fbpx
Fimmtudagur 25.september 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Vandræðagangur hjá Sjálfstæðismönnum í borginni – er Katrín svarið?

Eyjan
Fimmtudaginn 25. september 2025 14:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að vandræðagangur Sjálfstæðismanna í Reykjavík sé orðinn allt umlykjandi. Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins í borgarstjórn, hefur lýst því yfir að hún vilji leiða flokkinn áfram og verða þannig fyrsti oddvitinn í áratugi til að leiða flokkinn tvennar kosningar í röð.

Reynsla Sjálfstæðismanna af forystu Hildar í borginni er hins vegar ekki góð, en hún tók við af Eyþóri Arnalds fyrir síðustu kosningar. Eyþór náði 31 prósenti í kosningunum 2018 en Hildur missti fylgið niður í 25 prósent og tapaði tveimur borgarfulltrúum í kosningunum 2022. Orðið á götunni er að Sjálfstæðismenn viti hvað þeir hafa í Hildi og hræðist framhaldið undir hennar forystu.

Þá er það ekkert leyndarmál að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna er þríklofinn og einungis einn borgarfulltrúi skipar sér í sveit með Hildi. Þessi hópur Sjálfstæðismanna, sem geta ekki einu sinni unnið saman innbyrðis, þykir vitaskuld með öllu óstjórntækur í borginni.

Eftir langa eyðimerkurgöngu í borginni í raun frá því að R-listinn felldi Sjálfstæðisflokkinn 1994 horfa Sjálfstæðismenn með söknuði til liðinna tíma þegar Reykjavík var sterkasta vígi flokksins. Fyrir hverjar kosningar láta þeir sig dreyma um að komast í meirihluta og verða svo einatt fyrir vonbrigðum

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, blandaði sér í umræðuna um oddvitamál Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á dögunum í hlaðvarpinu Sjókastið. Guðrún, sem er Hvergerðingur, sagði alla Íslendinga mega hafa skoðun á borginni þar sem Reykjavík sé höfuðborg allra landsmanna, ekki bara Reykvíkinga. Stjórnendur borgarinnar beri ábyrgð gagnvar öllum landsmönnum en ekki bara íbúum höfuðborgarinnar.

Hún sagði Sjálfstæðismenn ólma í að komast í meirihluta í Reykjavík og sagði ekki vanþörf á. Mátti á henni skilja að allt varðandi stjórn borgarinnar væri hreinasta hörmung og hið eina sem þyrfti til að allt yrði gott á ný væri Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta.

Aðspurð sagði hún að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem er í námsleyfi í Bandaríkjunum fram yfir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári, yrði frábær borgarstjóri ef hún bara vildi fara í það. Sama gildi um Hildi Björnsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson, sem einnig hefur verið nefndur sem mögulegur oddviti flokksins í borginni.

Orðið á götunni er að hinum kappsama formanni sjáist yfir nokkrar einfaldar en þó kaldar staðreyndir fyrir flokkinn. Áslaug Arna og Guðlaugur Þór voru ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar og leiddu lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum í þingkosningunum 30. nóvember sl. Þar var þeim hafnað með afgerandi hætti og fékk flokkurinn ríflega 17 prósenta fylgi í þeim báðum. Ekkert bendir til þess að stökkbreyting hafi orðið á fylgi flokksins eða ráðherranna fyrrverandi síðan þá.

Þá er langur vegur frá því að búið sé að leysa þann ágreining og klofning sem ríkir í borgarstjórnarflokknum jafnvel þótt vel tækist til með val á oddvita. Allur borgarstjórnarflokkurinn er vandamál og óstjórntækur, ekki aðeins oddvitinn. Þannig myndi engu breyta þótt Sjálfstæðismenn bættu verulega við sig fylgi í kosningunum í vor. Það vill enginn vinna með þeim í meirihluta nema e.t.v. Framsókn og Miðflokkur og það dugar bara ekki til. Meira að segja er með öllu óvíst hvort Framsókn nær einum einasta manni inn í borgarstjórn.

Orðið á götunni er að þrátt fyrir digurbarkalegt tal um væntanlega þátttöku Sjálfstæðisflokksins í meirihlutasamstarfi eftir kosningarnar í maí sé forystu flokksins fullljóst að engar líkur séu á því að flokkurinn komist í þá stöðu. Til að breiða yfir eign vandræði eru því málsmetandi Sjálfstæðismenn farnir að dreifa þeirri sögu að nær frágengið sé að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður VG, verði oddviti Samfylkingarinnar í borginni í vor.

Orðið á götunni er að tilgangurinn með þessum sögusögnum sé að klekkja sem mest á Samfylkingunni. Katrín er mjög óvinsæl og það að spyrða hana við Samfylkinguna er líklegt til að draga úr fylgi við hana. Einnig er þetta gert til að sá ófriðarfræjum meðal Samfylkingarfólks sem hefur lítinn áhuga á að fá þennan fyrrverandi forsætisráðherra í framboð.

Orðið á götunni er að vilji Katrín Jakobsdóttir reyna fyrir sér í borgarmálunum liggi beinast við fyrir hana að snúa sér að Sjálfstæðisflokknum. Þar er mikil leiðtogakrísa í borginni og þar á Katrín vísan stuðning. Hún sat sem forsætisráðherra í skjóli Sjálfstæðismanna í tæp sjö ár og skemmst er þess að minnast að í forsetakosningunum í fyrra voru flestir kjósendur hennar Sjálfstæðismenn, enda átti hún órofa stuðning forystu flokksins og málgagns hans þótt það dygði skammt í þeim kosningum. Gæti samt dugað fyrir oddvitasæti hjá Íhaldinu í borgarstjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki

Sigmundur Ernir skrifar: Flækjusaga af rugluðu regluverki
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ráðherra afboðar þátttöku á haustfundi SVEIT eftir áskorun Eflingar

Ráðherra afboðar þátttöku á haustfundi SVEIT eftir áskorun Eflingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áhrifarík þingræða Heiðu – „Sagðist hafa íhugað sjálfsvíg kvöldið áður“

Áhrifarík þingræða Heiðu – „Sagðist hafa íhugað sjálfsvíg kvöldið áður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Lilju berst stuðningur úr óvæntri átt – hefnd og sögulegar sættir?

Orðið á götunni: Lilju berst stuðningur úr óvæntri átt – hefnd og sögulegar sættir?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri N1: Meiri samkeppni á eldsneytismarkaði hér en á hinum Norðurlöndunum

Framkvæmdastjóri N1: Meiri samkeppni á eldsneytismarkaði hér en á hinum Norðurlöndunum