Tónlistarmaðurinn Gísli Kristjánsson gaf út plötuna The Skeleton Crew núna á dögunum, en fimmtán ár eru liðin síðan hann gaf út fyrstu plötuna sína, How About That. Þá vakti hann mikla athygli fyrir undarlega textagerð.
Textarnir á nýju plötunni eru engin undantekning frá undarlegu textunum á fyrri plötunni. Núna fjalla þeir þó um frekar venjulega hluti eins og að lifa með brotna útlimi eða um baslið sem ástin getur verið.
„Ég er búinn að vera lengi að bögglast við þetta, en svo allt í einu bara datt eitthvað á rétta staði og passaði saman, réttu lögin og rétti fílingurinn.“
Eftir útgáfuna á fyrstu plötunni var Gísli á tónleikaferðalagi í þrjú ár og í kjölfarið fór hann til Los Angeles. Þar hljóðritaði hann aðra plötu sínu með upptökustjóranum Mickey Petralia en hann hefur gert plötur með stórstjörnum eins og Eels, Peches, Dandy Warhols og Beck.
Gísli flutti síðan til London þar sem hann vann sem upptökustjóri og lagasmiður fyrir aðra tónlistarmenn. Þar vann hann með ýmsum tónlistarmönnum, en á meðal þeirra voru stjörnur eins og Duffy, Mick Jones og Cathy Dennis.
„Þetta var lífsreynsla sem var mikils virði, bæði sem manneskja og sem tónlistarmaður. Maður var svona frekar „starstruck“ allan tímann en allir ógeðslega næs að hjálpast að og bara rosagóður fílingur.“
Eftir að hafa verið í London í sex ár flutti Gísli heim til Íslands og settist að á Höfnum á Reykjanesi með konu sinni, Elízu Newman. Þar byggði hann sér stúdíó og hefur verið að vinna með hinum ýmsu íslensku tónlistarmönnum.
Á nýju plötunni sér Gísli sjálfur um allar upptökur og hljóðblöndun. Hann spilar á nánast öll hljóðfærin fyrir utan aðstoð frá Elízu Newman á fiðlur og bakraddir, fimm ára dóttir þeirra spilar á ýmis slagverkshljóðfæri og Birkir Örn Gíslason tekur eins og eitt gítarsóló.
„Þetta er allt tekið upp af mér, heima hjá mér. Ég er búinn að vera að dúlla við þetta þar í friði.“
Nafnið á plötunni, The Skeleton Crew, á því vel við þar sem „Skeleton Crew“ merkir einmitt að vinna verkefni með lágmarks mannskap.
Gísli á samfélagsmiðlum
Instagram: gisli_music
Facebook: gislimusic
Twitter: @GisliKristjans
SoundCloud: gisli-kristjansson