fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Þaulskipulögð rán í Reykjavík: „Þeir ruddust inn með miklum hávaða og öskruðu: Þetta er vopnað rán”

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 6. október 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á árunum 1995–1997 voru framin þrjú rán í Reykjavík sem vöktu töluverðan óhug. Ránin voru þaulskipulögð, vasklega var gengið til verks og höfðu ræningjarnir í öllum tilvikum töluverðar fjárhæðir upp úr krafsinu. Sérstaka athygli vakti að öll þrjú ránin voru framin á mánudagsmorgni, í öllum málunum var um fleiri en einn geranda að ræða og í öllum tilvikum voru ræningjarnir grímuklæddir. Þegar þriðja málið, 10-11 ránið, kom upp þá töldu margir að um sömu ræningja væri að ræða í öllum tilvikum. Annað kom þó á daginn. Tvö málanna teljast í dag upplýst og reyndist þar um ótengda aðila að ræða. Þriðja málið, Búnaðarbankaránið, hefur aldrei verið upplýst en þó lágu tilteknir einstaklingar undir grun, sem ekki eru taldir tengjast hinum tveimur ránunum.

Skeljungsránið 

Þaulskipulagt rán

Mánudagsmorguninn 27. febrúar 1995 voru tveir starfsmenn Skeljungs á leiðinni að skila helgaruppgjöri í Íslandsbanka við Lækjargötu þegar þrír hettuklæddir menn, í bláum vinnugöllum, réðust að þeim. Einn maðurinn var vopnaður slökkvitæki sem hann notaði til að slá annan starfsmanninn í höfuðið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Síðan hrifsuðu mennirnir til sín uppgjörstöskuna, sem innihélt tæplega sex milljónir króna, og hlupu að flóttabifreið, hvítum Saab, sem beið þeirra á Vonarstræti. Ránið tók aðeins örfáar mínútur. Saab-bifreiðin fannst mannlaus síðar um morguninn við Ásvallagötu og höfðu ræningjarnir reynt að kveikja í henni.

Síðdegis sama dag var tilkynnt um bál sem logaði í fjörunni í Hvammsvík í Kjós. Þar fannst taska, fatnaður, skór og peningapoki frá Skeljungi, sönnunargögn í málinu sem ræningjarnir höfðu reynt að farga.

Upp hófst umfangsmikil rannsókn lögreglu, en ljóst var að ránið hafði verið þaulskipulagt, og tókst ræningjunum vel að hylja slóð sína. Saab-bifreiðinni höfðu ræningjarnir stolið, mennirnir voru í vinnugöllum með hettur, og höfðu þeir jafnvel gengið svo langt að reyna að farga öllum sönnunargögnum með því að kveikja í þeim. Rannsóknin var því árangurslaus og lá málið opið hjá lögreglu og safnaði ryki í átta ár, en þá dró skyndilega til tíðinda.

 

Samviskan nagar eftir sjónvarpsþátt

„Kveikjan að þessu var þátturinn Sönn íslensk sakamál í fyrra. Það var nákvæmlega þá sem þetta gaus allt upp hjá mér og ég fann að ég þurfti að segja frá þessu,“ sagði Jónína Baldursdóttir, fyrrverandi sambýliskona manns að nafni Stefán Aðalsteinn Sigmundsson, í samtali við DV árið 2002.

Skeljungsránið var tekið fyrir í þætti af Sönnum íslenskum sakamálum. Þegar Jónína sá þáttinn ákvað hún að hafa samband við lögreglu og greina frá leyndarmáli sem hún hafði þagað yfir í tæpan áratug. Fyrrverandi sambýlismaður hennar, Stefán Aðalsteinsson, hafði samband við hana skömmu eftir ránið og var honum mikið niðri fyrir.

„Hann sagði mér að hann hefði staðið að þessu ráni í Lækjargötunni og lýsti því fyrir mér að þeir hefðu verið þrír og þetta hefði verið vandlega undirbúið. Þeir biðu þarna eftir stelpunum sem þeir vissu að kæmu um þetta leyti. Þegar þær stoppuðu stukku tveir þeirra á eftir bílnum [bílnum sem starfsmennirnir komu á til að skila uppgjörinu, innsk. blm]. Stefán greip með sér slökkvitæki sem var í bílnum og ætlaði að nota það til að sprauta á þær til að skapa ótta. En þegar til kom var tækið bilað og þegar ekkert kom út úr því panikkaði hann og barði eina þeirra. Það hafði ekki staðið til að meiða neinn.“

Flúðu á tveimur bifreiðum og reiðhjólum 

Stefán sagði Jónínu að í kjölfarið hefðu hann og samverkamenn hans stungið af á Saab-bifreiðinni, ekið henni á tiltekinn stað þar sem þeir skiptu yfir á reiðhjól og hjóluðu allir hver í sína áttina og hittust síðar á fyrirfram ákveðnum stað þar sem þeirra beið jeppi. Þeir settu reiðhjólin inn í jeppann og óku svo í Hvalfjörð þar sem þeir brenndu ávísanir, VISA-nótur og fatnað.

