það er svo mikið vonleysi í gangi. „Vá, hvað ég er mikill aumingi. Ég er búin að fokka öllu upp, fjölskyldu og vinatengslum.“ Hver er lausn mín við þessari vonleysistilfinningu? Það er að grípa í efni. Það er lausnin við öllu, því ég þekkti enga aðra lausn.“

„Þú ferð að muna“

Saga var heimilislaus í eitt ár áður en hún tók þá ákvörðun að fara í meðferð, nokkrum vikum fyrir nítján ára afmælisdaginn.

„Það ár braut ég alls konar prinsipp. Það var brotið á mér endalaust, en ég var fljót að komast yfir það. Lausn mín var bara að deyfa mig enn þá meira, þannig að ég pældi ekkert í því. Ég lenti í áföllum í minni neyslu og fékk að kynnast mjög ljótum heimi, en það er magnað hvað manneskjan getur aðlagast hvaða umhverfi sem er. Sjálfsmynd manns verður líka svo ónýt. Þetta er mjög fjarri mér í dag, en þegar ég hugsa til baka þá sé ég hvað sjálfsmynd mín var brengluð. Hún er svo brotin og hún er svo ónýt að maður upplifir raunverulega að maður eigi umhverfið og ofbeldið skilið,“ segir Saga. Hún frétti af meðferðarúrræðum í gegnum aðra fíkla og það var ekkert eitt atvik sem kom henni í meðferð. Það sem hún segir hins vegar að erfiðasti hlutinn við að losa sig við vímuefni sé afeitrunin.

„Það er svo klikkað að festast í þessum vítahring. Þú ert kannski í þessum heimi, þú ert í neyslu og verður fyrir fjölmörgum áföllum. Svo kemur að tímapunkti þar sem þú getur ekki meir og verður að vera edrú. Örvæntingin er komin og glugginn búinn að opnast, en um leið og það rennur aðeins af þér þá banka áföllin upp á og þú ferð að muna. Allt í einu manstu hvað gerðist kvöldið áður, tveimur, þremur, fjórum, fimm dögum áður. Heilinn meikar það ekki. Það er svo mikið áfall. Um leið og þú verður edrú fara minningarnar að kikka inn og það er það sem fíklar vilja ekki, því það er svo vont.“

Fékk lánað sjálfstraust

Saga gæti ekki verið þakklátari fyrir að hafa farið þessa leið. Hún eyddi fyrst tuttugu dögum á Vogi, fór síðan í fjórar vikur á Vík, svo rakleiðis á áfangaheimili í átta mánuði og er nú í endurhæfingarprógramminu Grettistaki.

„Ég hugsaði að ef ég færi í meðferð þá myndi ég gera það 150 prósent. Ég ætlaði að gera allt sem væri í boði og ég gerði það,“ segir Saga og ber úrræðunum góða söguna. „Það var svo gott að finna fyrir því að ráðgjafarnir höfðu svo mikla trú á manni. Mér fannst ég bara vera skítur undir skónum hjá fólki og að ég passaði ekki inn í samfélagið, en ráðgjafarnir höfðu alltaf trú á mér. Á áfangaheimilinu lærði ég mikinn aga. Ég lærði að umgangast fólk og lærði að tjá mig, brjóta saman þvott og elda. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að lifa lífinu, en þarna lærði ég það. Ég er enn í Grettistaki og mig langar aldrei að hætta. Það er svo dýrmætt að finna fyrir því að maður sé ekki ruslahaugur, sem maður upplifir alveg með þessa sögu í farteskinu.“

Saga vinnur í dag sem útvarpskona á X-inu og er í jógakennaranámi. Í batanum náði hún að láta einn af stærstu draumum sínum rætast og meira til.

