fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Ferðamaður í eigin landi

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 8. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að einhverju leyti er ég að gerast ferðamaður í eigin landi, pakka nauðsynlegustu fötum og tölvunni ofan í tösku og keyra á bílskrjóðnum eins og leið liggur norður í Aðaldal. Þar rennur Laxá í gegnum birkivaxið hraunið og geymir ótal sögur um geimfara sem hafa veitt þarna ásamt breskum lávörðum, íslenskum bankastjórum, skapstyggum pólitíkusum og heimsfrægum poppurum.“

Þetta segir Sindri Freysson þegar hann er spurður um hvert yrkisefnið sé í nýrri ljóðabók, Skuggaveiði, sem Forlagið gefur út. Sindri er margverðlaunaður og afkastamikill höfundur sem hefur sent frá sér á annan tug bóka á yfir tuttugu ára rithöfundarferli. Í Skuggaveiði tekur Sindri lesandann í ferðalag í Aðaldal þar sem föðurfjölskylda hans á jörð. Ljóðin eru myndræn og lesandinn upplifir staðinn, hlustar á fuglasöng og heyrir vatnsniðinn og stundum finnur hann ilminn af gróðrinum.

Sindri heldur áfram að útskýra fyrir blaðamanni hvernig ljóðin í bókinni urðu að veruleika:

„Það er til dæmis til mögnuð kvikmyndaupptaka af Bing Crosby standa með veiðistöng í Laxá í Aðaldal og syngja lag henni til heiðurs og manni finnst að strax á eftir muni hann taka White Christmas og taka nokkur dansspor í vöðlunum. En fyrst og fremst eru það auðvitað bændurnir í kring sem hafa þraukað þarna öldum saman, oft við þröngan kost, harðindi og barnamissi, en þó notið þess að hafa þessa matarkistu sér við hlið fulla af silungi og laxi. Í Skuggaveiði er ég kominn á árbakkann, stundum með veiðistöng, stundum ekki, og er að horfa í kringum mig og kasta flugunni jöfnum höndum inn í fortíð og nútíð og framtíð,“ segir Sindri.

Mynd úr ljóðabókinni Skuggaveiði.

Þetta svæði sem þú ert að yrkja um, hvað getur þú sagt mér um það?

„Föðurfjölskylda mín á jörð þarna sem heitir Hagi, ekkert stórbýli en falleg jörð og fjölbreytt í landslagi. Jörðin er nefnd í Ljósvetningasögu og þess getið að þar byggi bóndi að nafni Forni, það er á síðari hluta 10. aldar. Hagi er því fornt býli. Jörðin virðist hafa verið í einkaeign alla tíð og á einhvern furðulegan hátt gleður það mann að biskupsstólar, klaustur eða konungar virðast aldrei hafa átt þessa jörð. Það kallar fram þá tilfinningu að hún sé ómenguð af fingraförum yfirvalds og auðmagns ef svo má segja.

Langafi Sindra, Jakob, eignaðist Haga árið 1903. Segir Sindri að hann hafi stundum verið kallaður fyrsti jafnaðarmaður Íslands. Hann átti tíu börn með tveimur konum, systrum, fjóra drengi og eina stelpu með hvorri.

„Þau deildu öll þrjú sama svefnherbergi og börnin ólust upp saman án þess að velta því fyrir sér hvort þau væru fædd innan hjónabandsins eða utan þess. Ég hef séð eina ljósmynd af Jakobi með konunum sínum og hann er svolítið skömmustulegur á svipinn en samt frekar kátur. Þegar föðurafi minn varð ástfanginn af ömmu minni tveimur áratugum síðar, keypti hann fjórðung jarðarinnar af tengdaföður sínum, þar sem þau bjuggu síðan alla tíð. Það var 22 ára aldursmunur á afa og ömmu og hún var nítján ára þegar þau gifta sig og hann kominn yfir fertugt,“ segir Sindri.

„Hann var farkennari og hafði kennt henni eins og öðrum krökkum á bæjum í sveitinni, auk þess sem þau voru skyld í báðar ættir. Ætli þetta myndi ekki rata á síður DV í dag og yrði einhverju smáborgaralega þenkjandi fólki að hneykslunarefni. En afi og amma áttu saman fínasta líf og eignuðust átta börn sem öll komust á legg og stóðu sig vel í lífinu. Yngstur í krakkahópnum er pabbi, fæddur í seinni heimsstyrjöld. Þegar afi dó tók föðurbróðir minn við jörðinni, þá aðeins 16 ára gamall. Hin systkinin voru öll flutt í þéttbýlið og það dæmdist eiginlega á hann að taka við og reka búskapinn ásamt móður sinni. Upp úr seinustu aldamótum dreifðist eignarhaldið síðan innan fjölskyldunnar og þá hóf ég að fara þangað meira en ég hafði gert, þó að auðvitað kæmi maður þarna hvert einasta sumar sem krakki, og uppgötvaði hvað er ljúft að skrifa þarna,“ segir Sindri.

„Ég vil nú ekki meina að skyldleiki afa og ömmu hafi verið til annars en kynbóta fyrir afkomendurna. Í ættinni eru mjög margir bókhneigðir og í henni er líka heilmikil listsköpun, ekki síst myndlist. Á mörgum má sjá það sem sumir kalla „Haga-glottið“, og setur sterkan svip á margt prýðisfólk úr þeirri ætt. Genetískt bros sem við getum ekkert að gert og birtist kannski ekki alltaf á réttum tíma, en er óvart svolítið stíðnislegt og mér skilst að það hafi komið ýmsum viðkvæmum sálum úr jafnvægi í gegnum tíðina. Um það segi ég bara; þrátt fyrir allar flækjurnar og harmleikina er jarðnesk tilvist okkar alltof skopleg til að brosa ekki í kampinn þegar tækifæri gefst,“ segir Sindri.

Ljóðin eru ákaflega myndræn, var það meðvitað að reyna kalla fram sterkar og ljóslifandi myndir í huga lesenda?

„Ég hugsa oft í myndum og það tengist kannski þessum myndlistargenum sem eru í fjölskyldunni. Síðan mótar maður þessa mynd eftir megni, heflar hana og slípar og reynir að búa til eins kristaltæra útgáfu og hægt er. Föðurbróðir minn, Hringur Jóhannesson málari, sagði einhvern tímann frá því hvernig hugmyndir og verk gátu þróast hjá honum á striganum,“ segir Sindri og bætir við: „Þannig málaði hann til dæmis fyrst sérkennilegan ljósgeisla sem féll á flekkóttan kött, en síðan breyttist kötturinn í fatahrúgu og loks í heysátu og þá fyrst var myndin fullgerð. Það má segja að sum ljóð kvikni með svipuðum hætti, maður fær setningu í kollinn um eitthvað, kannski stað, hlut eða stemmningu, en sú setning breytist síðan og vex og bætir við sig öðrum texta og birtist að lokum í allt öðru samhengi en maður reiknaði með í upphafi. Hugmyndirnar taka völdin af höfundi þeirra, alveg eins og lífið tekur völdin af fólki.“

Sindri bætir við að hann hafi langað að fanga og miðla fegurð og nautn, kærleika og gleði sem fylgir því að dvelja á þessum slóðum. Að lesendur skynji upplifun höfundar af staðnum og upplifi eins og þeir séu á staðnum.

„ …og væru þar í núinu með mér, liggjandi á bakkanum, hlustandi á fuglinn syngja, heyra vatnskliðinn og finna ilminn af gróðrinum, og í leiðinni trúi ég þeim kannski fyrir smá leyndarmáli eða hvísla einhverju skemmtilegu að þeim,“ segir Sindri. „Í ljóðabókinni Í klóm dalalæðunnar sem út kom fyrir nokkrum árum var þetta svæði miðlægt ásamt sögu fjölskyldunnar, en núna má segja að bókin sé persónulegri að því leyti að mínar eigin tilfinningar, ástin auðvitað, vefjast saman við. Þetta blandast allt vel saman, náttúra landsins og náttúra mannsins hafa ótal marga snertifleti, er allt hluti af sömu heild,“ segir Sindri. „Um leið og maður lýsir væntumþykju sinni til náttúrunnar er maður að leggja áherslu á mikilvægi náttúrunnar og mikilvægi þess að vernda hana fyrir átroðslu og skemmdum. Skuggaveiði er þannig bók um ást og fegurð, lofgjörð til náttúru og staðar, bók sem veitir vonandi vellíðan hjá lesendum. Það er galdur að vera til, stöðug áskorun að finna nýja sjónvinkla á lífið og tilveruna og maður verður að hafa gaman af ferðalaginu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Alda vann til verðlauna annað árið í röð

Alda vann til verðlauna annað árið í röð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“