fbpx
Þriðjudagur 21.júní 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Eyjan
Sunnudaginn 12. júní 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

bjornjon@dv.is

Varasamt getur verið að draga víðtækar ályktanir af kosningaúrslitum. Samt verður mörgum tíðrætt um „vilja kjósenda“ rétt eins og þar sé einn maður á ferð. Um fylgistap Sjálfstæðisflokksins í nýliðnum borgar- og bæjarstjórnarkosningum hefur mikið verið skrafað og sömuleiðis um fylgisaukningu Framsóknarflokks sem er söguleg. En ályktanir sem dregnar eru af breytingum á fylgi ráðast af því við hvað er miðað. Fáeinum dögum fyrir borgarstjórnarkosningar birti Fréttablaðið könnun sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn þriðja stærsta flokkinn og með aðeins 16 prósenta fylgi í borginni. Niðurstaðan var 24,5 prósent og flokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti flokkurinn. Fyrir fjórum árum hlaut flokkurinn 30,8 prósent atkvæða í kjöri til borgarstjórnar. Vitaskuld eru úrslitin nú ósigur á þann mælikvarða en varnarsigur ef horft er til umræddrar könnunar (og fleiri kannana sem hnigu í sömu átt).

Hvað sem því líður eru ófarir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verðugt rannsóknarefni. Það er opinbert flokksleyndarmál að borgarstjórnarflokkurinn hefur verið tvístraður undanfarin hálfan annan áratug og engum leiðtoga tekist að ná órofa samstöðu um lengri tíma. Og klofinn gengur borgarstjórnarflokkurinn nú inn í fimmta kjörtímabilið í röð.

„Fjórflokkur“ er fyrir bí

Já, rétt er að fara varlega í víðtækar ályktanir en hér má nefna að með borgarstjórnarkosningunum staðfestist enn og aftur að tími „fjórflokks“ er liðinn en þegar það hugtak varð til náði það yfir Alþýðubandalag (áður Sósíalistaflokk), Alþýðuflokk, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Hér þarf aftur að slá varnagla því lengst af átti fimmti flokkurinn sæti á þingi. Þeir helstu frá því á fjórða áratugnum og fram yfir aldamót voru Bændaflokkurinn, Þjóðvarnarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn. „Fimmtu“ flokkarnir og flokksbrotin voru eins ólík og þau voru mörg en engu þeirra langra lífdaga auðið.

Samfylkingin og Vinstri grænir eiga beinar rætur í gömlu vinstriflokkunum og ásamt með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki stundum kallaðir „fjórflokkur“. Flokkaskipanin hefur þó riðlast það mjög undanfarið og hreyfing á fylgi orðin svo ör að óvarlegt er að tala lengur um einhvern kjarna flokkakerfisins. Gerbreytt og margbrotin mynd blasir við okkur þegar litið er á hlutfallslegt fylgi flokkanna á landsvísu. En það má líta á fleiri mælikvarða, til dæmis fjölda sveitarstjórnarmanna. Sjálfstæðisflokkur hlaut alls 110 kjörna í nýliðnum kosningum, Framsóknarflokkur 67, Samfylkingin 26, Vinstri grænir 9. Miðflokkur og Viðreisn eru með fimm menn hvor, Píratar fjóra og Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur tvo menn. Sé litið á þessar tölur má segja að „gömlu“ flokkarnir hafi vinninginn en rétt er að hafa í huga að afar mismargir kjósendur eru að baki hverjum kjörnum fulltrúa. Mikill fjöldi sveitarstjórnarmanna þriggja stærstu flokkanna er þó alltént vísbending um nokkuð sterkar rætur á landsvísu þrátt fyrir allt. En hér þarf enn og aftur að slá varnagla því sumir flokkanna eru þátttakendur í listum sem bornir eru fram undir öðrum merkjum en þeirra eigin og því segja þessar tölur ekki alla söguna. L-listi hlaut til að mynda flesta menn kjörna til bæjarstjórnar á Akureyri en Viðreisn fer fyrir þeim lista og á Ísafirði og í Reykjanesbæ náðu fulltrúar Viðreisnar kjöri af listum undir öðrum merkjum svo dæmi sé tekið.

Framsóknarfroða?

Mikið hefur verið rætt um tap sjálfstæðismanna en Samfylkingin tapaði líka fylgi á landsvísu og umtalsverðu í Reykjavík. Hlaut þar aðeins 20,3 prósent atkvæða samanborið við 25,9 prósent fyrir fjórum árum. Fyrir átta árum var flokkurinn með 31,9 prósent. Meirihlutinn í borgarstjórn féll nú í þriðja sinn en áfram er Samfylkingin við völd.

Fylgið heldur líka áfram að molna undan Vinstri grænum í höfuðborginni. Fyrir átta árum fengu þeir 8,3 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningum, fylgið var komið niður í 4,6 prósent fjórum árum síðar, var aðeins 4 prósent nú og væri flokkurinn þurrkaður út ef ekki væri fyrir mikla fjölgun borgarfulltrúa. Flokkur forsætisráðherrans á nánast í tilvistarkreppu en athyglisvert er að persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur annars vegar og Dags B. Eggertssonar hins vegar er umtalsvert meira en flokka þeirra. Verðugt rannsóknarefni það.

