fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Eyjan

Kjarnorkuákvæðinu beitt

Eyjan
Föstudaginn 11. júlí 2025 10:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forseti Alþingis Þórunn Sveinbjörnsdóttir ávarpaði þingið í upphafi þingfundar í dag þar sem hún tilkynnti um beitingu kjarnorkuákvæðisins í 71. gr. laga um þingsköp Alþingis í veiðigjaldaumræðunni. Þar með hefur Þórunn lagt til að 2. umræðu um veiðigjaldafrumvarpið verði hætt, en nú eru þingmenn að ganga til atkvæða í málinu. Þórunn tók fram að þessu ákvæði sé aðeins beitt að vel íhuguðu máli, en umræðurnar hafi staðið í tæpar 160 klukkustundir og enn sé langt á milli manna og ekki yrði lengra komist í viðræðum formanna og þingflokksformanna um afgreiðslu málsins.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagðist sammála mati forseta og að Alþingi yrði að virka. Ákvæðinu væri vissulega sjaldan beitt en það væri nauðsynlegt núna. „Alþingi verður að virka,“ sagði Kristrún og tók fram að minnihlutinn hafi ekki neitunarvald á Alþingi.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist harma þessa tillögu forseta enda áfellisdómur yfir Kristrúnu Frostadóttur. Enginn forsætisráðherra síðustu 60 ár hafi þurft að nýta þetta úrræði. „Þetta er alvarlegur áfellisdómur fyrir forsætisráðherra, hennar ríkisstjórn og virðingu þeirra fyrir Alþingi Íslendinga.“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði það koma sér á óvart að svokölluðu kjarnorkuákvæði væri beitt í skattahækkunarmáli. Það hefði verið hægt að komast að samkomulagi, en greinilega sé samningsvilji meirihlutans ekki meiri en þetta.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir þetta sorgardag og gagnrýndi það sem hún kallar leikrit ríkisstjórnarinnar undanfarinn sólarhring. „Guð minn góður, hvert erum við komin?“

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar, sagðist dapur að ekki hafi verið hægt að ná ásættanlegri lendingu í málinu. Hann hafi ekki vitað betur en að í gær hafi enn verið að ræða málamiðlanir. Framsókn hafi langt fram tillögu sem ekki hafi komið til umræðu í þinginu. Ítrekað hafi verið reynt að ná málamiðlunum en nú sé þingið komið á skelfilegan stað. 71. gr. hafi þau áhrif að það muni bergmála inn í alla framtíð þingsins. „Þetta er varhugaverð vegferð sem ég alfarið á móti“

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir þetta sögulega tíma. Mikil dramatík hafi verið í fundarsal í gær þar sem stór orð voru látin falla. Hann sagði að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, hafi talað um orrustuna um Íslands, en Njáll Trausti bendir á að hún sé enginn Winston Churchill. „Mig grunar að sagan muni ekki fara vel með þennan gerræðislega gjörning“.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort þetta væri merki um nýja stefnu. Verði ákvæðinu nú beitt á öll mál? „Er búið að taka lýðræðið úr sambandi og verður þetta núna venjan?“

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist virða ákvörðun forseta Alþingis. Nú haldi þingleg meðferð frumvarpsins áfram, nefnd fær málið aftur til sín, svo kemur það til þriðju umræðu og svo fer það í atkvæðagreiðslu – allt eftir venjulegum ferlum lýðræðisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir þetta dimman dag í sögu Alþingis. Engin virðing sé borin fyrir reglum, venjum og hefðum Alþingis og vanhæfni ríkisstjórnarinnar sé nú afhjúpuð. Afleiðingar málsins verði ekki góðar og það verði á ábyrgð vanhæfrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.

Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir: „Þetta er sorgardagur fyrir Alþingi Íslendinga, þetta er sorgardagur fyrir lýðræðið í landinu. Hér er verið að nota kjarnorkuákvæðið í fyrsta sinn í 66 ár á skattahækkunarmál sem á að taka gildi eftir hálft ár“.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, furðaði sig á orðum stjórnarandstöðunnar um að veiðigjaldafrumvarpið væri lítið skattahækkunarmál. Lengd umræðunnar sýni annað. „Það er ekki þannig að stjórnarandstaðan eigi að hafa neitunarvald á Alþingi Íslendinga. Hér eru mál afgreidd, ef þau eru í ágreiningi, með atkvæðagreiðslu hér í þingsal hjá þingmönnum.“

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir forsætisráðherra margt til lista lagt, lagni og auðmýkt í mannlegum samskiptum sé ekki eitt af því. Hennar verði minnst í þingsögunni fyrir yfirgang.

Þorsteinn B. Sæmundsson, þingmaður Miðflokks, segir athyglisvert að nú eigi að beita þessu ákvæði til að tryggja rétt ríkisstjórnarinnar til að setja „illa gerð lög“. Þetta muni ekki hafa góð áhrif inn í framtíðina.

Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir þennan fallega sumardag nú hafa breyst í drungalegan dag. Nú hafi virðing Alþingis beðið alvarlega hnekki og málið sé áfellisdómur yfir leiðtogahæfni Kristrúnar Frostadóttur.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, harmar stöðuna á Alþingi. Þetta sé afar slæmt fordæmi og gríðarlegt inngrip í þingræðið. „Þetta er ekki léttvægt, virðulegur forseti, og mér er eiginlega orða vant.“

Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, segist styðja ákvörðun forseta en harmar að 71. gr. sé kölluð kjarnorkuákvæði í ljósi þess hryllings sem slík vopn valda.

