Arnold Schwarzenegger birtir á Snapchat-aðgangi sínum myndband af sér og Hafþóri Júlíusi Björnssyni. Arnold skrifar við myndina: „Til hamingju Thor, sigurvegari Arnold Strongman Champion!!! Þú ert algjört skrímsli!!“
Hafþór vann mótið í gær en keppnin fór fram í borginni Columbus í Bandaríkjunum. Þetta er í annað skiptið sem Hafþór Júlíus sigrar mótið. Hafþór fékk tæplega níu milljónir króna í verðlaunafé.
Greinilegt er að mikil vinátta hefur myndast á milli Arnolds og Hafþórs, en skemmst er frá því að minnast þegar sá fyrrnefndi bauð í mat á heimili sínu vestan hafs.
„Frábært kvöld með vinum í gær,“ skrifaði Hafþór við mynd á Instagram-síðu sinni af sér sjálfum, Arnold og leikaranum Joe Manganiello.
https://www.instagram.com/p/Bs3SU66AugR/
Fyrrverandi sambýliskona Hafþórs kærði hann fyrir frelsissviptingu árið 2017. Um svipað leyti stigu þrjár konur fram í Fréttablaðinu og lýstu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hendi hans. Meðal annars barnsmóðir Hafþórs. Hafþór hefur ávallt neitað sök í þeim málum.