fbpx
Þriðjudagur 26.janúar 2021
Fókus

Dalurinn trylltist en stóð Ed Sheeran undir væntingum?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 13. ágúst 2019 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum að stórstjarnan Ed Sheeran tróð upp á tvennum tónleikum á Laugardalsvelli síðastliðna helgi. DV var með útsendara á báðum tónleikum, annars vegar blaðamanninn Tómas Valgeirsson sem fór á aðaltónleikana á laugardagskvöldið og hins vegar Lilju Katrínu Gunnarsdóttur, ritstjóra, sem hefur verið eldheitur aðdáandi Ed Sheeran síðustu sjö árin. Upplifanir Tómasar og Lilju voru ansi ólíkar en við gefum þeim orðið.

Tómas Valgeirsson skrifar:

Hvað er það við Ed Sheeran sem heillar mörg okkar svona allsvakalega? Er það tónlistin? Röddin? Úfni rauðkollurinn sem öskrar á týndan Weasley-bróður? Er það hvernig honum tekst að vera samtímis lúðalega hversdagslegur og jafnframt einn sjálfsöruggasti og svalasti töffarinn í sviðsljósinu þegar hann eignar sér sviðið?

Ed Sheeran – Sjálfsöruggur og svalur. Mynd: DV/Eyþór Árnason

Hvert sem svarið er, þá er ljóst að Íslendingar gleyptu upp allt sem maðurinn lét frá sér við þessa heimsókn sína. Hjá ófáum er þarna eflaust um að ræða einn af hápunktum sumarsins, ef ekki ársins, og má lengi velta fyrir sér hversu margir nýttu sér tækifærið og skelltu í eitt bónorð á betri helming sinn.

Þrátt fyrir þann sígilda bömmer sem fylgir því þegar Íslendingar bíða of lengi í röð sökum óskipulags sveif sæluvíman og spenningurinn yfir fleiri þúsundum manna í Laugardalnum þessa helgi. Eins og við vitum líka öll er fátt sem pirrar landann jafn mikið og að þurfa að standa í röð, en líka vitum við öll að Íslendingar eru fljótir að gleyma og duglegir að njóta. Og notið var.

Eftir prýðisupphitun frá Glowie, James Bay og Zöru Larsson, sem rétt um bil eignaði sér kvöldið að mati undirritaðs, stígur aðalmaðurinn á svið – hópurinn æsist, Sheeran brosir og segist hafa beðið spenntur að spila á Íslandi. Þetta að sjálfsögðu tryllir lýðinn.

Sheeran er lítið að brjóta upp svokallaða settlistann og fylgir föstum hefðum túrsins, þó það hafi verið kærkomið að fá Lego House með þeim formerkjum að hann hafi vonast til þess að einhverjir í hópnum kannist við þetta fyrra verk kappans frá 2011. Það var hversdagstöfrum líkast þó að sjá aðalmanninn detta í sinn eigin gír með augun lokuð og bera út tilfinningar sínar í gegnum gítarinn, líkt og enginn annar væri hinum megin við sviðið.

Hljómurinn á kvöldinu var fínn, þó bróðurhluti (stórfína) lagsins Bloodstream hafi þar sérstaklega verið eilítið daufur og breyttist þungi, taktgóði bassinn í eilítið óhljóð. Hnökrarnir voru þó langt að baki þegar hann rúllaði upp kvöldinu með Shape of You rétt undir lok.

Stemningin var útihátíð líkust. Það segir sig sjálft þegar opnað er fyrir svonefnda aðdáendasvæðið upp úr hádegi. Fólk var aðeins farið að tínast burt (alltaf er betra að forðast örtröð við hvert tækifæri) þegar kom að síðasta laginu – en útlit var fyrir því að meirihlutinn gekk út með glott á vör og söng í hjarta.

Þegar öllu er á botninn hvolft var ánægjulegt að sjá og heyra í Sheeran við bláenda sumarsins. Ætli það sé einhver tilviljun að hafi formlega byrjað að kólna og vindar hafa farið á flug um leið og hann lauk sinni senu? Músíkin yljaði hjörtu margra og eftir á var okkur öllum dálítið kalt þegar raunveruleikinn tók við á ný.

Æstir aðdáendur ánægðir með Ed Sheeran. Mynd: DV/Eyþór Árnason

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar:

Ég féll fyrir Ed Sheeran árið 2012, rétt um ári eftir að fyrsta platan hans, +, kom út. Það var hins vegar ekki lag af þeirri plötu sem fangaði athygli mína heldur dúett sem hann söng með Taylor Swift, Everything has Changed, sem er að finna á plötu Taylor, Red. Ég var að ganga í gegnum eitthvað unglingatímabil á gamalsaldri og hataði ekki að blasta Taylor minni og í gegnum hana kynntist ég Ed. Alveg síðan þá hafði ég þráð að sjá hann á tónleikum og búin að fylgjast mjög grannt með hans ferli síðustu sjö árin.

Ég átti því mjög erfitt með mig allan sunnudaginn. Ég var hreint út sagt að farast úr spenningi. Ég þreif allt hátt og lágt heima hjá mér til að drepa tímann og sönglaði Lego House á meðan stanslaust. Ég heimtaði að leggja mjög snemma af stað, enda brugðið eftir hræðslufréttir um risavaxnar raðir kvöldið áður. Ég mætti alls, alls ekki missa af einni sekúndu með Ed, loksins þegar að leiðir okkar mættust. Af þeim sökum var ég mætt alltof snemma í Laugardalinn og náði öllum upphitunaratriðunum. Glowie var flott, Zara Larsson byrjaði á botninum en krafsaði sig upp eins og fagmennsku sæmir og endaði sitt sett með sóma. Þvílíkur talent þar á ferð. Ég var minna hrifin af James Bay og fann ég óneitanlega fyrir kynlóðarbilinu þegar að unga fólkið í kringum mig öskursöng við Hold Back the River. Mér finnst það ekki öskursöngsvert, enda ekki af sama kalíberi og Total Eclipse of the Heart og Sódóma Reykjavík.

Zara stóð sig vel. Mynd: DV/Eyþór Árnason

Síðan tróð ég mér fremst, eins framarlega og ég komst. Og beið, í hálfgerðri geðshræringu. Loksins mætti hann í allri sinni dýrð – maðurinn sem ég hafði beðið eftir í öll þessi ár. Minn maður byrjaði með hvelli á slagaranum Castle on the Hill og það er ekki laust við að gæsahúðin hafi heltekið mig. Það sem fylgdi á eftir voru eilítil vonbrigði. Hann tók vissulega The A Team, sem var gaman að heyra fyrir okkur sem hafa fylgt honum lengi, en þegar kom að sjötta laginu Bloodstream var fúttið orðið ansi mikið minna en ég hélt að það yrði. Það fór um mig – yrðu þetta vonbrigði lífs míns?

Í þann mund sem ég hugleiddi að færa mig aftar úr þvögunni og horfast í augu við það að stundum valda hetjurnar manni vonbrigðum, brá Ed minn á leik og tók sumarsmellinn I Don’t Care, sem breytir mér reglulega í þrettán ára, öskrandi smástelpu þegar ég heyri það í útvarpinu. Ólíkt hinum lögunum sem á undan höfðu heyrst bauð Ed upp á aðra útgáfu af smellinum en við erum vön að heyra, enda syngur hann lagið með Justin Bieber. Á Laugardalsvelli söng Ed það einn og það var algjörlega stórkostlegt. Ein af mínum uppáhaldsstundum á þessum tónleikum.

Ed náði mér aftur og grætti mig örlítið í syrpunni sem endaði á Give Me Love, einum af mínum uppáhalds af plötunni +. Þá kom krafturinn sem ég saknaði og hann hélt áfram í Galway Girl. Því næst kom hápunkturinn að mínu mati með laginu I See Fire. Þá var unun að fylgjast með lúppuvélinni hans Eds, sem ég hafði bara séð í óteljandi YouTube-myndböndum, og finna kraftinn sem einn maður gat fyllt þetta stóra svið af. Tryllt stund, tryllt lag, trylltur tónlistarmaður. Svo þarf ekkert að fjölyrða um stemninguna í ballöðunum Thinking Out Loud og Perfect. Einstaklega falleg var hún.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki 100% sátt við þessa tónleika eftir þessa löngu bið. Mér fannst Ed oft flýta sér, eins og ætti bara að rumpa þessu af og fara heim. Mér finnst að hann hefði mátt tóna rólegu lögin aðeins meira niður og setja fullt af meiri krafti í stuðið. Hann hefði mátt staldra við aðeins oftar og tala við áhorfendur, þá um eitthvað annað en hvað hann elskar Ísland mikið. Og auðvitað saknaði ég fullt af lögum eins og Lego House, Autumn Leaves og Small Bump. Maður getur víst ekki fengið allt. Ég verð samt að gefa honum feitan plús fyrir að hvetja svona oft til fjöldasöngs.

Ef ég lít hins vegar heilt yfir þá er ég rosalega þakklát fyrir að sjá einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum án þess að þurfa að taka flug, lest og leigubíl. Ég tók bara strætó. Stemningin var góð á tónleikunum og Ed spilaði nákvæmlega allt sem fólk vill heyra. Ég saknaði þess bara að fá eitthvað örlítið extra.

Takk fyrir okkur. Mynd: DV/Eyþór Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Átta atriði sem ég lærði af Katrínu Tönju

Átta atriði sem ég lærði af Katrínu Tönju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvernig gerum við gott hjónaband betra?

Hvernig gerum við gott hjónaband betra?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Klara gerði plötu með heimsfrægum söngvara – „Skrýtið að hafa aldrei fengið að gefa hana út“

Klara gerði plötu með heimsfrægum söngvara – „Skrýtið að hafa aldrei fengið að gefa hana út“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Enn og aftur „vandræðalegt“ augnablik á milli fyrrverandi forsetahjónanna – „Melania er alveg búin“

Enn og aftur „vandræðalegt“ augnablik á milli fyrrverandi forsetahjónanna – „Melania er alveg búin“