Þriðjudagur 21.janúar 2020
Fókus

Nærmynd – Með landsliðið í Eurovision á bak við sig: Dugir það til að sigra hatrið?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 13. febrúar 2019 20:00

Nær Friðrik Ómar alla leið?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson stígur á sviðið í seinni undankeppni Söngvakeppninnar á laugardaginn kemur með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? Um er að ræða kraftmikla ballöðu byggða á eigin reynslu, en Friðrik Ómar samdi bæði lag og íslenskan texta.

Friðrik Ómar svipti hulunni af bakraddasöngvurum sínum á Facebook seint í gærkvöldi. Birti hann myndband þar sem hann sést í bílakjallara syngja Eurovision-lagið ásamt því sem getur varla kallast annað en landsliðinu í Eurovision. Við ákváðum því að fara lauslega yfir feril bakraddasöngvaranna því hugsanlegt er að landsliðið geti sigrað hatur Hatara, þó lagið Hatrið mun sigra sé líklegast til að verða fulltrúi Íslendinga í Eurovision-keppninni í Ísrael í maí eins og leikar standa núna.

Eurovision-kanóna sem kann að róa taugar

Við byrjum á kanónuninni Selmu Lóu Björnsdóttur, fjöllistakonu sem getur nánast allt. Selma gerði það að verkum að þjóðarást Íslendinga margfaldaðist árið 1999 þegar hún steig á Eurovision-sviðið í Jerúsalem með lagið All Out of Luck. Hún lenti í öðru sæti, sem var þá besti árangur Íslendinga í keppninni, og aðeins ein söngkona sem hefur jafnað þennan árangur – sjálf Jóhanna Guðrún með Is It True? Í Moskvu árið 2009.

Það má því segja að Selma sé kunn staðarháttum í Ísrael eftir keppnina í Jerúsalem, sem getur komið sér vel fyrir hópinn ef hann kemst áfram.

Selma ákvað að skella sér aftur í Eurovision árið 2005, þá til Kænugarðs með lagið If I Had Your Love. Því miður náði lagið ekki að heilla Evrópubúa og Selma komst ekki í úrslit.

Hins vegar er það ekki aðeins gríðarleg reynsla Selmu í Eurovision sem mun gagnast Friðriki Ómari í keppninni. Selma hefur ekki aðeins notið mikillar velgengni í söngnum heldur útskrifaðist einnig sem leikstjóri frá Bristol Old Vic Theatre School vorið 2010. Meðal verka sem hún hefur leikstýrt eru Fjarskaland, Vesalingarnir, Kardemommubærinn, Karíus og Baktus og nú síðast Ronja ræningjadóttir. Fyrir verk sitt í Vesalingunum hlaut Selma tilnefningu sem leikstjóri ársins á Grímuverðlaununum, en sýningin var einnig tilnefnd sem sýning ársins.

Svo má ekki gleyma því að Selma er athafnastjóri hjá Siðmennt, en hún náði sér í þau réttindi í fyrra. Því á hún auðvelt með að róa taugar fólks á stærstu dögum lífsins – líkt og Eurovision.

Söngvakeppnasigurvegari

Næst í röðinni er Regína Ósk Óskarsdóttir. Hér skiptir mestu að hún og Friðrik Ómar hafa gert þetta allt áður. Þau mynduðu Eurobandið árið 2008 og voru fulltrúar Íslands í Belgrad í Serbíu með lagið This is My Life. Regína og Friðrik geisluðu á sviðinu og voru fyrstu Íslendingarnir til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt fyrirkomulag var tekið í gagnið árið 2004.

Það var alltaf ljóst að Regína Ósk myndi ná langt. Hún vann söngkeppnina í félagsmiðstöðinni Árseli tvö ár í röð á unglingsaldri, vann söngkeppni Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1996 og í framhaldinu lenti hún í öðru sæti í Söngvakeppni framhaldsskólanna. Hún lenti í öðru sæti með Gospelkompaníinu í Landslagi Bylgjunnar árið 2001 og sama ár fór hún í fyrsta sinn í Eurovision-keppnina sem bakraddasöngkona í laginu Angel. Regína fór aftur út árið 2003 með Birgittu Haukdal og tveimur árum síðan söng hún bakraddir með fyrrnefndri Selmu í Kænugarði.

Árið 2006 keppti Regína í fyrsta sinn sem aðalsöngkona í Söngvakeppninni með lagið Þér við hlið. Regína endaði í öðru sæti og tapaði fyrir sérstökum óði Silvíu Nætur. Þá varð uppi fótur og fit því fjölmargir héldu því fram að sigrinum hefði verið stolið af Regínu, eins og oft vill verða með lögin sem enda í öðru sæti í undankeppninni.

Færeyski fagurgalinn

Því næst ber að nefna hinn færeyska Jógvan Hansen sem skaust upp á stjörnuhimininn árið 2007 þegar hann sigraði í fyrstu íslensku X-Factor keppninni. Áður en Jógvan fluttist til Íslands til að vinna sem hárgreiðslumaður naut hann mikilla vinsælda í heimalandinu. Var hann til að mynda forsöngvari í hljómsveitinni Aria sem gaf út geisladisk árið 1998 sem hét After These Messages. Diskurinn fór beint á topp sölulista í Færeyjum.

Árið 2009 keppti hann í Söngvakeppninni með lagið I Think the World of You og aftur ári seinna með lagið One More Day. Jógvan lenti í öðru sæti það árið og tapað fyrir reynsluboltanum Heru Björk með lagið Je ne sais quoi, en Jógvan og Hera etja einmitt kappi við hvort annað í Söngvakeppninni í ár ef Friðrik Ómar kemst áfram í úrslit.

Jógvan fór aftur í Söngvakeppnina árið 2011 með lagið Ég lofa og enn aftur árið 2013 ásamt Stefaníu Svavarsdóttur með lagið Til þín. Hann er því vel kunnugur Eurovision-sviðinu og er vanur því að vinna undir mikilli pressu. Það má heldur ekki gleyma því að Jógvan og Friðrik Ómar hafa marga fjöruna sopið saman, gefið út lög og plötur og sungið á stórum skemmtunum.

Bakrödd Íslands

Erna Hrönn Ólafsdóttir hefur sungið nánast frá því hún man eftir sér og byrjaði níu ára í klassísku söngnámi. Poppið togaði þó meira í okkar konu og var hún meðal annars söngkona sveitarinnar Bermuda um langa hríð.

Erna Hrönn er oft kölluð ein af bakröddum Íslands enda hefur hún sungið bakraddir í yfir fimmtíu lögum í Söngvakeppninni. Tvisvar sinnum hefur hún farið út í Eurovision-keppnina, fyrst með Jóhönnu Guðrúnu árið 2009 og svo með Heru Björk til Oslóar ári síðar.

En Erna Hrönn er ekki bara bakraddasöngkona og hefur margoft reynt fyrir sér í Söngvakeppninni, eða árin 2007, 2009, 2011, 2013, 2015 og 2016. Síðastnefnda árið söng hún lagið Hugur minn er með Hirti Traustasyni. Það lag komst alla leið í úrslit og var í uppáhaldi hjá mörgum.

Það er því bókað mál að Erna Hrönn slær ekki feilnótu á stóra sviðinu í Háskólabíói á laugardaginn, enda hokin af reynslu þegar kemur að öllu sem tengist Eurovision.

Idol-stjarnan sem skín

Síðast en ekki síst er það Aðalheiður Ólafsdóttir, eða Heiða Ólafs, sem fangaði hjörtu Íslendinga fyrst í Idol stjörnuleit árið 2005 þar sem hún lenti í öðru sæti. Heiða skellti sér nokkru síðar í leiklistarnám og útskrifaðist í faginu frá Circle in the Theater School í New York árið 2009. Heiða hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum á ferlinum og sungið í söngleikjum á borð við Footloose, Buddy Holly og Vesalingunum, sem fyrrnefnd Selma leikstýrði.

Heiða hefur líka fengið að kynnast Eurovision-heimum, bæði sem bakraddasöngkona og forsöngkona, en hún tók til að mynda þátt í Söngvakeppnunum árið 2009, 2010 og 2012.

Heiða er hvers manns hugljúfi, leggur sig alla fram, syngur eins og engill og hefur mikla reynslu af leikhúsinu, sem á eftir að gagnast hópi Friðriks Ómars vel á stóra sviðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nærmynd: Hildur Guðnadóttir – Hætti að vera puntudúkka sjö ára

Nærmynd: Hildur Guðnadóttir – Hætti að vera puntudúkka sjö ára
Fókus
Fyrir 2 dögum

Spurning vikunnar: Hvað verður heitasta trendið á árinu?

Spurning vikunnar: Hvað verður heitasta trendið á árinu?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Rikki G heyrði skrýtna lygi um sjálfan sig: „Þá var það bara búið að vera umtalað í fyrirtækinu“

Rikki G heyrði skrýtna lygi um sjálfan sig: „Þá var það bara búið að vera umtalað í fyrirtækinu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Íslendingar segja kostulegar sögur af Kára: „Hann hótaði að skera okkur á háls fyrir of mikil læti í partíi“

Íslendingar segja kostulegar sögur af Kára: „Hann hótaði að skera okkur á háls fyrir of mikil læti í partíi“