fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Fókus

Ísland í dulargervi: Bláa lónið í Slóvakíu – Blóðbaðið á Reykjanesi – Sjáðu myndböndin

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 9. mars 2019 16:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Upp úr aldamótunum fór það að verða gríðarlega vinsælt að nota Ísland sem tökustað í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hvert tökuliðið á eftir öðru flykktist hingað til að mynda leikara sína í ósnertu náttúrulandslagi klakans og öðru tilheyrandi.

Hins vegar kemur það ekki nema örsjaldan fyrir að Ísland fái að vera landið í sönnu ljósi og þykir gjarnan eftirsótt að koma hingað til að dulbúa klakann sem Rússland, geimplánetur eða fleira framandi. Þetta er auðvitað ekkert nýtt í kvikmyndagerð en fyrir land sem er eins sérstætt og litla Ísland er merkilegt hvernig réttu rætur eyjunnar víkja fyrir öðrum heitum. Svona geta nú galdrar kvikmyndagerðarinnar verið magnaðir.

Þá þýðir ekki annað en að skoða ýmis stórfræg dæmi um það þegar Ísland fékk ekki að vera Ísland.

Bláa lónið í Slóvakíu

Hrollur og viðbjóður er allsráðandi í kvikmyndinni Hostel: Part II. Kvikmyndagerðarmaðurinn Eli Roth er Íslandsvinur mikill og hefur dregið mikinn innblástur frá landinu í ýmsum verkum sínum (hver getur gleymt hinum óborganlega Óla úr fyrstu myndinni? – konungi sveiflunnar). Hann tók Íslandsblæti sitt þó upp á glænýtt stig í framhaldsmyndinni, þar sem heill kafli er tekinn upp í Bláa lóninu… í Slóvakíu. Aðalpersóna myndarinnar fer úr huggulegri stund í ofsóknarbrjálæði á núlleinni. Þá tekur hún upp á því að flýja lónið og kemur þá í ljós að staðurinn er umkringdur náttúru sem er aldeilis ekki lík þeirri sem umlykur svæðið á Íslandi. Áhorfendur víða sjá ekkert athugavert við þetta, en við Íslendingar hlæjum endalaust að þessum hrylling.

Sjón er sögu ríkari, en senuna má finna hér að neðan.

 

Mátturinn með landanum

Að undanskildri nýjustu Star Wars mynd myndabálksins, Solo, hafa allar þrjár nýju kvikmyndirnar átt í íslenskt umhverfi að sækja. Kvikmyndirnar eru The Force Awakens, Rouge One og The Last Jedi. Tökuliðið stóð vaktina meðal annars við eldgíginn Víti í Kröflu og á svörtum Mýrdalssandinum. Fjöllin við Hjörleifshöfða komu jafnframt sérstaklega vel út í skuggalegri upphafssenu myndarinnar Rogue One og blésu þau miklu lífi í plánetuna Lah‘mu.

 

Útlensk Harpa og lestarátak

Hin stórvinsæla sjónvarpsþáttasería Black Mirror gaf út heilan þátt – Crocodile að nafni – sem var allur tekinn upp á Íslandi. Umhverfið leyndi sér ekki og fékk bæði höfuðborgin og landsbyggðin að njóta sín til fulls. Hins vegar hefur ímyndaði hliðstæðuheimur Black Mirror eitthvað rænt Íslandi frá rótum sínum og einkennum, þar sem götuheitin voru öll erlend og vísuðu öll merki á að hér væri um spegilmynd að ræða, en samkvæmt þessum þætti eru lestarbrautir daglegt brauð í umhverfinu. Það kemur aldrei nákvæmlega fram hvar þátturinn eigi að gerast, en við ímyndum okkur að það eigi að vera Skotland.

 

Á hálum ís í Rússlandi

Bílablæti og hamagangur sameinaðist með prýði í Fast & Furious 8. Árið 2016 mætti tökuliðið til þess að skjóta tryllta og umfangsmikla hasarsenu þar sem Mývatn brá sér í gervi Rússlands (Vladovin nánar til tekið). Íbúar á Akranesi fengu einnig mikla flugeldasýningu þegar aðstandendur myndarinnar sprengdu haug af spyrnuköggum í loft upp. Allt gekk vel fyrir sig á meðan tökulið og leikarar voru staddir í hasarnum, að undanskildu því þegar ofsaveður þeytti burt leikmyndum og búnaði, sem leiddi til þess að hestur lést í kjölfarið. Einnig sukku vinnuvélar í Mývatn eftir að ís brast undan þeim, en eins og landsmenn vita lætur náttúran ekki bjóða sér upp á hvað sem er.

