fbpx
Miðvikudagur 15.júlí 2020
Fókus

Friðrik Ómar skildi eftir ellefu ára samband: Einmanaleikinn er erfiðastur – „Er þetta að gerast í alvöru?“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 17. nóvember 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæp tvö ár eru síðan líf Friðriks Ómars tónlistarmanns tók óvænta stefnu. Hann skildi við sambýlismann sinn til ellefu ára og ákvað í kjölfarið að taka heilsu- og lífsstílinn fastari tökum. Í dag lítur hann nokkuð sáttur um öxl en viðurkennir að ferðalagið hafi verið fjandanum erfiðara. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Friðrik mætir erfiðleikum í lífinu. „Ég reyni meðvitað að vera ekki mikið í viðtölum,“ segir Friðrik Ómar þegar blaðakona sækir hann heim. „Þessa dagana er ég bara á fullu að undirbúa jólin með fólkinu mínu hjá Rigg. Ég verð bæði með jólatónleika í Salnum í Kópavogi og Hofi ásamt því að syngja á Jólagestum Björgvins Halldórssonar svo ég verð syngjandi allar helgar fram að jólum eða á fimmtán tónleikum.“

Friðrik var fimmtán ára þegar hann gaf út sína fyrstu kasettu en hana tileinkaði hann einmitt jólunum og nefndi Jólasalat. Hann segir því óhætt að fullyrða að söngurinn sé búinn að vera samofinn jólahátíðinni í tæpan aldarfjórðung.

„Ég tók einu sinni meðvitað frí í desember en það var alveg glatað, svona eins og þegar fólk ákveður að dvelja erlendis yfir jólin en dauðsér svo eftir því, en þá er maður allavega búinn að prófa það.“

Friðrik slær ekki slöku við í jólaundirbúningnum því nýtt jólalag úr smiðju hans mun hljóma á næstunni.

„Við Svala Björgvins erum að gefa saman út nýtt jólalag en sjálfur samdi ég lag og texta,“ segir hann. Friðrik nær samt ekki að njóta útgáfunnar mjög lengi því við tekur stífur undirbúningur. „Stanslausar æfingar fyrir jólatónleikana og þá er aðalmálið að keyra sig ekki út. Ég legg mikla áherslu á að fara í ræktina og halda mér gangandi en alls ekki að breyta neinu. Oft læðist nefnilega sú hugsun að hvort það sé ekki bráðupplagt að skafa af sér eins og tvö kíló en þá getur maður bara veikst.“

Sjálfur fer Friðrik alltaf norður um jólin en stórfjölskylda hans býr á Akureyri. Á Þorláksmessu er ferðinni heitið til Dalvíkur þaðan sem hann er ættaður þar sem hann sýpur á púrtvíni með góðum vinum.

„Síðustu jól byrjuðum við fjölskyldan á því að syngja saman jólasálma á aðfangadag og ég væri til að halda þeirri hefð áfram. Maður er auðvitað enn með þetta í mótun en aðalhefðin hverfist auðvitað í kringum matinn. Mér finnst rosalega gaman að elda og geri mikið af því, þótt ég sé bara að elda fyrir sjálfan mig þá finnst mér það æðislegt. Það er auðvitað breyting að elda fyrir einn og margir sem mikla það fyrir sér en fyrir mér er það ákveðinn „me time“, ég hugsa ekki um neitt annað á meðan.“

„Er þetta að gerast í alvöru?“

Friðrik og fyrrverandi sambýlismaður hans slitu samvistir fyrir tæpum tveimur árum eftir ellefu ára samband. Hann segir breytinguna mikla og það hafi tekið tíma að læra að líta í spegilinn.

„Þetta hefur verið skrítið tímabil og gengið á í bylgjum. Fyrstu vikurnar var þetta ekkert svo erfitt því þá var allt svo nýtt og óraunverulegt, svo kemur tíminn þar sem maður spyr sjálfan sig „er þetta að gerast í alvöru?“ Að lokum kemur að því þú þarft að líta í spegilinn og fókusa á sjálfan þig, og það er mest trikkí. Allt í einu er enginn þarna og í grunninn er það mesta breytingin – sem og söknuðurinn að deila ekki lengur lífinu með einhverjum. Einmanaleikinn er erfiðastur, ekki síst í því starfi sem ég er í, vinnan mín verður oft einmanaleg þótt ég sé umkringdur fólki og eigi góða vini að. Ég setti mér þó snemma þá reglu að hitta fólk á hverjum degi og núna geri ég það alveg ómeðvitað, það hjálpar mér mikið enda er auðveldast í heimi að loka sig af – og það er það versta. Maður verður að taka á honum stóra sínum og halda áfram, þeir þekkja það sem hafa gengið í gegnum þetta ferli. Maður fer að meta litlu hlutina, hversdagsleikann og heilsuna. Þetta er gríðarleg breyting, ekki bara það að vakna og sofna einn eða hella upp á kaffið og kveikja á útvarpinu, heldur líka að læra að vera einn með sjálfum sér. En maðurinn er nú bara þannig gerður að hann venst öllu. Tíminn lagar og læknar og maður aðlagast en það er rosalegur skóli.“