Hinir rótgrónu flokkar tapa því allir fylgi ef undan er skilinn Framsóknarflokkurinn sem hlaut sína bestu útkomu fyrr og síðar í Reykjavík undir forystu Einars Þorsteinssonar (og varla var að sjá að fleiri en hann væru í framboði fyrir Framsókn), fékk alls 18,7 prósenta fylgi og munu hljóta borgarstjóraembættið í fyrsta sinn eftir hálft annað ár. Næstbestu útkomuna fengu framsóknarmenn 1966 eða 17,2 prósent undir forystu annars Einars, Einars Ágústssonar (bankastjóra Samvinnubankans, síðar utanríkisráðherra og sendiherra) en með honum var kjörinn Kristján Benediktsson. Kristján var gagnfræðaskólakennari og sat í borgarstjórn samfellt árin 1962–1986. Enn hagfelldari var útkoman fyrir framsóknarmenn 1970 og Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur var kjörinn, auk þeirra Einars og Kristjáns (þrátt fyrir að hlutfallstalan væri örlítið lægri en fjórum árum fyrr). Í kosningum 1974 hlutu framsóknarmenn 16,4 prósent atkvæða en síðan tók að halla undan fæti.

En nóg um sögulega upprifjun. Ýmsir hafa reynt að skýra velgengni Framsóknarflokksins undanfarið — flokksins sem virtist heillum horfinn fyrir fáeinum árum. Hver er eiginlega stefna Framsóknarflokksins í Reykjavík til að mynda? Ekki verður séð að hún birtist með neinum áþreifanlegum hætti í stefnumörkun nýs meirihluta í Reykjavík. Oddvita framsóknarmanna er vitaskuld mjög í mun að halda hinu gagnstæða fram en borgarfulltrúar hinna flokkanna úr meirihlutanum fóru pent í að koma því á framfæri við blaða- og fréttamenn að þetta væri nú bara beint framhald á því sem þeir hefðu verið að fást við á síðasta kjörtímabili. Gættu þess þó að taka ekki of sterkt til orða til að styggja ekki framsóknarmennina.

En hvernig er eiginlega hægt að skýra fylgisaukningu Framsóknarflokksins? Ekki skorti á auglýsingaskrum og mjúka, vel „filteraða“ ásýnd, en það gildir kannski um flesta flokkana. Stefnumálin fóru fyrir ofan garð og neðan, ja, eða hver voru þau eiginlega? Og kannski var stefnufestan ekki meiri hjá öðrum flokkum. Allt um það virðist Framsókn hafa virkað vel sem „annar valkostur“ fyrir hina óánægðu til hægri og vinstri. Hér eru alla vega engin fjöldasamtök borgarbúa á ferðinni, svo mikið er víst. Fréttamyndirnar af oddvitanum á fundi með „grasrótinni“ segja sýna sögu. Var meira en tylft manna mætt í fundarherbergi Framsóknarflokks á Hverfisgötu?

Flest bendir nefnilega til þess að fylgisaukning Framsóknar sé fjarska tímabundinn — við gætum kallað þetta froðu — ekki verður séð að þarna sé mikið raunverulegt innihald, stefnufesta eða hreyfing borgarbúa sem býr að baki.

Gamla flokkakerfið kvatt

Hinir gamalgrónu flokkar standa nefnilega allir höllum fæti. Lausafylgið eykst ár frá ári og enn minnkar traustið til hinnar sístækkandi stjórnmálastéttar sem útdeilir bitlingum til hægri og vinstri. Og fátt bendir til þess að nýju flokkarnir séu neitt skárri. „Fimmti“ flokkurinn sem venjulega fylgdi með hér á árum áður varð oftast til í kringum eina vinsæla persónu en slíkt dugði aðeins til skamms tíma — Miðflokkurinn er þessu marki brenndur og virðist vera að fjara út. Píratar og Viðreisn hafa á hinn bóginn orðið til utan um einhverjar hugmyndir og því líklegri til að eiga lengri lífdaga fyrir höndum. Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn eru þarna mitt á milli.

Jónas heitinn Kristjánsson, ritstjóri DV, skrifaði um það í forystugrein á tíunda áratugnum þegar Jóhanna Sigurðardóttir klauf Alþýðuflokkinn að hún væri þrátt fyrir miklar persónuvinsældir tæplega því hlutverki vaxin að sópa burtu úreltu flokkakerfi. En það væri hægt og yrði einhvern tímann gert, svo mikið væri lausafylgið orðið í landinu.

Spá Jónasar hefur heldur betur ræst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.05.2022
Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
07.05.2022

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu
EyjanFastir pennar
05.05.2022

Leyndardómar Borgarlínunnar sem „gleymdist“ að skoða

Leyndardómar Borgarlínunnar sem „gleymdist“ að skoða
EyjanFastir pennar
25.04.2022

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022
Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
17.04.2022

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu
EyjanFastir pennar
15.04.2022

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni
EyjanFastir pennar
22.03.2022

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík
EyjanFastir pennar
20.03.2022

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga
EyjanFastir pennar
27.02.2022

Björn Jón skrifar: Vinstri grænir gegn grundvallaröryggishagsmunum Vesturlanda

Björn Jón skrifar: Vinstri grænir gegn grundvallaröryggishagsmunum Vesturlanda
EyjanFastir pennar
26.02.2022

Pútín og Úkraína – Aumingjaskapur Vesturlanda – Hvaða land er næst?

Pútín og Úkraína – Aumingjaskapur Vesturlanda – Hvaða land er næst?