 

Töffarinn í Tíbet

Leðurblökumaðurinn hefur svo sannarlega komið víða, meðal annars til Íslands. Þetta sást í kvikmyndinni Justice League, þegar Ben Affleck mætir meðal annars Ingvari Sigurðssyni og spyr þorpsbúa Djúpavíkurbyggðar hvar Sjávarmennið heldur sér. Senan var tekin upp hérlendis en gleyma má því ekki að framleiðsluteymi kvikmyndarinnar Batman Begins var fyrst í mark á sínum tíma árið 2004. Þá var Christian Bale kominn á klakann til að spreyta sig í þjálfun sinni og þrautseigju, en í ljósi þess að sögusviðið var Tíbet var lítið um íslensku eða þekkta stórleikara úr okkar sarpi. Hins vegar má alveg kaupa það að atriðin hafi átt sér stað í Tíbet, þó við landsmenn sjáum vissulega ávallt í gegnum þessi myrkuöfl kvikmyndanna.

 

Kalt, blautt og framandi

Ísland hefur alltaf þótt sérlega eftirsótt þegar risarnir í Hollywood eru í leit að umhverfi fyrir framandi, ómannaðar (eða hvað?…) plánetur. Með framtíðardramanu Interstellar var Svínafellsjökull mikilvægur þáttur í nokkrum spennandi hasarsenum. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hinn virti leikstjóri Christopher Nolan naut góðs af þessu svæði, enda var sami tökustaður notaður fyrir Batman Begins tæpum áratugi áður.

 

Kalt í „Minnesota“

Í fyrstu erlendu kvikmynd Baltasars Kormáks fór leikstjórinn ekki langt út fyrir heimaslóðir. Þetta var í kvikmyndinni A Little Trip to Heaven, sem tekin var upp á Hvalfirði og við Hlemm, svo eitthvað sé nefnt. Saga myndarinnar gerist aftur á móti í Minnesota í Bandaríkjunum og tekst ágætlega til að „fela“ heimaræturnar. Þetta er mun þó ekki vera eina skiptið þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn notast við slík bíóbrögð, þar sem orðrómar eru núna um að næsta kvikmynd hans, Deeper, verði öll tekin upp hérlendis þó sögusviðið sé ansi fjarri klakanum góða.

 

Blóðbaðið á Reykjanesi

Gamla brýnið Clint Eastwood tók aldeilis á sig metnaðarfullt verkefni þegar hann gaf út tvær stórar stríðsmyndir um átök Bandaríkjamanna og Japana á eyjunni Iwo Jima í seinni heimsstyrjöldinni. Myndirnar Flags of our Fathers og Letters from Iwo-Jima sýndu þessi miklu átök Kyrrahafsstríðsins frá sitthvoru sjónarhorninu og var talsverður hluti orrustunnar skotinn í Sandvík og Krýsuvík á Reykjanesi. Íslenskir áhorfendur þurfa þó varla að beita ímyndunaraflinu þar sem vel tekst til að endurskapa blóðbaðið á eyjunni.

 

Hvað eiga Grænland og Afghanistan sameiginlegt?

Sjálfur Ben Stiller heillaðist svo mikið af landinu góða að hann nýtti það til hins ítrasta í gamanmyndinni The Secret Life of Walter Mitty frá 2013. Í þeirri mynd ferðast titilpersónan meðal annars til Íslands og verður vitni að eldgosi auk þess að skoða landsbyggðina á fljúgandi ferð. Kvikmyndagerðin á bakvið Walter Mitty á sér þó ýmis leyndarmál. Atriði sem eiga að ger­ast á Græn­landi og í Af­ghanistan voru einnig tekin upp hér á landi og er því sérstaklega ruglingslegt fyrir Íslendinga að horfa á myndina ef þeir þekkja til þeirra staða sem myndin sýnir. Stiller og félagar tóku upp í Stykkis­hólmi, á Grundarfirði, í Garð­inum, í Hvera­dölum, við Þjórsár­brú og Skóga­foss, á Breiða­merk­ur­sandi, Höfn, Seyðisfirði og í sjálfu Geira­bak­arí í Borgarnesi, sem dulbúið var sem pitsustaðurinn Papa Johns.

 

Manst þú eftir fleiri dæmum? 

Endilega komdu með þau í athugasemdum hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina

Útgáfuteiti á föstudag: Hugmyndir um Ísland og Grænland í gegnum tíðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson

Síðasti Sjens 2025 – Stórtónleikar Retro Stefson
Fókus
Fyrir 4 dögum

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin

Orlando Bloom birtir óræð skilaboð eftir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni

Afhjúpar það sem sonur hans sagði við hann rétt áður en hann gekk fram af klettabrúninni