Hættur að reyna að geðjast öllum

Friðrik tók eins og frægt er þátt í undankeppni Söngkeppni sjónvarpsins fyrr í vor en laut í lægra haldi fyrir framlagi Hatara sem hélt út fyrir Íslands hönd. Lagið hans, Hvað ef ég get ekki elskað? sló hins vegar í gegn og segir Friðrik fjölda fólks hafa komið að máli við hann og sagst tengja við textann.

„Fólk var ekkert mikið að segja mér það úti á götu enda er enginn beint stoltur af því að líða svona. Á yfirborðinu á nefnilega allt að vera svo frábært, en ég fékk og fæ enn fjöldann allan af einkaskilaboðum frá fólki sem segist tengja við textann. Ég sé það í dag að þetta var svolítið djarft af mér að opna á þetta og fæ oft spurninguna hvort ég geti núna elskað. Ég held ég geti það en maður er oft í leit að einhverju fullkomnu sem er ekki til. Ég viðurkenni líka að ég var búinn að gleyma hvað margir horfa á þessa keppni og áttaði mig ekki á því fyrr en daginn eftir að ég mætti fjölskyldu á förnum vegi þar sem börnin urðu hreinlega stjörnustjörf við að sjá mig. Í mínum huga var ég bara að gefa frá mér lag sem ég var stoltur og ánægður með en gerði mér ekki grein fyrir því sem óhjákvæmilega fylgdi með, viðtölunum og athyglinni sem ég var ekki að sækjast eftir. Ég finn samt mikinn mun á sjálfum mér núna og þegar ég tók síðast þátt fyrir ellefu árum. Í dag er ég orðinn sáttur við að vera ekki endilega allra og hættur að reyna að geðjast öllum. Ég er ekkert að reyna að vera hipp og kúl því ég er bara sveitastrákur að norðan og ekki að reyna vera neitt annað. Ég er mjög kaldhæðinn og húmorinn minn er oft misskilinn, svo það er pottþétt einhver þarna úti sem finnst ég vera merkilegur með mig. En stundum þarf maður bara að setja upp þann front og maður getur ekki hleypt öllum að. Fólki finnst líka að maður eigi alltaf að vera í stuði og það þekkja þeir sem starfa í þessum bransa, að það sé skrítið að maður sé ekki skælbrosandi öllum stundum, en staðreyndin er bara sú að við erum venjulegt fólk með sömu vandamál og allir hinir. Ég hika ekki við að viðurkenna ef ég er ekki hress, enda hef ég aldrei falið hvernig mér líður. Ég nenni ekki að vera með grímuna fasta á andlitinu á mér.“

Eftir að söngvakeppnin var yfirstaðin bókaði Friðrik sér ferð í fimm vikur til Suður-Ameríku og ferðaðist þaðan víða. Aðdáendur hans gátu fylgst vel með ferðum hans á Instagram-síðu hans „fromarinn“, þar sem hann er afar virkur og veitir innsýn í líf sitt.

„Buenos Aires heillaði mig hvað mest. Hún býr yfir skemmtilegri menningu þar sem fólk dansar tangó á hverju götuhorni og bæði matur og vín er framúrskarandi á allan hátt. Ég hefði aldrei séð þetta ferðalag fyrir mér fyrir nokkrum árum, en ég hafði helvíti gott af þessu og það besta var að mér leiddist ekki í eina sekúndu. Það er nefnilega áskorun að vera svona einn með sjálfum sér og nenna því, í alvöru.“

Heldur að hann langi í barn

Friðrik vill lítið tjá sig um skilnaðinn en hann segir starfstitilinn jafnframt oft fela í sér ákveðinn fælingarmátt þegar kemur að stefnumótamarkaðinum.

„Það var ákveðið ferli sem ég þurfti að fara í gegnum, því þegar við kynntumst var ég að byrja í minni vinnu en í dag finn ég sterkt fyrir því hvað íslenskir strákar vita mikið um mig. Þeir hafa ákveðið forskot en á sama tíma skil ég að þeir séu hræddir við að stíga inn í þennan heim. Það þarf visst hugrekki til. En ég er ósköp venjulegur strákur held ég.“

Þegar talið berst að barneignum vefst svarið ögn fyrir Friðriki.

„Ég hef verið spurður ótrúlega oft og spyr sjálfan mig sömuleiðis reglulega og veistu, já, ég held mig langi í barn – en ekki endilega börn í fleirtölu. Ég veit ekki. Ég finn það núna að það er stór partur af því að vera manneskja að eignast barn, í því felst svo mikill þroski. Ég sé það á vinum mínum að þetta er greinilega alveg málið! Eflaust vex þetta ferli manni í augum vegna kynhneigðar og aðstæðna og satt best að segja veit ég ekki hvort maður sé einhvern tímann alveg tilbúinn. Er það nokkur? Í tilfellum eins og mínu er þetta svo meðvituð ákvörðun og í kjölfarið ferli sem er flóknara en venjulega, innan gæsalappa. Ég sé ekki fyrir mér að gera þetta einn, en hver veit? Ég hef kannski hugsað um þetta í tíu ár en aldrei tekið skrefið, við vitum jú að skilnaðartíðnin er há og þá er auðvelt að ofhugsa allt, en eflaust er þetta eitthvað sem gæti dottið inn. Vissulega viljum við öll upplifa að við séum mikilvæg fyrir aðra manneskju og það er í grunninn sú þörf sem foreldrar fá uppfyllta, það er að segja þeir sem sinna börnunum sínum. Þau finna að þau eru einstök í augum barnanna sinna og öfugt. Það „töffar“ mann eflaust líka upp og það þykir mér spennandi tilhugsun, sem og að hafa eitthvað sem „groundar“ mig. Ég finn það núna þegar ég eldist og er búinn að brölta þetta mikið um, búinn að koma mér fyrir og er í geggjuðum aðstæðum – nema samkynhneigðin flækir þetta kannski aðeins.“

Æskan bæði geggjuð og hræðileg

Friðrik kom formlega út úr skápnum árið 2006 en segir það þó ekki hafa verið neitt gríðarlegt móment, erfiðast hafi þó verið að segja föður sínum af því.

„Ég er einkabarnið hans pabba og ég beið lengst með að segja honum. Það eru sjö ár milli mín og næsta systkinis svo ég ólst upp sem hálfgert örverpi.“

Friðrik lýsir æskunni á Dalvík sem geggjaðri og hræðilegri í senn.

„Það var náttúrlega æðislegt að alast upp á svona litlum stað og fá að gera allt sem maður vildi. Ég var á kafi í leikfélaginu og stofnaði meðal annars leikhóp með vinum mínum. Ég var alltaf syngjandi, spilandi á trommur og þá var ekkert mál að útvega æfingahúsnæði í nærliggjandi frystihúsi. Það var allt svona, en á sama tíma lenti ég líka í miklu einelti – fyrir að vera í þessu. Ég vildi vera leiðtogi, en leiðtogar eru ekkert endilega alltaf þeir vinsælustu. Svo er það líka það, að fólk í kringum mann áttar sig eflaust betur á því að maður sé „gay“ en maður sjálfur, það er eflaust partur af þessu einelti líka án þess að ég hafi fattað það sjálfur.“

Skilnaður foreldra vendipunktur

Foreldrar Friðriks skildu þegar hann var tíu ára og varð Friðrik eftir hjá föður sínum en móður hans flutti burt í annað samband, tímanum lýsir hann sem algjörum vendipunkti í sínu lífi.

„Það var ekki fyrr en á þessu ári sem ég fattaði af hverju ég ákvað að vera eftir hjá pabba. Ég fann til með honum og gekk hiklaust inn í eitthvert ábyrgðarhlutverk sem ég átti alls ekkert að gera þegar tekið er tillit til aldurs. Eftir á að hyggja var ekki vel að þessu staðið. Í dag er umræðan mjög breytt og foreldrar meðvitaðri um að börnin eigi að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Á móti kom að ég fékk gríðarlegt frelsi, pabbi leyfði mér að hafa hljóðfærin mín um alla íbúð og ég fékk í raun að vera minn eigin herra. Hann var að því leytinu til mikil hvatning fyrir mig þegar kom að tónlistinni. Það var kannski ekki mikill agi eða uppeldi á þessum tíma og ég gerði bara mitt, sem mér fannst skiljanlega mjög gott fyrirkomulag. Það voru engar reglur en þarna lærði ég þó kannski að verða sjálfstæður. Pabbi kunni varla að sjóða hafragraut og hafði nær aldrei eldað mat. Þegar ég hugsa um það núna var það eflaust þarna sem ég lærði að elda – því ég þurfti þess, en þetta voru sérstakar aðstæður.“

Tæpum tveimur árum síðar tóku foreldrar hans aftur saman og segist Friðrik hafa tekið því frekar illa í upphafi.

„Mér var farið að líka vel við fyrirkomulagið eins og við pabbi vorum farnir að hafa það. En þetta lagaðist fljótt. Foreldrar mínir eru saman í dag og samband okkar afar gott.“

Einelti í æsku

Á sama tíma gekk Friðrik í gegnum átakamikið einelti í skóla sem fullorðið samferðafólk hans lét viðgangast án mikilla athugasemda.

„Ég myndi segja að ég hafi verið samfélagslega mjög virkur, þótt eflaust myndu einhverjir segja að ég hafi bara verið athyglissjúkur, frekur eða stjórnsamur. Ég átti þó alltaf mína bandamenn en svo lenti ég í leiðindamálum. Mér gekk vel í skóla, var með sjálfstraust og lét ekki kýla mig svo auðveldlega niður, en á tíma var þetta alveg komið út í líkamlegt ofbeldi og því miður var það svo að krakkar í Dalvíkurskóla voru lagðir í slæmt einelti á þessum árum. Það þreifst einhverra hluta vegna og ég á alveg minningar þar sem skólaúlpan mín var tekin og rifin sem og skólataskan. Það var oft setið fyrir mér, oftast af eldri strákum, og ekkert var gert í neinu, ekki fyrr en bróðir minn kom í heimsókn til Dalvíkur og átti fund með skólastjóranum. Þetta fylgir manni alltaf, því þrátt fyrir að mér finnist gaman að umgangast fólk í dag er þessi reynsla alltaf partur af mér, allt það sem gerðist þarna. Ég man alltaf eftir hræðslunni suma daga við að fara í skólann. Margt af þessu fólki hefur í dag beðist afsökunar og ég held að fólk sé svolítið ánægt með mig, því ég hélt áfram á þeirri braut sem ég var byrjaður á þá. Ég held að í grunninn sé það af því að ég byrjaði svo ungur að syngja og spila á hljóðfæri. Auðvitað var ég athyglissjúkur en það bjó meira að baki – þetta var eitthvað sem mig langaði frá fyrstu tíð að gera og ég er ákaflega stoltur af því.“

Brugðið yfir Samherjamálinu

Friðrik bjó á Dalvík á árunum 1987 til 2001 og segir bæinn eiga stóran stað í hjarta hans. Honum þyki því óendanlega vænt um að halda utan um stærstu tónlistarhátíð landsins þar síðastliðin sex ár, en á næsta ári fagna hátíðarhöldin Fiskidagar á Dalvík tuttugu ára afmæli sínu.

„Ég er alltaf tengdur Fiskideginum og það er alltaf gríðarlega gaman að mæta og halda eina stærstu tónleika á Íslandi. Þarna búa tvö þúsund manns en meðan á hátíðinni stendur mæta allt upp í fjörutíu þúsund manns. Þetta er brjálæði, næstum þrisvar sinnum sá fjöldi sem sækir Þjóðhátíð í Eyjum. Það er líka frábært að gera þetta með Eyþóri Inga og Matta Matt en þeir eru báðir Dalvíkingar og mikill kærleikur okkar í millum. Það er gaman að segja frá því að eftir grunnskóla tók ég við tónmenntakennslunni í skólanum og kenndi þar Eyþóri en hann var þá í sjötta bekk. Honum fannst svo mikið til mín koma að hann teiknaði mynd af mér að keppa í Eurovision enda var hann viss um að ég myndi síðar stíga þar á svið. Hann endaði svo á að gera það sjálfur helvítið á honum,“ segir Friðrik og hlær sínum dillandi hlátri. „Þetta er mjög skemmtileg tenging.“

Fiskidagurinn mikli hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga vegna tengingar hátíðarinnar við Samherja. Friðrik hefur fylgst með umræðunni um Samherjaskjölin svokölluðu og var sleginn yfir afhjúpun Kveiks og Stundarinnar þar sem koma fram alvarlegar ásakanir á hendur forsvarsmönnum Samherja.

