fbpx
Fimmtudagur 23.maí 2024
Fókus

Kona sem hirðir ekki um sig er sek gagnvart þjóðfélaginu: „Hún er því jafn hættuleg og skemmdarvargur”

Auður Ösp
Laugardaginn 9. nóvember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fyrri hluta seinustu aldar voru nokkrar bækur gefnar út á Íslandi sem áttu það sameiginlegt að höfða til ungra stúlkna og kvenna og innihalda ýmis ráð varðandi fegurð, snyrtingu og framkomu. Ein elsta bókin sem blaðamaður DV komst yfir er Fegrun og snyrting frá árinu 1939, eftir norska lækninn Alf Lorentz Örbeck  í þýðingu frú Kristínar Ólafsdóttur.

Óhætt er að fullyrða að sum af þeim ráðum sem gefin voru kvenþjóðinni á árum áður myndu vekja hörð viðbrögð ef bækurnar væru endurútgefnar í dag.

Aðlaðandi er konan ánægð

Aðlaðandi er konan ánægð eftir bandarísku leikkonuna Joan Bennet kom út í íslenskri þýðingu árið 1945. Bókin seldist upp á stuttum tíma og var endurútgefin rúmlega ári síðar.

 „Handbók um allar nýjungar, sem lúta að fegrun, snyrtingu og klæðnaði kvenna. Allar konur og ungar stúlkur, sem vilja vera snyrtilega búnar og nota fegurðarmeðul af smekkvísi og kunnáttu, ættu að kaupa þessa bók strax í dag, því að á morgun verður hún kanski uppseld,“ segir í auglýsingu Tímans frá því í september árið 1946.

Í inngangi bókarinnar ritar Joan Bennet að á síðustu þremur áratugum hafi flestar af þeim dygðum og siðvenjum sem kallaðar voru kvenlegar farið veg allrar veraldar. Rekja megi að til heimsstyrjaldarinnar, þegar konur voru kallaðar til starfa burt frá heimilinu.

„Áður fyrr fannst sumum það dyggð hjá konunni ef hún var ljót. Nú á dögum er það játað af þeim sem vinna að velferð líkama og sálar að það sé vart heilbrigð kona sem hefur ekki rænu á að hugsa um útlit sitt, reynir ekki að vera aðlaðandi. Ef konan er aðlaðandi er henni veitt eftirtekt, og það er einmitt hollt sálarheill hennar.“

Á öðrum stað stendur:

 „Kona sem nú á tímum vanrækir það að stuðla að vellíðan sinni og heilbrigði er sek gagnvart þjóðfélaginu. Hún er því jafn hættuleg og skemmdarvargur, vörður, sem sefur þegar hann á að vaka, eða liðhlaupi og hún verðskuldar þá refsingu, sem verður hennar hlutskipti, að vera ein og yfirgefin. En það hlutskipti er ekki öfundsvert.“

Í fyrstu málsgrein kaflans Að geðjast karlmönnum tekur Benett  fram að karlmanninum sé launung á því að konan vill geðjast honum og honum „geðjist meira að segja að því.“

„Hitt gremst honum, að við vanmetum hann, er við reynum að veiða hann í net okkar með kænskubrögðum sem ekki byggjast á tryggri undirstöðu.“

Á öðrum stað segir Bennett karlmenn frekar hrífast af glaðlegu andliti en mjög fríðu. Hún gefur eftirfarandi ráð:

„Reisið upp brettar brúnirnar, lyftið munnvikunum upp, rekið deyfðina úr augunum. Látið sírenurnar „filmunnar“ um ólundarsvipinn. Ánægja, sem karlmenn hafa af því að horfa á ólundarleg andlit er aðeins fólgin í vitneskjunni um það, að þeir þurfti ekki að hafa þau fyrir augunum alla daga.“

Þá segir Benett að karlmenn kjósi heldur konu sem er kvenleg, en hina sem er „áberandi fegurð og nýtízkuleg“.

„Þegar maður sem lítur á yður hefur virt fyrir sér andlit yðar og klæðaburð veitir hann athygli svipbrigðum yðar. Vitandi eða óafvitandi athugar hann hvort þér eruð „lifandi“ vera, röskleg á að líta. Þau áhrif sem hann verður fyrir næst allra fyrstu sýn eru undir fjöri yðar og röskleika komin. Með fjöri á ég ekki við ungmeyjaleg látalæti og fliss, heldur lífsfjör, blátt áfram, frjálsmannlega framkomu, sem ber vott um lífsþrótt, lifandi áhuga og greind.“

Ung og aðlaðandi

Ung og aðlaðandi – handbók fyrir ungar stúlkur um líkamsrækt og snyrtingu kom út á Íslandi árið 1957 en höfundur er hin danska Olga Golbæk. Í bókinni má finna ýmis fegurðar- og heilsuráð fyrir unglingsstúlkur en mörg þeirra hljóta að teljast úrelt.

Í kafla sem snýr að umhirðu húðarinnar er stúlkum til að mynda ráðlagt að auka fegurð húðarinnar með „seyði af perlugrjónum til næringar, seyði af altæa (læknastokkrósum) til að mýkja, seyði af salathöfði til að auka teygjandleik og seyði af ylli til að hressa.“

Þá er einnig mælt með stúlku smyrji á sig borðediki þegar þær stundi sólböð þar sem það auki brúna litinn.

Á öðrum stað í kaflanum má finna uppskrift að sérstöku fegrunarkremi sem inniheldur meðal annars rjóma, hunang og natron, og einnig má sjá uppskrift  að svitameðali sem fæst með því að blanda saman aluminúmklórýð, bórsýru og eimuðu vatni. Fram kemur að efsta lagið af mjólk eða rjóma, einnig þegar það er súrt, hafi „einkum góð áhrif gegn byrjandi hrukkum við augum, og græði jafnframt sprungnar varir.“

Í kafla sem snýr að umhirðu hárs er fullyrt að hægt sé að fá fallegt, sterkt og gljáandi hár með því að drekka blöðruþangste, þar sem það sé ríkt af joði. Í kaflanum Falleg, skær og frískleg augu stendur að „ekki sé hægt að neita því að falleg, ljómandi augu, með föstum, frjálslegum svip séu meira virði en dýrustu gimsteinar“ og er stúlkum ráðlagt að baða augun á sama tíma og tennur eru burstaðar.

„Einu sinni í viku má setja einn dropa af appelsínu eða sítrónusafa í hvorn augnkrók, það svíður andartak, en þetta hefur fegrandi og hressandi áhrif á augun. Vegna þess hve sjór inniheldur mikið magn af joði og málmsöltum hefur hann einnig afar góð áhrif á augun, og á sumrin ættu því allar stúlkur sem stunda sjóböð að synda í kafi með opin augu eða setja saltvatn í lófana og baða augun úr því.“

Í kafla sem snýr að limaburði segir meðal annars:

„Reynið að taka eftir fótleggjum dansmeyja. Þeir eru næstum alltaf fallegir, þótt kálfarnir séu stundum fullkraftalegir, en ökklarnir eru ævinlega grannir. Það væri því góð hugmynd að nota nokkrar af æfingum þeirra: Gangið mikið á tánum og gangið alltaf á tánum upp stiga. Það er að minnsta kosti æfing sem hægt er að gera daglega, án þess að mikill tími fari í það.“

Í kaflanum Vatn er bezta fegrunarlyf ungra stúlkna segir að vatn hreinsi og hressi allan líkamann og þá hafi rigningarvatn undursamleg áhrif á hörundið: það verði mjúkt og slétt og hárið létt og gljáandi. „Áður fyrr voru salathöfuð soðin í rigningarvatni og seyðið notað til þvo hörund og hár. Þetta ráð er enn í sínu gildi. Það gefur bæði hörundi og hári silkislikju.“

Í kaflanum Fegrunarlyf náttúrunnar mælir höfundur með því að smjör sé notað sem hörundssmyrsl.

„Vegna fitu og vítamín innihaldsins er smjör afbrags meðal til að hreinsa og næra hörundið, alveg eins og það vinnur gegn smáhrukkum.“

Bókinni lýkur á kaflanum Ögn um háttvísi þar sem finna má lista yfir 14 reglur varðandi hegðun, atferli og framkomu.

Meðal annnars segir að karlmaður eigi alltaf að ganga á undan inn í veitingahús til að finna borð. Þá sé „bæði dónalegt og tillitslaust að nota síma vina sinna í tíma og ótíma. Þá sé það „jafnmikil ókurteisi að benda á fólk eins og að snúa sér eftir því á götunni.“

Tízkubókin

Tízkubókin eftir Mary Young kom út hér á landi snemma á sjöunda áratugnum. Í auglýsingu Tímans frá í október 1963 er bókinni lýst sem „ ýtarlegri handbók um fegrun og snyrtingu, mannasiði, framkomu, klæðnað, persónuleika og margt fleira gagnlegt.“

Í fyrsta kafla bókarinnar er ungum stúlkum kenndar reglur um svipmót og fas og bendir höfundur meðal annars á að óþægileg hugsun, leiði og hatur eða gremjuorð geri þær ekki aðlaðandi, og að áhyggjusvipur, gretta eða sjálfsvorkunn tæri fegurð þeirra og bæti árum við aldurinn.

 „Aftur á móti bregða blíða, góðvild og alúð töfrasprota á svipmót okkar til fegrunar.“

Í upphafi kaflans Framkoma, þar sem kvenþjóðinni er kennt að sitja, standa og ganga á viðeigandi hátt, bendir höfundur á að „yður er gefin einkunn að verulegu leyti í samræmi við það hvernig þér gangið, sitjið, standið og berið yður í tröppum, eftir háttvísi yðar og umgengi yðar yfirleitt.“

Þannig ráðleggur Young til að mynda stúlkum að setjast inn í bíl:

„Klöngrist þér með annan fótinn á undan klaufaleg í hreyfingum og teygið og togið pilsið? Skynsamar stúlkur fara aftur á bak inn í bílinn. Grípið höndum aftur fyrir yður á meðan þér tyllið yður á brún sætisins og síðan með kné og fætur saman, ýtið þér yður aftur í sætinu um leið og þér dragið fæturna að yður, beygið yður þá fram á við um leið og þér lyftið fótunum inn í bílinn.“

Í kaflanum Rómur og hlátur er stiklað á stóru hvað varðar hegðun í samkvæmum. Að flissa er sagt vera „mjög óskemmtilegt, bæði fyrir yður sjálfa og aðra. Í rauninni telja margir það ókurteisi. Þér vitið það af reynslu að því oftar sem þér leyfið yður það, því meiri tökum virðast það hafa á yður.“

Sama gildir um það að hvísla sem er að sögn höfundar „ósmekklegt hvernig sem á það er litið. Þér eigið á hættu að vera talin ókurteis, leiðinleg eða jafnvel illgjörn.“

Konum er ráðlagt frá því að tala of mikið, sem sé oft talið mjög kvenlegur löstur, og sömuleiðis að tala of hátt, sem geti verið ókvenlegt, uppskafningslegt og ónærgætnislegt. Þá segir höfundur ekki  síður ókvenlegt, og afar ógeðfellt að nota „skrílmál“ og bölva. Þá eigi konur í sambúð meðal annars að forðast tuldrandi rödd, skrækan róm, tilbreytingarlausa rödd og óbein svör við spurningum.

Í kaflanum Hefðarhættir og hegðun er kennt hvernig best er að haga sér í návist karlmanns á stefnumóti. Fram kemur að hentugast sé að klæðast „litla svarta kjólnum“ og hafa meðferðis litla netta handtösku með allra nauðsynlegustu snyrtivörum og peningum. Forðast skal að hafa meðferðis innkaupatösku, böggla eða bréfpoka.

„Burtséð frá því að þetta spillir útliti yðar (en þér eigið að sjálfsögðu að vera leiftrandi, laus og liðug) gæti svo farið að kavalerinn liti á yður rétt í svip og styndi í hljóði, þegar hann sæi að hans hlutverk yrði það sama og burðarjálksins,“ ritar höfundur.

Á öðrum stað í kaflanum segir höfundur það æskilegast að „kavalerinn sæki yður heim til yðar“ en forðast skuli að mæta honum á götuhorni eða umferðarmiðstöð. „Mætið sjálf einni eða tveim mínútum of seint (alls ekki fimm mínúum of seint) því að skemmilegast er að kavalerinn sé mættur á undan og bíði yðar, og hann verður gjarnan sár sjálfum sér ef að þér eruð farin að bíða hans.“

Á öðrum stað í kaflanum er lögð áhersla á mikilvægi þess að sitja fallega við borð enda sé „ekkert er eins sárgrætilegt og að sjá stúlku gegnt sér við borð, alla í einum keng yfir diski sínum og borða eins og hún hefði ekki sé matarbita í heila viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Nýtt lyf gæti breytt leiknum – Allt að tvöfalt áhrifaríkara en Ozempic

Nýtt lyf gæti breytt leiknum – Allt að tvöfalt áhrifaríkara en Ozempic
Fókus
Í gær

Birgir var í algjöru myrkri án matar í nærri fjóra sólarhringa – „Þetta tók auðvitað á“

Birgir var í algjöru myrkri án matar í nærri fjóra sólarhringa – „Þetta tók auðvitað á“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Afhjúpar með hverjum hún missti meydóminn þegar hún var tvítug

Afhjúpar með hverjum hún missti meydóminn þegar hún var tvítug
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera hratt af stað Ozempic-orðrómi um helgina

Christina Aguilera hratt af stað Ozempic-orðrómi um helgina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hefur Kristján snúið baki við Höllu Hrund? – Allar vísurnar horfnar

Hefur Kristján snúið baki við Höllu Hrund? – Allar vísurnar horfnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bessastaða bjargvættirnir – Ofurkraftarnir sem forsetaframbjóðendurnir vilja hafa

Bessastaða bjargvættirnir – Ofurkraftarnir sem forsetaframbjóðendurnir vilja hafa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Freyr hefur þurft að læra að lifa með sorginni – „Hann, Eldar, var flottur og fallegur strákur“

Freyr hefur þurft að læra að lifa með sorginni – „Hann, Eldar, var flottur og fallegur strákur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Risa myndaveisla: Glamúr og glæsilegheit á forsetafögnuði Ísdrottningarinnar

Risa myndaveisla: Glamúr og glæsilegheit á forsetafögnuði Ísdrottningarinnar