fbpx
Mánudagur 26.september 2022
Fókus

Ungir drengir logandi hræddir við ofrunk: „Vilja ekki ofgera sér, skemma eitthvað eða klára sig fyrir fullorðinsárin“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 10:00

Sigga Dögg. Mynd: Saga Sig

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Einhver sagði við mig um daginn: Hvernig getur kona skrifað um karlmenn? Þá hugsaði ég: Ég veit ekki betur en að karlmenn hafi skrifað um hugarheim kvenna svo öldum skiptir og ekki fengið neinar ákúrur fyrir,“ segir kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir, eða Sigga Dögg eins og hún er kölluð í daglegu tali. Sigga Dögg gaf í vikunni út bókina Daði sem hverfist um söguhetjuna Daða, unga dreng sem glímir við ástina, ástarsorg, sjálfsmyndina og gredduna. Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar kynVeru, sem Sigga Dögg gaf út í fyrra. Skáldsagan um Daða byggir á algengum spurningum og umræðum drengja úr kynfræðslu sem Sigga Dögg hefur haldið úti síðastliðin tíu ár.

Berskjaldaðir og einlægir

„Það verður til mikil nánd í tímunum,“ segir Sigga Dögg um kynfræðsluna. „Strákar leyfa sér að vera svo berskjaldaðir og einlægir og mér þykir virkilega vænt um þessa krakka þótt ég eigi kannski bara með þeim einn klukkutíma. Mér þykir vænt um það traust sem þau sýna mér og ég finn hvað þetta er oft mikið mál fyrir þau. Ég vil gefa mér tíma, fara á trúnó með þeim. Ég vil skilja þeirra hugarheim og vera til staðar. Það er í raun hvatinn að því að skrifa þessa bók; að þeir finni að þeir eru ekki einir í heiminum og það eru fleiri að pæla í þessu.“

Sigga Dögg segist einnig hugsa bókina sem verkfæri eða ísbrjót fyrir ungt fólk til að tala um kynlíf á opinskáan hátt. Þótt markhópurinn sé unglingar og ungmenni þá telur Sigga Dögg það hollt fyrir foreldra að kynna sér bæði bækurnar Daða og kynVeru til að ná sér í tól til að tala um kynlíf við börnin sín.

„Þegar ég gaf út kynVeru fékk ég alls konar viðbrögð. Ein móðir sagði við mig að dóttir hennar hefði fengið bókina í jólagjöf og mamman varð brjáluð. Hún reif af henni bókina og í kjölfarið fóru mæðgurnar að rífast. Það endaði með því að mamman sagði: Ókei, ég skal lesa hana fyrst og meta hvort þessi bók sé við hæfi. Mamman las hana og sagði síðan við dóttur sína: Þú skalt lesa þessa bók og allar vinkonur þínar líka. Þetta er skyldulesning. Mér þótti ofboðslega vænt um að heyra það,“ segir Sigga Dögg. „Þessar bækur eru auðlesnar og ég hef til dæmis fengið frábær skilaboð frá foreldrum sem eiga lesblinda krakka um að skrifa meira því kynVera sé eina bókin sem krakkarnir komast í gegnum.“

Erfiðara að skrifa Daða

Í kynVeru skrifar Sigga Dögg um hugarheim ungra stúlkna, heim sem hún þekkir vel enda man hún vel sjálf hvers konar hugsanir og pælingar fóru í gegnum huga hennar sjálfrar þegar hún var á því mótunartímabili sem unglingsárin eru. Hún segir að það hafi reynst henni auðveldara að skrifa kynVeru en Daða.

„KynVera bara byrjaði og Vera, sögupersónan, dreif mig áfram. Hún átti sitt eigið líf og ég var að skrá það niður. Ég byggði mikið af henni á mínu eigin lífi og skrifin rúlluðu þægilega áfram,“ segir Sigga Dögg. „Ég byrjaði að skrifa Daða í desember í fyrra því mig langaði að byrja. Sú bók byrjar miklu meira í andlitinu á þér og ég þurfti að hafa meira fyrir henni. Hún var erfiðari í fæðingu á þann veg að ég var ekki viss hvert ég vildi fara með hann Daða minn. Mér þótti vænt um hann en langaði líka að hrista hann og siða hann til, eins og svo margar mæður sem ala upp stráka glíma við. Við viljum hrista strákana og biðjum þá um að vera einlægir. En menningin er bara þannig að það er ekki samfélagslega viðurkennt að strákar séu einlægir, þannig að foreldrar hafa oft áhyggjur af þeim. Ég sendi Daða í ritstýringu og þegar ég fékk bókina til baka víxlaði ég endanum og flestum köflum. Ég raðaði henni þrisvar sinnum upp því það var eitthvað sem var ekki rétt. Ég var með hana á heilanum þangað til hún var í lagi.“

Sigga Dögg segir einmitt að tilfinningalíf ungra drengja sé oft vanrækt og það liggi þeim á hjarta oft á tíðum hversu auðveldlega stúlkur geta talað um sínar tilfinningar og vandamál.

„Strákur sem var í tíma hjá mér í vikunni spurði upp úr þurru: Af hverju líður fleiri strákum verr en konum. Af hverju er þunglyndi algengara hjá karlmönnum en konum? Við vorum ekki einu sinni að tala um þunglyndi heldur sjálfsmynd, sambönd og ástina. Ég sagði við hann að strákar þyrftu að vera duglegri að tala um tilfinningar, byggja upp stuðningsnet og viðhalda því. Þar erum við stelpur rosalega sterkar. Strákar sitja með alla vanlíðan á herðunum á með við tölum saman, fáum okkur ís, köfum ofan í málin og hættum ekki að tala fyrr en við förum að væla. Nú er ég ekki að segja að strákar þurfi að gera nákvæmlega eins og við stelpurnar, en þeir þurfa að gera eitthvað til að létta af sér.“

Sigga Dögg hélt viðburðinn Typptal á dögunum.

Ofrunk og typpastærð

Það liggur því beinast við að spyrja Siggu Dögg hvað það nákvæmlega sé sem hvíli hvað þyngst á ungum strákum – hvaða áskorunum þeir standa frammi fyrir?

„Þeir eru sjúklega hræddir um að ofrunka sér,“ segir Sigga Dögg. „Þeir eru með í huganum, margir hverjir, einhverja tölu sem þeir mega ekki fara yfir. Í nóvember er til dæmis haldið upp á sjálfsfróunarlausan nóvember sem reynist mörgum erfiður. Svo tekur við „destroy dick december“. Þá felst áskorunin í því að strákar eiga að fróa sér jafnoft og mánaðardagarnir eru. Þannig að 1. desember áttu að fróa þér einu sinni, 2. desember tvisvar sinnum og svo koll af kolli. Þeir eru að uppgötva svo mikið og læra inn á sig og vilja ekki ofgera sér, skemma eitthvað eða klára sig fyrir fullorðinsárin,“ segir Sigga Dögg. En er hægt að ofrunka sér?

„Nei,“ segir hún. „En ef þér er illt eða typpið aumt þá ætturðu að slaka á og leyfa litla manninum að hvíla sig.“

Hún segir að ofrunk sé stóra málið í hugarheimi ungra drengja í dag, en þar næst á eftir kemur typpastærð.

„Þeir eru mikið að pæla í typpastærð og hvort það sé til ein rétt eða ein besta typpastærð. Það sýnir að þeir taka á sig mjög mikla ábyrgð um að fullnægja í kynlífi. Það fer mikill tími kynfræðslu  í að tala um typpin þeirra og hluti sem geta komið upp í tengslum við typpið, svo sem sársauka og hreinlæti. Það er sjaldan sem þeir fá rými til að tala um typpið sitt,“ segir hún.

Beint typpi

Sigga Dögg stóð einmitt fyrir viðburðinum Typpatal fyrir stuttu þar sem gestum gafst kostur á að fræðast um allt mögulegt sem tengist typpinu, senda inn nafnlausar spurningar og hlæja aðeins. Í aðdraganda Typpatals stóð Sigga Dögg fyrir tveimur könnunum um typpið; einn spurningalista fyrir konur og einn fyrir karla. Alls svöruðu um 1.700 manns könnununum. Þar kom ýmislegt í ljós en eitt kom Siggu Dögg í opna skjöldu.

https://www.instagram.com/p/B4s_hEDANVs/

„Eitt sem ég hafði engan veginn séð fyrir hvað það eru margir sem vilja hafa typpið sitt beinna. Þarna staldraði ég við. Ég fann að ég þarf að fara dýpra í upplifun manna af sínu eigin typpi. Þeir eru ekkert mikið að ræða þetta og þetta er enn þá svolítið tabú. Ég búin að vera með fyrirlestra í ólíkum heimshornum þar sem ég hef komið inn á viðburðinn Typpatal og fólki, meira að segja í mínum geira, hefur þótt það mjög djarft. Það þykir sjálfsagt að halda píkuviðburði en þetta er viðkvæmara. Ég fékk til dæmis tölvupóst frá mæðrum þegar ég setti könnunina í gang og þær höfðu áhyggjur af því að ég myndi misnota upplýsingarnar eða nota þær í niðrandi tilgangi. Þetta voru margir tölvupóstar. Ég hef aldrei upplifað það áður að fólk efist um heilindi mín. Ég myndi aldrei nota slíkar upplýsingar til að gera grín eða níða einhvern. Ég vil ekki vinna þannig og ég trúi ekki að ég vinni þannig. Þannig að þetta snertir viðkvæma taug, typpatalið.“

Sigga Dögg ætlar að endurtaka Typpatal eftir áramót og hefur verið bókuð í ýmis fyrirtæki með smækkaða útgáfu af því. Hún hefur þurft að þola ákveðna mótstöðu frá ákveðnum skólastjórnendum og kennurum varðandi kynfræðslu sína og fékk að vita það um daginn að ákveðinn kennari hefði sagt við nemendur að ekki ætti að taka mark á kynfræðslunni hennar. Hún væri bara bull.

„Ég náttúrlega bregst við slíkri mótstöðu með að vera áfram sýnileg og vera í góðu sambandi við krakkana. Unglingar á Íslandi hafa mikið aðgengi að mér, þau vita það og nýta sér það óspart. Það er mjög dýrmætt. Þegar ég mæti mótstöðu þá finn ég fyrir svo miklu meiri stuðningi, sem vegur mikið þyngra en hið neikvæða. Það er leiðinlegt og glatað að lenda í mótvindi, en mér finnst ég fá miklu meiri meðbyr en mótbyr.“

Sigga Dögg hefur einnig ferðast vítt og breitt um heiminn og kennt öðrum kynfræðingum að nota húmor í kynfræðslu. Þá ætlar hún að endurútgefa bókina Kjaftað um kynlíf á næsta ári, gefa út Litlu bókina um blæðingar og halda stórt túr- og píkupartí. En fær hún aldrei leið á kynlífstalinu?

„Nei,“ segir hún ákveðin. „En ég þarf alveg að hvíla mig inni á milli og ég geri það alveg. Ég passa að eiga tíma þar sem ég bóka enga fundi, held enga fyrirlestra, svara ekki síma og kíki varla á tölvupóstinn. Þá nýt ég þess bara að vera heima að baka bananabrauð og horfa á sjónvarpið.“

Brot úr bókinni Daði: Daði:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Íturvaxnar línurnar kveiktu í náfölum Evrópumönnum – Átakanleg saga ,,Hottintotta Venusar“

Íturvaxnar línurnar kveiktu í náfölum Evrópumönnum – Átakanleg saga ,,Hottintotta Venusar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Heimsfrumsýning á Sumarljósi Elfars Aðalsteins – Sjáðu stikluna

Heimsfrumsýning á Sumarljósi Elfars Aðalsteins – Sjáðu stikluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þau eru guðforeldrar Archie – Ljúfsárar tengingar við fortíð Harry

Þau eru guðforeldrar Archie – Ljúfsárar tengingar við fortíð Harry
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi skjólstæðingur Ellen stígur fram og lætur allt flakka – „Þetta var hryllilegt“ 

Fyrrverandi skjólstæðingur Ellen stígur fram og lætur allt flakka – „Þetta var hryllilegt“ 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eign dagsins – 128 fermetrar á 29,9 milljónir

Eign dagsins – 128 fermetrar á 29,9 milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gamalt viðtal við Adam Levine dregið aftur fram í sviðsljósið

Gamalt viðtal við Adam Levine dregið aftur fram í sviðsljósið