„Mér var brugðið líkt og allri þjóðinni en samstarf mitt við starfsfólk Samherja, þá sérstaklega við Kristján Vilhelmsson, hefur verið afar gott í tengslum við Fiskidagstónleikana. Fiskidagurinn mikli er síðan annað dæmi sem er sér félag og ekki rekið af Samherja. Höfum það á hreinu,“ segir Friðik og heldur áfram. „Við erum í miðjum storminum núna og erfitt að svara til um hvaða afleiðingar þetta hefur. Mér þykir vænt um tónleikana og allt það fólk sem að þeim kemur. Ég hugsa þó aðallega til alls þess góða starfsfólks sem vinnur hjá fyrirtækinu alla jafna. Þetta er mjög erfitt fyrir marga. Ég trúi því að stjórnendur félagsins geri þær breytingar sem þarf til að leysa þetta mál.“

Varðandi umfjöllun Kveiks um Samherjaskjölin finnst Friðriki leitt að Fiskidagurinn leiki svo stórt hlutverk.

„Ég er á því að Helgi Seljan og Aðalsteinn hafi farið fram úr sér með tengingu Fiskidagsins sem hátíðar við Samherja og þessar ásakanir. Það eru svo rosalega margir sem koma að hátíðinni, sjálfboðaliðar og nær 200 styrktaraðilar og Samherji er vissulega einn af þeim en þeir halda ekki þessa hátíð. Hátíðin og Dalvíkingar munu standa þetta af sér enda um eina flottustu og farsælustu bæjarhátíð fyrr og síðar að ræða á Íslandi. Hvað sem svo verður um tónleikana. Það verður að koma í ljós enda er það enginn heimsendir þótt þeir yrðu ekki haldnir, þótt vissulega myndu margir sakna þeirra og þar á meðal ég.“

Í besta formi lífs síns

Miklar breytingar hafa orðið á heilsufari Friðriks undanfarin ár en hann segir óhætt að segja að hann sé í besta formi lífs síns.

„Áður en ég flutti suður árið 2003, var ég tæplega þrjátíu kílóum þyngri en ég er í dag. Sem betur fer er ekki til mikið af myndum af mér frá þessum tíma enda forðaðist ég greinilega myndavélina. Ég hef örugglega prófað alla heimsins kúra, búinn að þyngjast og léttast til skiptis. Það var alltaf þetta helvítis vesen á mér, en frá árinu 2006 hef ég haldið mér í þessu plús mínus fimm kíló. Ég hef þó aldrei verið í eins góðu formi og ég er í dag enda tók ég þetta föstum tökum eftir að ég varð einn. Ég byrjaði í 16/8 kúrnum og fastaði eftir því prógrammi í eitt og hálft ár. Nú er ég farinn að láta líða lengra á milli, því samhliða stunda ég mikla líkamsrækt og fann að ég varð að borða meira. Þetta hentar mér mjög vel og þegar ég borða þá borða ég eitthvað rosalega gott. Um tíma fastaði ég í tvær vikur í senn og þá skiptir öllu að halda hausnum í lagi. Það getur reynst erfitt en samt mesta furða hvað maður er hress. Húðin og augun taka stakkaskiptum og maður verður allur annar. Þetta krefst mikils aga en er á sama tíma góð hreinsun.“

Eftir að jólatörninni lýkur hyggst Friðrik leggja leið sína á framandi slóðir.

„Ég tek mér alltaf frí í janúar enda finnst mér það góður tími. Ég fer alltaf langt í burtu til að ná góðu veðri. Ég ætla að þessu sinni að ferðast á nýjan stað og hitta „lókalinn“, ég á bara eftir að ákveða hvert.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 4 dögum

Stjörnuspá vikunnar – Vó, nú er góður tími til að hringja í Tvíbura

Stjörnuspá vikunnar – Vó, nú er góður tími til að hringja í Tvíbura
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sif Sigmars eignast þriðja barnið: „Drengurinn hefur hlotið nafnið Útgjaldaliður nr. 3“

Sif Sigmars eignast þriðja barnið: „Drengurinn hefur hlotið nafnið Útgjaldaliður nr. 3“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vonarstjörnur Íslands í kvikmyndum og sjónvarpi

Vonarstjörnur Íslands í kvikmyndum og sjónvarpi
Fókus
Fyrir 6 dögum

Svona færðu mest fyrir peninginn á pöbbaröltinu í borginni – Bjór á 600 krónur

Svona færðu mest fyrir peninginn á pöbbaröltinu í borginni – Bjór á 600 krónur