„Ég hætti sem sagt að reykja áramótin 2017/2018. Ég var búinn að vera í miklu brasi með lungnabólgur og óþægindi. Ég asnaðist til að trassa það alltaf að fara til læknis. Eftir að ég hætti að reykja hélt þetta áfram þannig að ég hugsaði: Kannski ég láti kíkja á þetta. Þá komust þeir að því að það væri eitthvað annað þarna en lungnabólga,“ segir Guðbjörn Jóhann, oftast kallaður Bubbi, í hlaðvarpsþætti Krafts Fokk ég er með krabbamein.
Guðbjörn er 24 ára, en greindist með sjaldgæft eistnakrabbamein í janúar í fyrra. Hann segir að eftir þessa fyrstu læknisheimsókn hafi hann ekki verið kallaður inn til læknis heldur að hann hafi fengið fréttirnar um að þetta væri eitthvað alvarlegra en lungnabólga í gegnum tíma.
„Þetta voru ekki skemmtilegustu fréttirnar að fá í síma og þurfa síðan að bíða í viku. Þetta er örugglega erfiðasta vika sem ég hef upplifað. Hún var rosalega lengi að líða,“ segir Bubbi. „Þá gerði ég það sem maður á alls ekki að gera og það er að fara á netið og lesa mér til um þetta. Miðað við þær lýsingar sem ég skrifaði á Google kom upp að ég væri með fjórða stigs lungnakrabbamein og bara á leiðinni í gröfina. Ég gleymdi að lesa það að þessar rannsóknir voru gerðar á einstaklingum á aldrinum 70 til 80 í Ameríku,“ bætir hann við.
Í sneiðmyndatöku kom í ljós að Bubbi væri með æxli. Læknar sögðu honum ekki nákvæmlega hvað hefði fundist og honum sagt að teymi á Landsspítalanum myndi hafa samband.
„Bara bæjó. Það var voðalega furðulegt ferli í kringum þetta. Ég hélt bara áfram í vinnu með hálfan hug,“ segir Bubbi og bætir við að þetta hafi verið mjög erfið bið. „Maður getur orðið svolítið klikkaður í höfðinu, allavega ég, ég var pínu klikkaður í höfðinu eftir allan þennan lestur. Svo fékk ég bara að heyra það að það væri ekki sniðugt að vera að lesa sér til um eitthvað á Google því það er víst enginn þar á bak við skjáinn með menntun í læknisfræði.“
Í næstu læknisheimsókn var stungið á æxlið til að greina þetta betur. Læknar héldu fyrst að um lungnakrabbamein væri að ræða, en eftir að óléttugildi voru prófuð kom í ljós að efni fundust í æxlinu sem eru þau sömu og finnast í fóstrum.
„Ég hefði getað sleppt öllum þessum sérfræðilæknum og farið í apótekið og keypt mér tvö Yes or no próf og afgreitt þetta heima. Þetta var svolítið skrýtið,“ segir Bubbi. Eftir ástunguna og prófun á óléttugildum fékk Bubbi að heyra að hann væri með eistnakrabbamein.
„Ég var ekki alveg að gúddera það,“ segir Bubbi og bætir við að honum hafi fundist skrýtið að um eistnakrabbamein væri að ræða þar sem ástungan var gerð í brjóstholi.
„Málið er að sem sagt þegar að fóstur myndast þá eru svokallaðar fósturfrumur eða kímfrumur sem mynda það. Þær eiga svo bara að eyðast eftir að það er allt búið, sko. En í mínu tilviki þá hélt það áfram. Þær dóu ekki heldur bara grasseruðu þannig að það svona, já, þetta myndaði í raun fóstur í brjóstholinu á mér. Þegar að þeir fóru að skoða sýnið sáu þeir alls konar í þessu. Alls konar vefi, það var taugavefur, það var kalkmyndandi vefur og slímmyndanid vefur. Það var æðavefur. Þetta var í rauninni eins og ófullkomið fóstur. Þetta var svona „evil twin“. Þetta er svolítið spes,“ segir Bubbi og heldur áfram.
„Miðað við myndina sem ég fékk af æxlinu eftir að búið var að rífa það úr mér þá er þetta ekki við hæfi ungra barna. Þetta er 18 plús. Ég myndi aldrei sýna þessa mynd í barnaafmæli.“
Bubbi fór í lyfjameðferð og síðan til Ameríku þar sem æxlið var fjarlægt. Hann kom heim í júlí í fyrra og er núna undir eftirliti læknis á þriggja mánaða fresti. Hann kvíðir aldrei fyrir læknaheimsóknum og tekst á við sjúkdóminn með húmorinn að vopni.
„Ef maður tekur þetta á húmornum þá er þetta léttara. Ekki vera að spá of mikið í þessu. Þetta er erfitt verkefni. Ef að þú gefst upp þá náttúrulega bara er þetta búið.“
Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér fyrir neðan: