fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Við þurfum fleiri menn eins og Magnús

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 17. desember 2023 12:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt veit ég skemmtilegra en að lesa um fólk sem afrekað hefur margt á lífsleiðinni og verið öðrum fyrirmynd í störfum sínum og framgöngu allri. Nú fyrir skemmstu kom út bók af þessum toga, Með skýra sýn, saga Magnúsar Gústafssonar, sem varð hálfgerð goðsögn í sínum geira, en Guðmundur Magnússon blaðamaður færði bókina í letur. Magnús stýrði Hampiðjunni um ellefu ára skeið á áttunda og níunda áratugnum og umbreytti henni úr framleiðslufyrirtæki eingöngu í fjölþætt þekkingarfyrirtæki þar sem áhersla var lögð á rannsóknir, vöruþróun og fræðslu. Kunnastur er Magnús þó fyrir störf sín í rúma tvo áratugi fyrir Coldwater, dótturfélag Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Bandaríkjunum, sem seinna fékk nafn vörumerkisins Icelandic.

 

Vandvirkni er lykilatriði

Magnús hafði starfað hjá Coldwater um tveggja ára skeið þegar hann réð Bandaríkjamanninn John „Bud“ Jones til að hafa yfirumsjón með markaðsmálum fyrirtækisins, allri sölu þess, þjónustu við viðskiptavini og stefnumörkun. Bud minnist þess í samtali við bókarhöfund að hann hafi ekki gert skriflegan ráðningarsamning en allt hafi þó staðist eins og lofað var, orð Magnúsar hafi verið „gulls ígildi“. Pétur Másson, sem Magnús réð sem markaðsstjóra, hefur sömu sögu að segja og nefnir að auki sérstaka áherslu Magnúsar á vandvirkni: „Hér gerum við hlutina vel eða gerum þá ekki,“ mælti Magnús við Pétur.

Í bókinni er vísað til ræðu sem Magnús hélt á Sjávarútvegsráðstefnunni 2018 þar sem hann sagði að uppfylla þyrfti nokkur meginskilyrði til að geta selt vöru vel á góðu verði: Þjónustan yrði að vera áreiðanleg og það sama ætti við um gæði og verð vörunnar — áreiðanleiki væri lykilatriði en hann næðist ekki nema með nánu samstarfi við viðskiptavininn og menn yrðu að skilja þarfir hans. Í þessari sömu ræðu vitnaði Magnús til nýlegrar rannsóknar bandarískra fræðimanna á árangri 25 þúsund fyrirtækja á verðbréfamarkaði vestanhafs á árunum 1966–2010. Hún leiddi í ljós að hjá þeim fyrirtækjum sem náðu bestum árangri höfðu stjórnendur sett gæði framleiðslunnar ofar verði og þá væri athygli fremur beint að tækjum en kostnaði.

 

Lengi býr að fyrstu gerð

Áhugavert er að velta fyrir sér bakgrunni manna, líkt og Magnúsar, sem ná langt í vandasömu starfi — í þessu tilfelli á einhverjum erfiðasta samkeppnismarkaði heims. Frá sex mánaða aldri var Magnús í fóstri hjá Guðrúnu Halldórsdóttur og Sigfúsi Valtý Magnússyni, sem bjuggu í Hlíðardal við Kringlumýrarblett, en seinna var húsið skráð við Skipholt. Í Hlíðardal bjuggu fleiri fjölskyldur og mikill samgangur milli heimilanna. Þarna var merkilegt menningarheimili og mikill gestagangur. Bóklestur í hávegum hafður og efni bóka rætt.

Magnús segir frá því að hann hafi einhverju sinni á æskuárum lent í útistöðum við annan pilt og haft um hann þung orð svo Guðrún heyrði. Hún hefði þá tekið svo til orða: „Ekki verða reiður, Maggi minn, og aldrei öfundsjúkur út í aðra. Reiði hjálpar engum. Hún bitnar bara á sjálfum þér. Þér líður þá illa.“ Pétur Pétursson útvarpsþulur ritaði afmælisgrein um Guðrúnu er hún varð sjötug árið 1972. Hann sagði að í Hlíðardal hafi þeim verið fagnað sem hvorki komust á kjörskrá né í framboð og þangað hafi komið „menn og konur úr mörgu Meðallandinu og lágu hér þungar og stórar banalegur án þess að eftir væri talið.“ Og hann bætti því við að það væru „svona heimili sem verða hin nýja örk þegar syndaflóð eiginhagsmunanna og gróðahyggjunnar skolar afganginum út á veraldarhafið“.

Engin vafi er á að uppeldið í Hlíðardal hefur haft mótandi áhrif á Magnús og velgengni sína á hann líka að þakka haldgóðri menntun. Hann lauk sveinsprófi í vélvirkjun árið 1961 og prófi frá Vélskólanum árið eftir. Vorið 1963 brautskráðist hann frá rafmagnsdeild sama skóla. Vélskólinn hefur af lýsingum að dæma verið um margt til fyrirmyndar í kennsluháttum, auk þess sem mikil áhersla var lögð á tengingu við atvinnulífið; verksmiðjur og virkjanir heimsóknar. Magnús getur þess í bókinni að Gunnar Bjarnason, þáverandi skólastjóri Vélskólans, hafi haft þá afstöðu að Íslendingar skyldu starfrækja skóla fyrir allar þær greinar sem þeir væru góðir í. Það var í þessum anda sem Fiskvinnsluskólanum var komið á laggirnar 1971 og fimm árum síðar hófst kennsla í útgerðartækni við Tækniskóla Íslands.

Magnús hélt utan til náms í tæknifræði við Tækniskólann í Óðinsvéum, Odense Teknikum, en skilyrði námsdvalar þar var sveinspróf í ákveðnum iðngreinum eða að lágmarki fjögurra ára starfsreynsla í viðkomandi grein. Þegar bekkur hans brautskráðist haustið 1966 voru allir skólabræður hans komnir með vinnu, enda tæknifræðingar mjög eftirsóttir starfsmenn.

Magnús nálgaðist viðfangsefnin í sínum störfum verklega, hvort sem það var fyrir Hampiðjuna eða Coldwater. Hann kynnti sér vélakost og framleiðsluferli í þaula, enda hætta á að stjórnandi lendi í ógöngum skilji hann ekki gangverkið í framleiðslunni, „hvernig hjólin snúast og hvað fólkið á gólfinu fæst við“ eins og það er orðað í bókinni.

Viðmælendur skrásetjara sögunnar segja alþýðleika einkenna Magnús — hann hafi aldrei talið sig hafinn yfir starfsfólk sitt eða viðskiptavini og umgengist alla á jafningjagrundvelli.

 

Munar um hvern mann

Stundum er sagt — og með réttu — að í agnarsmáu samfélagi sem því íslenska muni um hvern mann. Þessi orð eiga enn betur við eftir því sem sérhæfingin verður meiri — líkt og til dæmis við rekstur á umfangsmiklum fyrirtækjum í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum í flóknum heimi alþjóðaviðskipta. Það var mikilsvert fyrir íslenska hagsmuni að Magnús skyldi að loknum störfum fyrir Icelandic, gerast aðalræðismaður Íslands í New York — enda leitun að Íslendingi með jafnmiklar tengingar í bandarísku viðskiptalífi. Okkar litla þjóðfélag þarf fleiri menn eins og Magnús Gústafsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
28.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði