fbpx
Föstudagur 24.september 2021
EyjanFastir pennar

Flokkur sumra stétta

Eyjan
Mánudaginn 24. maí 2021 17:45

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir jólin í fyrra komu út endurminningar Ellerts B. Schram, fyrrv. alþingismanns, sem við skráðum saman. Þar fjölluðum við meðal annars um upphaf þess að efnt var til prófkjara við val á listum hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík en fram til þess tíma hafði röðun á lista verið í höndum uppstillingarnefnda og þeir listar síðan lagðir fyrir fulltrúaráð flokksins í borginni. Gefum Ellert orðið:

„Fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins 1970 voru tveir ungir menn fengnir til að sitja með Magnúsi Jónssyni frá Mel og semja drög að landsfundarályktun. Þetta vorum við Friðrik Sophusson, en við vorum nánir samstarfsmenn í armi hófsamra og frjálslyndra ungra sjálfstæðismanna. Hófsemin var þó ekki meiri en svo að við Friðrik lögðum fram, auk annarra breytinga, tillögu um að flokkurinn efndi til prófkosninga áður en raðað yrði á lista til alþingiskosninga.“

Lýðræðisbylting

Ellert segir þá hafa höfðað til frelsis allra flokksmanna til að taka ákvörðun um val á lista flokksins og í reynd hefði þetta verið lýðræðisbylting. Ungt fólk var í uppreisnarhug á þeim tíma og Friðrik Sophusson sagði löngu síðar að unga fólkið hefði haft mjög sterka löngun til að breyta heiminum, breyta flokknum, breyta skipulaginu og ráðast á „flokkseigendafélagið“.

Sjálfur gaf Ellert kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna til alþingiskosninganna 1971 — ásamt 33 öðrum. Þar greiddu alls 9.271 atkvæði sem er gríðarmikill fjöldi í ljósi þess að 44.935 kusu í alþingiskosningunum í Reykjavík árið 1971. Ellert hafnaði í sjöunda sæti sem nægði honum inn á þing sem níundi landskjörni alþingismaðurinn vorið 1971.

Prófkjörin voru komin til að vera og fleiri flokkar tóku þátt í þessarri lýðræðisbyltingu. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík efndi til prófkjara fyrir alþingis- og borgarstjórnarkosningar 1978 og alls kusu nærri ellefu þúsund manns í síðarnefnda prófkjörinu. Miðað við fjölgun borgarbúa myndi það samsvara því ef um 15.500 manns kysu í prófkjöri nú. Til samanburðar má nefna þá greiddu aðeins 3.885 manns atkvæði í prófkjöri reykvískra sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 og 3.430 í prófkjörinu fyrir alþingiskosningarnar 2016. Að sama skapi eru frambjóðendur í prófkjörum miklu færri nú en áður var.

Óhætt er að fullyrða að úrslit prófkjörsins fyrir alþingiskosningarnar 1978 hefðu orðið allt önnur ef notast hefði verið við uppstillingarnefnd. Geir Hallgrímsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, hafnaði í öðru sæti á eftir Albert Guðmundssyni. Ragnhildur Helgadóttir var í þriðja sæti og ungu mennirnir Ellert B. Schram og Friðrik Sophusson í því fjórða og fimmta. Flokksmenn höfðu fengið í hendur tæki þar sem þeir gátu meðal annars lýst óánægju með forystumennina og veitt nýju fólki brautargengi.

Breidd á framboðslistum

En ókostir prófkjara komu líka brátt í ljós. Að loknum kosningum 1978 myndaði Ólafur Jóhannesson skammlífa vinstristjórn sem leystist upp á rúmu ári og aftur var efnt til kosninga í byrjun desember 1979 — og reykvískir sjálfstæðismenn gengu á nýjan leik til prófkosninga. Þar höfnuðu verkalýðsforingjarnir Pétur Sigurðsson sjómaður og Guðmundur H. Garðarsson, formaður VR, í áttunda og níunda sæti og allir sem voru fyrir ofan þá á listanum höfðu lögfræðipróf nema Albert Guðmundsson stórkaupmaður. Svona einsleit niðurröðun á lista fór illa saman við slagorð flokksins „stétt með stétt“ og gat engan veginn talist sigurstranglegt.

Fyrr á árum hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá sérstöðu að hann gat í krafti yfirburðarfylgis í Reykjavík stillt upp listum til alþingis- og borgarstjórnarkosninga af mikilli breidd ef svo má segja. Þess var þannig gætt að á lista veldist forystufólk úr ólíkum atvinnugreinum og á tímum þegar sárafáar konur voru kjörnar á þing og í borgarstjórn hafði Sjálfstæðisflokkurinn þá sérstöðu að þar náðu fleiri konur kjöri en hjá hinum flokkunum. Áður var minnst á alþingiskosningarnar 1971. Þá hlutu þrjár konur kosningu, þar af tvær af lista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Önnur þeirra, Auður Auðuns, hafði fyrst kvenna orðið ráðherra hér á landi og sömuleiðis fyrsta konan til að gegna embætti borgarstjóra.

En prófkjörin hafa stundum leitt til þess að listar verði mjög einsleitir eins og mörg dæmi eru um. Í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2016 skipuðu þeir fjögur efstu sætin Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Bjarnason. Svo fór að Vilhjálmur var færður úr fjórða sætinu í það fimmta svo jafna mætti kynjahlutföllin í efstu sætum. Í nýlegri grein í Morgunblaðinu fór hann svofelldum orðum um þessa hliðrun:

„Og ég hélt friðinn! Án þess að fá auka­tekið takk fyr­ir! Þeir, sem á und­an mér voru, töldu þessa til­færslu tæra snilld, enda var hún ekki á þeirra kostnað.“

Fimmta sætið dugði ekki í kosningunum 2017 og Vilhjálmur féll út af þingi. Hann gefur nú aftur kost á sér á lista flokksins í kjördæminu og kveðst stefna eins hátt og kostur er því því það „virðist regla frem­ur en und­an­tekn­ing að skáka mér til á listanum“ eins og hann orðar það.

Því fylgja eðlilega særindi að hnika til efstu sætum á listum sem valdir hafa verið með prófkjörsaðferð — enda verið að breyta leikreglum eftir á. En að sama skapi er afleitt fyrir flokka að ganga til kosninga með lista þar sem kynjahlutföll eru ekki sem jöfnust í efstu sætum. Áherslan á okkar tímum er þó nær eingöngu á kynjahlutföll — önnur sjónarmið um breidd á listum komast lítið að.

Hvar eru fulltrúar launafólks?

Ég minntist að framan á einsleita röðun á lista reykvískra sjálfstæðismanna fyrir alþingiskosningarnar 1979 þegar verkalýðsforingjarnir urðu að hörfa fyrir her lögfræðinga. Á þeim tíma voru starfandi öflug félög launafólks innan Sjálfstæðisflokksins og félag þeirra í Reykjavík, Óðinn, barðist hart fyrir því að Pétur Sigurðsson sjómaður yrði færður ofar á lista. Svo fór að Ellert B. Schram féllst á að hafa sætaskipti við Pétur en í æviminningum sínum segir Pétur að Ellert hafi verið sér sammála um „að halda ætti Sjálfstæðisflokknum sem stærstum með víðsýnni umbótastefnu, en ekki fæla frá kjósendur með kreddulegri einsýni“.

Þessi sjónarmið mega sín harla lítils nú um stundir. Ég starfaði í Sjálfstæðisflokknum til skamms tíma og mætti seinast á flokksráðsfund í Valhöll þegar Bjarni Benediktsson kynnti málefnasamning vinstristjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Sú lesning var æði löng og á meðan horfði ég yfir salinn og taldi nokkra tugi forystumanna atvinnurekenda — en ekki einn úr hópi launafólks. Sjálfstæðisflokkurinn getur tæplega státað af því lengur að vera „flokkur allra stétta“ og sé litið yfir frambjóðendur í komandi prófkjörum er engin ástæða til að ætla að þar verði nokkur breyting á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFókus
27.06.2021

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn
EyjanFastir pennar
27.06.2021

Kjósendur hafa varla skýra valkosti

Kjósendur hafa varla skýra valkosti
EyjanFastir pennar
13.06.2021

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“
433Fastir pennarSport
09.06.2021

Ólgusjór og vond spil á hendi – Arnar Þór kemur út sem sigurvegari

Ólgusjór og vond spil á hendi – Arnar Þór kemur út sem sigurvegari
433Fastir pennarSport
21.05.2021

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti
EyjanFastir pennar
09.05.2021
Dómari tekur til máls
433Fastir pennarSport
04.05.2021

Ég nenni ekki að heyra þessa afsökun aftur í sumar

Ég nenni ekki að heyra þessa afsökun aftur í sumar
EyjanFastir pennar
02.05.2021

Vondir embættismenn

Vondir embættismenn
EyjanFastir pennar
25.04.2021

Handritin og Beethoven í Færeyjum

Handritin og Beethoven í Færeyjum
EyjanFastir pennar
11.04.2021

Ríkiseinkasalan og litli atvinnurekandinn

Ríkiseinkasalan og litli atvinnurekandinn
EyjanFastir pennar
09.04.2021

Farsóttarfangelsið

Farsóttarfangelsið