fbpx
Miðvikudagur 06.júlí 2022
Fókus

Heiðrún prófaði alla megrunarkúra sem völ var á: „Ég gafst upp“ – Fann sig í CrossFit

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 28. mars 2019 20:00

Heiðrún Finnsdóttir vill hjálpa öðrum á sama stað og hún var á. Mynd: Hanna/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðrún Finnsdóttir er tveggja barna móðir og CrossFittari. Hún bæði stundar CrossFit af kappi og þjálfar aðra. Heiðrún spáir mikið í næringu og heilsu, bæði líkamlegri og andlegri. Hún heldur úti vefsíðunni builtbydottir.com ásamt Mónu Lind.

Heiðrún hefur ekki alltaf haft svona mikinn áhuga á hreyfingu og heilbrigðu mataræði. Eftir að hafa prufað alla megrunarkúra og töfralausnir sem völ er á fann Heiðrún sig í PoleFitness og seinna meir CrossFit.

Í dag tekur Heiðrún upphýfingar án nokkurra vandræða og hleypur hálfmaraþon sér til skemmtunar. Hún segist vilja hjálpa öðrum sem eru í sömu stöðu og hún var. Rétt áður en hún byrjaði í CrossFit var sótt um örorkubætur fyrir hana, en Heiðrún er greind með vefjagigt, liðagigt, þunglyndi og kvíða.

Í viðtali við DV fer Heiðrún yfir sögu sína og litlu sigrana í átt að þeim stað sem hún er í dag.

Heiðrún Finnsdóttir varð ástfangin af CrossFit. Mynd: Hanna/DV

Megrunarkúrar og töfralausnir

Árið 2011 ákvað Heiðrún að breyta lífsstílnum eftir að hafa fengið nóg af því að líða illa, bæði líkamlega og andlega.

„Ég fór á marga kúra, prufaði alls konar duft, lét reyna á allar töfralausnirnar og öll snákaseyðin sem hægt var að kaupa. Ég stökk á þetta allt og hugsaði í hvert skipti: „Nú kemur þetta.“ En þetta kom aldrei. Ég missti kannski fimm kíló og bætti síðan á mig tíu kílóum. Ég var eins og jójó, sem er algeng afleiðing svona megrunarkúra,“ segir Heiðrún.

„Það gerðist aldrei neitt almennilega en ég var alltaf að reyna og gera hver mistökin á eftir öðrum.“

Heiðrún deilir reglulega fyrir-og-eftir myndum af sér á Instagram @HeidrunFinnsdottir.

Prufaði súludans

Heiðrún segir að það hafi verið fjórum árum seinna, árið 2015, að eitthvað hafi raunverulega farið að gerast. Hún var þá byrjuð í PoleFitness hjá Halldóru.

„Halldóra er æðisleg. Hún er stór og mikil kona. Hún er örugglega vel yfir 100 kíló og tekur upphýfingar. Hún er með sín aukakíló og gjörsamlega á salinn,“ segir Heiðrún full af aðdáun.

Mataræðið fylgdi aukinni hreyfingu. „Ég byrjaði að borða mat. Raunverulegan mat. Ég leitaði ekki í skyndibitafæði eða einhverja Herbalife-kúra. Heldur borðaði ég bara mat,“ segir Heiðrún.

„Ég byrjaði að telja kaloríur og passa að ég væri að borða hollt. Ég leyfði mér alveg sætindi en passaði að ég væri að borða meira af hollu en óhollu.“

Mynd: Hanna/DV

Þyngdist aftur

Eftir nokkra mánuði í PoleFitness ákvað Heiðrún að setja súludans á hilluna. Í kjölfarið þyngdist hún aftur og leið ekki vel. Haustið 2016 mætti hún aftur á PoleFitness æfingu og var dolfallin.

„Ég alveg fann mig þarna. Ég æfði í átta mánuði og grenntist heilan helling. Kílóin hrundu af mér í súludansinum. Þetta var ótrúlega gaman,“ segir Heiðrún og bætir við:

„Hvatningin frá Halldóru hjálpaði, konu sem stendur alveg á sama um hvað hún er stór. Ég hreifst bara með. Hún veitti mér mikinn innblástur.“

Þorði ekki að stíga á vigtina

„Ég var þyngst í kringum 105 kíló og líklega eitthvað þyngri en það. Ég þorði aldrei að stíga á vigtina. Ég var dottin niður í 75 kíló og þá hugsaði ég að ég gæti meðvitað tekið meira í taumana,“ segir Heiðrún.

Hún keypti sér kort í World Class en fann sig ekki þar.

„Ég var að ströggla. Ég átti engan veginn heima í World Class. Þarna voru algjörar pæjur. Ég er ekki pæja. Ég er með rifna lófa, pínu litlar neglur og engin skvísa. Ég vil bara koma, svitna og klára mínar æfingar.“

Heiðrún tekur nú upphýfingar án nokkurra vandræða.

Ástfangin af CrossFit

Um haustið 2017 byrjaði Heiðrún að vinna í hvalaskoðun. Hún kynntist skipstjóra sem er mikill CrossFittari og mælti með íþróttinni við Heiðrúnu.

