Fundur Pútíns og Trumps í Alaska í síðustu viku sýndi vel hvernig sú heimsmynd, sem Ísland hefur verið hluti af frá lokum seinni heimsstyrjaldar, er ekki lengur til.
Stríðið í Úkraínu snýst um fullveldi landsins, frelsi fólksins til þess að hugsa sjálfstætt og rétt þess til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í innanlandsmálum og í samskiptum við önnur ríki.
Í Alaska var enginn talsmaður þessara grundvallar gilda. Bandaríkin hafa einfaldlega yfirgefið hugmyndafræðina, sem verið hefur kjölfestan í samstarfi vestrænna þjóða. Því gat Trump réttilega sagt að hann hefði náð miklum árangri.
Markmið Bandaríkjanna á þessum fundi var að opna á leið til viðskipta við Rússland, sem Bandaríkin geti hagnast á. Stríðið truflar þessa vegferð.
Fullveldi Úkraínu var ekki til umræðu. Úkraína og Evrópa sátu þar af leiðandi uppi með svarta Pétur.
Pútín gekk svo langt að segja eftir fundinn að hann vonaðist til að Evrópa myndi ekki trufla þá vegferð, sem hann og Trump væru á.
Washington-fundur Trumps með Úkraínuforseta og nokkrum Evrópuleiðtogum fyrr í þessari viku bar þess glögg merki að báðir aðilar reyndu að draga fjöður yfir ágreininginn.
Frá sjónarhóli Evrópu snýst ágreiningurinn um grundvallaratriði: Fullveldi Úkraínu og öryggi Evrópu.
Bandaríkin telja hins vegar að þessi grundvallaratriði þvælist fyrir samkomulagi þeirra við Rússland á forsendum hugmyndafræðinnar: Ameríka fyrst.
Forystumenn Evrópu hafa fram til þessa reynt að missa Bandaríkin ekki of langt frá sér. Í þeim tilgangi hafa þeir helst beitt smjaðri, sem í sumum tilvikum hefur verið meira en vandræðalegt.
Eftir fundina í Alaska og Washington geta forystumenn Evrópuríkja tæpast dregið öllu lengur að ræða opinskátt við kjósendur sína um þá raunverulegu hugmyndafræðilegu gjá, sem hefur myndast milli Bandaríkjanna og þeirra ríkja, sem enn byggja á vestrænum gildum og segja: Fullveldi og frelsi fyrst.
Hér heima þurfum við líka að huga að því að opna þessa umræðu. Helst samhliða öðrum Norðurlöndum og bandalagsþjóðum í Evrópu.
Sumir segja að hugmyndafræði um fullveldi og frelsi verði að víkja fyrir beinhörðum hagsmunum. Einmitt þess vegna þurfum við að eiga umræðuna. Við getum ekki yfirgefið rótgróin vestræn gildi án umræðu.
Það hefur fleira breyst en þau efni, sem snúa að fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti ríkja. Bandaríkin hafa líka snúið hugmyndafræðinni um frjáls viðskipti á hvolf.
Í áratugi voru Bandaríkin og Evrópa samstíga um mikilvægi frjálsra viðskipta. Sú hugmyndafræði er njörvuð niður í 2. grein NATO-sáttmálans.
Þegar Bandaríkin leggja 15% toll á Ísland eru þau ekki aðeins að brjóta gegn reglum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar heldur einnig gegn grundvelli Atlantshafssáttmálans.
Í langan tíma hefur engin þjóð gengið jafn harkalega gegn íslenskum hagsmunum.
Hvernig eigum við að verja íslenska hagsmuni í þessari nýju heimsmynd?
Fram til þessa hefur það verið gert annars vegar með smá smjaðri og hins vegar skoðun á því hvernig borga megi Bandaríkjunum fyrir að lækka tolla. Flestar þjóðir gera það sama.
Stóryrðagagnrýni stjórnarandstöðunnar er ekki á þessa aðferð. Henni finnst ríkisstjórnin einfaldlega ekki smjaðra nógu mikið og ekki vera nógu fljót að bjóða fram borgun.
Samtök iðnaðarins vilja borga með orku til að auðvelda Trump að halda forskoti Bandaríkjanna varðandi þróun gervigreindar.
Þetta er nýr veruleiki, sem ekki verður umflúinn í samskiptum við Bandaríkin.
Utanríkispólitíska spurningin er þessi:
Hvort er líklegra til árangurs: Að skapa aukið svigrúm fyrir vaxandi útflutning á þessum grundvelli eða með dýpra samstarfi við þær þjóðir í Evrópu sem standa enn vörð um hugmyndafræði frjálsra viðskipta og leikreglur, sem jafna stöðu smærri ríkja gagnvart þeim stærri?
Þetta er ekki spurning um að snúa baki við Bandaríkjunum.
Umræðan á fyrst og fremst að snúast um hitt: Hvar eru bandalagsþjóðir, sem byggja á þeim hugmyndafræðilega grundvelli, sem reynst hefur Íslandi best, fullveldi og frjálsum viðskiptum? Hvar á Ísland heima?