Hugrún Birta Egilsdóttir bar sigur úr býtum í fegurðarsamkeppninni Miss Universe Iceland en hún var krýnd Miss Supranational í keppninni sem haldin var nú í september. Hugrún fer því sem fulltrúi Íslands í keppnina úti sem haldin verður síðar á þessu ári. „Ég skráði mig í Miss Universe Iceland til að stækka tengslanetið mitt ásamt því að stíga út fyrir þægindarammann. Það gekk frábærlega því ég hafði trú á mér allan tímann og vissi að ég var búin að standa mig vel. Með því hugarfari steig ég á svið og búmm, endaði með kórónu á höfðinu.“
Hugrún segir það staðreynd að samfélagsmiðlar leiki stórt hlutverk í velgengni stelpna í keppnum sem þessari þótt fjöldi fylgjenda gefi engin sérstök aukastig. „Það er mjög jákvætt að vera með stóran fylgjendahóp því það vekur spurningar hvað viðkomandi hafi fram að færa. Það hlýtur að vera spennandi einstaklingur og í kjölfarið vill fólk kynna sér viðkomandi betur. Sjálf sýni ég frá alls konar á mínum miðli, fjallgöngur, hreyfingu, mataræði, outfitt og fjölskyldulífið, mitt daglega líf.’“
Vissi ekki að kærastinn væri þekktur tónlistarmaður
Hugrún birti nýverið mynd á samfélagsmiðli sínum þar sem hún opinberaði í fyrsta skipti ástina í lífi sínu en kærastanum kynntist hún fyrir tæpum tveimur árum. „Ég vissi ekkert hver hann var, en ég sá mynd af honum með gítar á prófílnum sínum og fannst hann sætur strákur. Við spjölluðum svo saman á þræðinum þar sem hann bað um að fá að hitta mig, alveg týpískur strákur. Göngugarpurinn ég ákvað hins vegar að bjóða honum með mér í fjallgöngu svo þannig var fyrsta stefnumótið okkar. Hann sagði að þetta væri alveg nýtt fyrir sér en svona kynnist maður almennilega. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri þekktur tónlistarmaður fyrr en ég fletti honum upp á netinu. Ég er ekki mikið inni í tónlist og hlusta bara á útvarpið, þá er ég góð. Eftir að hafa spurt hvað hann gerði fór ég að hlusta á lögin hans sem eru auðvitað frábær. Ég sé hann samt ekki sem tónlistarmann heldur bara sem Ásgeir Trausta, kærstann minn.“
Alltaf jafn skrítið að sjá hann á sviði
Kærastann þarf vart að kynna en Ásgeir Trausti Einarsson hefur notið mikilla vinsælda síðan árið 2012 þegar platan hans, Dýrð í dauðaþögn, kom út. Hann er um þessar mundir að leggja lokahönd á nýja plötu og fullyrðir Hugrún að hann eigi eftir að stækka enn meira í kjölfarið. „Platan kemur út í byrjun næsta árs en ég er einmitt að leika í tónlistarmyndbandi við lag hans, sem kemur út fljótlega. Ég elska þetta lag, og í raun öll lögin á plötunni, hún er virkilega góð og kemur skemmtilega á óvart. Í kjölfarið mun hann svo túra um allan heim og ég fylgi honum eflaust eitthvað eftir. Það verður samt alltaf jafn skrítið að sitja í áhorfendastúkunni og horfa á hann spila, því fyrir mér er hann bara maðurinn sem stendur heima í náttfötunum og eldar morgunmatinn fyrir mig.“
Viðtalið í heild má lesa í helgarblaði DV.