„Ég skráði mig á grunnnámskeið hjá CrossFit Reykjavík. Þetta var algjör snilld. Ég lærði líka margt um næringu. Eins og þumalputtaregluna: Ef það er innihaldslýsing á vörunni er hún líklegast óholl. Það er engin innihaldslýsing á epli. Ég tók þessu sem heilögum sannleika. Í kjölfarið fóru hlutirnir að gerast mjög hratt. Ég fór að verða sterkari og hélt áfram að grennast,“ segir Heiðrún.

 „Á fyrsta árinu mínu í CrossFit fór ég úr því að vera reykingamanneskja og geta ekki hlaupið hring inn í CrossFit salnum yfir í að henda sígrettupakkanum í ruslið og hlaupa hálft maraþon, svona af því bara.“

Í kjölfarið hætti Heiðrún að spá í því hvað hún væri að borða. „Yfirleitt borða ég um 85-90 prósent hreinan mat en inn á milli fæ ég mér það sem ég vil. En ég fór sjálfkrafa að velja hollari kostinn,“ segir Heiðrún.

„Ég gjörsamlega heillaðist upp úr skónum af íþróttinni. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti. CrossFit er ekki bara líkamleg þjálfun heldur einnig andleg. Þú ert að þjálfa hausinn. Þegar ég byrjaði var ég fúl á móti og ógeðslega neikvæð. Ég er enn þá stundum neikvæð og þarf alveg að berjast við hausinn á mér til að vera jákvæð,“ segir Heiðrún.

Mynd: Hanna/DV

Var á slæmum stað

Eftir að hafa æft CrossFit í ár uppgötvaði Heiðrún að þetta væri eitthvað sem hún vildi gera allan daginn.

„Ég fann að mig langaði að hjálpa öðrum að finna sig og sín markmið og komast á þann stað sem ég er á. Því ég var á svo rosalega slæmum stað þegar ég byrjaði, bæði andlega og líkamlega. Mikil persónubreyting á sér stað þegar maður er farinn að setja sér markmið og ná þeim síðan. Þó það sé bara að taka eina upphýfingu. Þegar maður fer að blanda saman sportinu og sálarlífinu þá fylgir það þér út í allt annað,“ segir Heiðrún og heldur áfram:

„CrossFit kenndi mér aga sem ég hafði aldrei áður fundið fyrir.  Ég flosnaði upp úr öllum skólum. Ég hef aldrei klárað neitt sem ég hef byrjað á, ekki fyrr en ég byrjaði í CrossFit. En þessi uppgötvun varð svo ótrúlega mögnuð í hausnum á mér, að fatta að ef ég æfi og legg mig fram þá næ ég árangri. Samfélagið í kringum sportið er svo hvetjandi. Það eru allir velkomnir og halda manni við efnið.“

Mynd: Hanna/DV

Örorkubætur

„Ég er greind með vefjagigt, liðagigt, þunglyndi og kvíða og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var komin á það stig áður en ég byrjaði að æfa að það var sótt um örorkubætur fyrir mig. Það var svo mikið vonleysi. Mér leið svo illa. Það var enginn sem sagði við mig: „Ef þú reynir þá tekst þér þetta. Haltu bara áfram að reyna.“ Ég gafst alltaf upp,“ segir Heiðrún.

Heiðrún vill hjálpa öðrum sem eru í sömu stöðu og hún var í.

„Ég vil hjálpa fólki sem sér ekki fram á að verða betra. Fólki sem líður illa líkamlega og andlega. Þú veist ekki hvað það er ógeðslegt fyrirbæri þegar þú hefur hvorki líkamlega né andlega heilsu. Þá hefurðu ekki neitt. Það er ógeð. En um leið og þú ert komin með smá líkamlega heilsu þá bætast lífsgæðin svo svakalega mikið,“ segir Heiðrún.

„Ég heyri konur kvarta yfir því að geta ekki hoppað með börnunum sínum í trampolíngarðinum eða prílað með þeim á leikvöllum. Feður sem tala um að þeir geti ekki lengur spilað fótbolta með börnum sínum eða hlaupið á eftir þeim ef þau ætla út á götu. Hjartað brotnar þegar ég heyri þetta. Ég fyllist af sorg og samúð. Þetta er ekki eðlilegt, ég veit það. Ég var á sama stað sjálf en þetta þarf ekki að vera svona.

Að vera í líkamlega góðu formi er eitthvað sem við ættum öll að setja í forgang. Það gerir lífið léttara og bætir daglegt líf. Það hafa allir tíma til að hreyfa sig. Hættu að hanga á Facebook, hættu að skrolla í gegnum Instagram eða glápa á sjónvarpið á kvöldin. Finndu tíma og bættu lífsgæðin. Það er þess virði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFókus
Í gær

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr
Fókus
Í gær

„Eiginmaður minn stjórnar lífi mínu – Og fólk hatar það“

„Eiginmaður minn stjórnar lífi mínu – Og fólk hatar það“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vikan á Instagram – „Hégóminn er harður húsbóndi“

Vikan á Instagram – „Hégóminn er harður húsbóndi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hinn furðulegi lagarammi Norður-Kóreu – Ríkishár og eigin körfuboltareglur

Hinn furðulegi lagarammi Norður-Kóreu – Ríkishár og eigin körfuboltareglur