„Þegar ég útskrifaðist af Vík þurfti ég að gera útskriftaráætlun með alls konar markmiðum sem ég ætlaði að ná. Eitt af stærstu markmiðunum mínum var að gefa út eitt lag. Mig langaði aðallega að sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti það. Ég kom sjálfri mér á óvart þegar ég kom úr meðferð. Ég gaf ekki bara út eitt lag heldur samdi helling af lögum, tók upp tónlistarvídeó og var beðin um að spila í stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, fyrir framan Vigdísi sjálfa, einmitt á vegum Ég á bara eitt líf. Það voru svo mikil tímamót fyrir mig að standa þarna. Ég var svo meyr, þetta var svo mikið,“ segir Saga. Í framhaldinu tróð hún upp á fleiri stöðum og hefur komið fram með sögu sína til að hjálpa öðrum. „Hefði einhver sagt mér, þegar ég gekk inn í meðferð, skinn og bein, föl, næringarlaus og með ekkert sjálfstraust, að ég myndi ná öllum þessum markmiðum, þá hefði ég aldrei trúað því. Öll upplifun mín í edrúgöngunni er svo mögnuð, eitthvað sem er svo sjálfsagt fyrir annað fólk. Þegar ég var að verða edrú var ég svo þakklát fyrir að vakna í sama rúmi og ég sofnaði, ég var þakklát fyrir að vera með matarlyst, ég var þakklát fyrir að eiga skilyrðislausa vini, loksins, eiga vini sem ég gat treyst á og sem elskuðu mig. Ég kynntist 12 spora samtökum eftir að ég kom út. Það var svo nauðsynlegt fyrir mig að kynnast fólki sem gat hjálpað mér og gripið mig. Þegar ég var með ekkert sjálfstraust þá lánuðu þau mér sitt. Þannig að ég hafði einhvern veginn lánað sjálfstraust frá öðrum á meðan ég gat byggt upp mitt eigið.“

Tekur ábyrgð

Saga telur að það sé ekki hægt að kenna neinum um hvernig fór fyrir henni í neyslu. Hún tekur fulla ábyrgð á sínum örlögum.

„Ég taldi mér alveg trú um það í byrjun, að það væri félagsskapurinn sem var að draga mig út í þetta eða dópistakærastinn sem ég átti. Að ég hefði aldrei sogast svona mikið út í neyslu ef það hefði ekki verið fyrir þessa eða þessa manneskju. Ég var að kenna svo mörgu fólki í kringum mig um stöðu mína. Mér finnst svo margir vera að einblína á það; að það sé félagsskapnum að kenna eða kærastanum að kenna eða jafnvel einhverju ofbeldi sem maður verður fyrir. Ég sjálf upplifði mjög mikið ofbeldi í æsku og ég er ekki að segja að það hafi gert aðstæðurnar skárri, en það er ekki ástæðan fyrir því að ég er alkóhólisti. Þannig er það bara ekki. Ég var alltaf að sækja í þetta. Ábyrgðin liggur alltaf hjá mér. Ef það hefði ekki verið þessi kærasti þá hefði það verið annar kærasti sem hefði sogað mig út í þessa neyslu. Hefði það ekki verið þessi félagsskapur sem ég kynntist þá hefði það verið einhver annar. Ég var alltaf að finna hóp sem hentaði tempóinu á minni neyslu. Sjúkdómurinn liggur alltaf hjá mér.“

Ekki hægt að loka á allt

Saga hefur leitað til ýmissa sérfræðinga í sínum bata til að vinna úr áföllunum. Hún leitar reglulega til sálfræðings, hefur leitað til Stígamóta, í Bjarkarhlíð og til ráðgjafa. Það var ekki auðvelt að leita sér hjálpar og hún á enn langt í land.

„Það er ekki hægt að loka á allt sem hefur gerst í neyslu, en út af því að ég fór í meðferð, í eftirmeðferð, á áfangaheimili og leitaði mér að stuðningi frá óvirkum alkóhólistum sem vissu hvað ég var að ganga í gegnum, þá hafði ég styrkinn, hugrekkið og kraftinn til að leita mér sálfræðihjálpar. Þessar minningar banka upp á og það eru alls konar afleiðingar sem ég er að díla við út frá áföllum. Það hjálpar mér mikið að fá verkfærin og tólin frá sálfræðingum, viðurkenna allt sem ég hef gengið í gegnum og skila skömminni. Sem fíkill og alkóhólisti þarf að minna mig á að ég var veik. Ég veit að fyrir aðstandendur er þetta pirrandi að heyra og það afsakar alls ekki allt sem við gerum af okkur. Þetta er samt sem áður manneskja sem er virk í sínum veikindum.“

En finnur Saga nú fyrir þeirri lífsfyllingu sem hún leitaði sífellt að?

„Ég finn fyrir lífsfyllingu og miklu meira en það. Ég finn fyrir að ég er að lifa lífinu í meðvitund og þakklæti. Ég þarf ekki veraldlega hluti til að vera hamingjusöm. Ég þarf að vera sjálfri mér nóg. Ég þarf að læra að elska sjálfa mig, sem er ævilöng vinna, og upplifa að ég er nóg. Eitt gott sem var sagt við mig í meðferð, sem var erfiður biti að kyngja ef þú ert með stórt egó, er: Ein get ég þetta en alein get ég þetta ekki. Ein get ég tekið ábyrgð á því að vilja hætta en ég get ekki verið alein að takast á við edrúlífið,“ segir Saga og brýnir fyrir fólki í svipaðri stöðu og hún var í að leita sér hjálpar. Nú eða senda henni skilaboð í gegnum Instagram því hún er boðin og búin til að hjálpa. „Ég er mjög stolt af þjóðinni minni. Mér finnst allt ekki vera vonlaust, þótt það sé mikið af áfallasögum að koma upp og þetta sé erfitt. Ég hef svo mikla trú á þjóðinni okkar því það er svo margt gott að þróast samhliða neyslunni. Við erum að takast á við þetta á hárréttan hátt. Ég er mjög þakklát fyrir að fá að vera einhvers konar fyrirmynd í dag.“

 

View this post on Instagram

Bagg & GayPride Adidas

A post shared by Saga Nazari (@saga_nazari) on

DV hvetur alla sem geta að styrkja þetta góða málefni. Í ár nýtur Eitt líf stuðningsins, en þar hefur verið unnið óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins, sem vakið hefur mikla athygli. Starfsemin hófst eftir lát ungs drengs, Einars Darra í maí 2018, og byggir á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja.

Þú getur lagt þitt af mörkum með því að greiða ákveðnar upphæðir beint á söfnunarreikning Á allra vörum í Landsbankanum: 101 – 26 – 55555, kennitala 510608-1350. Eins er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í eftirtalin símanúmer.

907-1502 fyrir kr. 2.000
907-1504 fyrir kr. 4.000
907-1506 fyrir kr. 6.000
907-1508 fyrir kr. 8.000
907-1510 fyrir kr. 10.000

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún þurfti að flýja Mexíkó – „Frekar dramatískur endir því miður“

Guðrún þurfti að flýja Mexíkó – „Frekar dramatískur endir því miður“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Páll Valur segir lögreglukonuna vonlausa: „Hugsanlega mesti auli sem sést hefur“

Páll Valur segir lögreglukonuna vonlausa: „Hugsanlega mesti auli sem sést hefur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dauðvona Laddi og Bubbi leikur sjálfan sig

Dauðvona Laddi og Bubbi leikur sjálfan sig
Fókus
Fyrir 4 dögum

Upprisa hverfamenningar

Upprisa hverfamenningar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hallgrímur Ólafsson ólst upp á sjómannsheimili: „Það var skrítin standpínustemning um borð“

Hallgrímur Ólafsson ólst upp á sjómannsheimili: „Það var skrítin standpínustemning um borð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Lögin í Söngvakeppninni 2020

Lögin í Söngvakeppninni 2020
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dómnefndin hafnaði nýju lagi Ólafs – Tileinkað eiginkonunni sem hann kvæntist á nýársdag | Myndband

Dómnefndin hafnaði nýju lagi Ólafs – Tileinkað eiginkonunni sem hann kvæntist á nýársdag | Myndband
Fókus
Fyrir 6 dögum

Strætó-spaug slær í gegn: „Þess má geta að þessi mynd er byggð á sönnum atburðum“

Strætó-spaug slær í gegn: „Þess má geta að þessi mynd er byggð á sönnum atburðum“