Stefán bað Jónínu að fela hans hluta af fengnum. „Ég veit ekki hvernig honum datt þetta í hug. En hann er mikill spekúlant og pælingamaður. Það er einmitt honum líkt að plana eitthvað svona vel.“ Þrátt fyrir að hafa þagað yfir þessum upplýsingum í næstum áratug ákvað Jónína að stíga fram og greina frá vitneskju sinni um málið. „Ef maður tekur þá stefnu í lífinu að vera heiðarlegur og njóta lífsins þá verður maður að losa sig við svona byrði.“ Jónína hafði geymt ránsfeng Stefáns tímabundið og fékk um 200 þúsund krónur fyrir vikið. Sökum þess að Jónína gaf sig fram við lögreglu og greindi frá vitneskju sinni var ákveðið að ákæra hana ekki fyrir hylmingu.

Í kjölfarið var Stefán Aðalsteinn handtekinn og dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Í niðurstöðu Hæstaréttar var ránið kallað þaulskipulagt og ófyrirleitið. Stefán játaði sakir greiðlega við yfirheyrslur, rakti atburðarás í smáatriðum og gekk með lögreglu flóttaleið þeirra félaga.

Samverkamenn Stefáns voru ekki sakfelldir. Annar þeirra sviti sig lífi rétt áður en hann átti að mæta til skýrslutöku og lögreglu tókst ekki að sanna sakir á þann þriðja.

Búnaðarbankaránið

Ruddust inn

Að morgni dags mánudaginn 18. desember 1995 réðust þrír vopnaðir menn inn í Búnaðarbankann við Vesturgötu í Reykjavík.

„Þeir ruddust inn með miklum hávaða og öskruðu: Þetta er vopnað rán. Ég var staddur inni á skrifstofu minni baka til og áttaði mig ekki alveg á alvörunni í fyrstu. Þegar ég sá svo einn mannanna stökkva yfir skenkinn með hníf í hendi fór ekki á milli mála að hér var alvara á ferðum,“ sagði Leifur H. Jósteinsson, útibússtjóri Búnaðarbankans,  í samtali við DV árið 1995.

Mennirnir þrír voru klæddir í samfestinga og með lambhúshettur. Allir voru þeir vopnaðir, tveir þeirra hnífum og sá þriðji haglabyssu. „Þeir hræddu fólkið með látunum og gengu svo mjög skipulega til verks. Einn, sá með haglabyssuna, virtist stjórna aðgerðum og hann beið fyrir framan skenkinn meðan hinir tveir fóru inn fyrir og brutu upp skúffur hjá fjórum gjaldkerum. Þetta tók varla meira en eina mínútu og svo voru þeir á bak og burt,“ sagði Leifur.

Ræningjarnir komust á brott með tæplega tvær milljónir í reiðufé. Ránið tók aðeins um eina mínútu. Ræningjarnir hlupu síðan niður á Nýlendugötu, samkvæmt vitnum, og röktu sporhundar svo slóð þeirra áfram yfir Garðastræti, þar sem slóð þeirra hvarf.  Lögregla taldi að þar hefði bifreið beðið ræningjanna, en lögreglan fann Toyota-bifreið á Blómvallagötu þar sem einn hnífur fannst sem er talinn hafa tilheyrt einum ræningjanna.

Aldrei upplýst

Búnaðarbankaránið var aldrei upplýst. Búnaðarbanki Íslands reyndi að greiða fyrir rannsókn málsins með því að heita einni milljón króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku ræningjanna. Fjórir ungir menn voru um tíma grunaðir um verknaðinn, en þeir höfðu áður komist í kast við lögin fyrir fjár- og tryggingasvik. Þeir höfðu sviðsett slys, innbrot og fleira í þeim tilgangi að hafa fé út úr tryggingafélögum með sviksamlegum hætti. Voru þeir um tíma hnepptir í gæsluvarðhald vegna málsins. Rannsóknarlögregla ríkisins kvaðst fullviss að fjórmenningarnir tengdust málinu. Lögregla vissi til þess að mennirnir hefðu áður gert áform um rán sem voru grunsamlega áþekk þeim aðferðum sem beitt var við Búnaðarbankaránið. „Það liggur fyrir að þessir menn hafa planað svona atburð með mjög áþekkum hætti og raunin varð á Búnaðarbankamálinu. Það er enn til rannsóknar að hve miklu leyti þeirra undirbúningur kom við sögu varðandi ránið. Bankaránið er staðreynd og þeirra undirbúningur er staðreynd. En urðu einhverjir á undan þeim eða hvað?“ sagði Hörður Jóhannesson, þáverandi yfirlögregluþjónn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, í samtali við Helgarpóstinn í febrúar 1996. Fjórmenningarnir neituðu þó ávallt sök og héldu því fram að þeir hefðu fjarvistarsönnun þegar ránið var framið. Ekki var nægum sönnunum fyrir að fara til að ákæra fjórmenningana og Búnaðarbankaránið er því enn opið mál hjá lögreglu.

10-11 ránið

 

Helgaruppgjörinu rænt

Mánudagsmorgun 14. apríl árið 1997 sátu tveir menn fyrir starfsmanni verslunar 10-11 í stigagangi fyrir framan skrifstofu fyrirtækisins við Suðurlandsbraut, vopnaðir heimatilbúnum leðurbareflum fylltum sandi. Starfsmaðurinn var með uppgjörstösku sem innihélt um fimm milljónir króna, sem var helgarsala verslunarinnar. Ræningjarnir huldu, líkt og í hinum ránunum, andlit sín með lambhúshettum. Þeir réðust að starfsmanninum, úr launsátri, með ofbeldi, sneru hann niður, börðu og rifu af honum uppgjörið.

Í kjölfar ránsins náði DV tali af tveimur vitnum, þeim Sigurði Kjartanssyni byggingafræðingi og Hallgrími Magnússyni lækni. Þeir voru báðir á leið til vinnu þegar grímuklæddir menn urðu á vegi þeirra. „Ég hélt fyrst að þetta væri grín. Síðan gekk ég áleiðis upp stigann og heyrði einhverjar stunur fyrir ofan. Þegar ég kom upp lá ungur maður þar hálfvankaður og það blæddi úr honum,“ sagði Sigurður í samtali við DV. Hann gerði sér þá grein fyrir alvöru málsins. „Ég sagði þá við Hallgrím: Við skulum reyna að ná í helvítis þrjótana.“ Sigurður og Hallgrímur sáu mennina hlaupa átt að Gnoðarvogi og afréðu þeir að stökkva út í bíl og veita þeim eftirför. „Við Hallgrímur rukum út í bílinn minn og ókum upp Skeiðarvog og inn Sólheimana til að reyna að komast fyrir þá. Þar sáum við tvo grunsamlega menn. Þeir voru þá að stíga inn í bíl sem Hallgrímur sá. Ég hringdi strax í lögregluna og sagði að við hefðum séð menn sem gætu tengst þessu ráni.“ Hallgrímur og Sigurður náðu skrásetningarnúmeri bílsins og komu þeim upplýsingum til lögreglu. Það tók lögregluna aðeins tvo tíma að hafa upp á bílnum.

„Mér finnst þetta ótrúleg bíræfni um hábjartan dag,“ sagði Sigurður.

Eigandi bifreiðarinnar, brúnnar Mözdu, var í kjölfarið handtekinn og reyndist hafa nokkurt magn peninga á sér. Sá maður reyndist áður hafa komist í kast við lögin. Hafði hann skömmu áður verið dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar vegna smygls á tæpu kílói af amfetamíni í mörgæsarstyttu árið 1995.

Óafvitandi hlutdeildarmaður

„Ég stóð ekki að þessu ráni. Ég vissi ekki hvað var í gangi þarna. Ég ók náttúrulega en ég vissi ekki um tilgang ferðarinnar,“ sagði einn þriggja sakborninganna fyrir dómi þegar hann var beðinn um að lýsa afstöðu sinni til sakarefnisins. Kvaðst hann enga ástæðu hafa haft til að fremja rán, hann ætti næga peninga. Hann hefði verið fenginn til að aka flóttabifreiðinni án þess að honum hefði verið gerð grein fyrir að hann væri að taka þátt í ráni. Hinir tveir játuðu sakir. Þeir hefðu vitað um ferðir peningasendilsins og ætlað að fremja ránið viku áður en þeir létu verða af því. Annar þeirra hefði þó sofið yfir sig svo þeir urðu að fresta ráninu um viku. Þremenningarnir voru allir sakfelldir fyrir sinn hlut í ráninu sem telst nú upplýst.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“