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokks, segir þetta sorgardag í sögu þingsins og veltir fyrir sér hvort meirihlutinn hafi í raun aldrei ætlað að semja um lok viðræðurnar við minnihlutann. Þetta sé lágpunktur í stjórnmálaferli Kristrúnar Frostadóttur sem skorti getuna til að útkljá deilur með samningum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, steig aftur í pontu til að taka fram að það hafi verið óskrifuð pólitísk sátt um að beiting 71.gr. væri seinasta úrræði sem ætti aðeins að nota í ítrustu neyð. Nú sé verið að beita þessu til að þagga niður í minnihlutanum. Þessi ríkisstjórn hafi fórnað þingræðinu fyrir skattahækkun. „Aldrei hefur nein ríkisstjórn lagst svo lágt fyrir jafn vondan málstað eins“

Birna Bragadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að pólitíkin sé málamiðlun og það sé sorglegt að vera vitni að þessu úrræðaleysi og uppgjöf ríkisstjórnarinnar í málinu.

Bergþór Ólason hefur aftur stigið upp í pontu þar sem hann kallaði ræður stjórnarliða um atkvæðagreislu hljóma eins og ræður þeirra sem verja einræðisherra áður en hann kippir lýðræðinu úr sambandi. Hann kallar málið frekjukast ríkisstjórnarinnar og spáir því að veiðigjaldafrumvarpið muni enda fljótt fyrir dómstólum þegar það verður að lögum.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, stígur einnig upp í pontu aftur og tekur fram að það fordæmalausa í þessu öllu saman er ekki beiting 71. gr. heldur málþóf stjórnarandstöðunnar. „Lengsta málþóf í sögu Alþingis. Það sem er fordæmalaust er að stjórnarandstaðan leggist öll sem eitt gegn því að réttkjörinn meirihluti á Alþingi fái framgöngu mála sinna hér til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu. Það er fordæmalaust.“ Það sé fordæmalaust að stjórnarandstaðan geri að kröfu í þinglokaviðræðum að meirihlutinn samþykki þeirra frumvarp í veiðigjaldamálinu.

Vilhjálmur Árnason stígur aftur upp og segir að það hafi verið Kristrún Frostadóttir og ríkisstjórn hennar sem voru ekki tilbúnar að gera málamiðlanir eins.

Guðlaugur Þór kemur aftur og segir þetta skapa fordæmi sem muni valda einhverju sem ekki er hægt að sjá fyrir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að stjórnarandstaðan hafi komið því rækilega á framfæri að hún ætli sér að stöðva þetta mál. Stjórnarandstaðan hafi ekki virt lýðræði og þingræði, hún njóti málfrelsis en hafi misnotað það til að snúa þingræðinu á hvolf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins segir að ríkisstjórnin sé ekki mikið fyrir hefðir og venjur. Nú sé verið að brjóta blað í sögu þingsins og steypa samstarfi á Alþingi í óvissu til framtíðar. Engin forysta ríkisstjórnar hafi verið eins léleg í samningum og samskiptum og þessi ríkisstjórn virðist vera. Kannski hafi ætlunin alltaf verið að beita þessu ákvæði.

Njáll Trausti bætir einnig við mál sitt og segir að nú þegar kjarnorkuákvæðinu er beitt muni það verða geislavirkt í framhaldinu. Þetta sé geislavirkt fordæmi og ríkisstjórnin sé að segja: „Ég á þetta, ég má þetta“.

Jens Garðar telur ljóst að ákvæðinu verði líka beitt þegar barist verður um fullveldi landsins gagnvart inngöngu í Evrópusambandið. Þjóðin viti nú hvað sé í vændum.

Ragnar Þór bætir við mál sitt að það hafi verið ljóst í vikunni að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að semja um þinglok. Honum finnst eins galið að nú hafi hver þingmaður úr stjórnarandstöðunni eftir annan stigið fram og kallað veiðigjaldafrumvarpið lítilvægt skattahækkunarmál. Samt hafi þinginu verið haldið í gíslingu.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að samningvilji stjórnarandstöðunnar hafi verið mikill og kallaði ríkisstjórnina taugaveiklaða. Þetta sé vont augnablik í þingsögunni.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, segir að orð stjórnarandstöðunnar dæmi sig sjálf. Lýðræðið sé dýrmætt og brothætt og það sé staðreynd að minnihlutinn hafi reynt á þanþol þingsins og þar með lýðræðis í landinu. Þingmenn skuldi kjósendum og almenningi í landinu að lýðræðið virki og það sé hættulegt þegar þingið hættir að virka.

Sigmundur Davíð, segir ríkisstjórnina ekki snúast um annað en frekju, vitleysisgang og yfirgang.

Þorgerður Katrín, segir að ríkisstjórnin hafi svo sannarlega reynt að semja um þinglok. „Við réttum ítrekað fram ýmis boð til að ná sáttum. Þeirri sáttarhönd var hafnað ítrekað. Það síðast í gær.“

Fréttin verður uppfærð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Ísak Snær til Lyngby
Eyjan
Í gær

Diljá Mist segir sig og nágranna sína upplifa sig afskipta – „Höfum misgóða reynslu af áhuga og umhyggju stjórnmálamanna fyrir hverfinu okkar“

Diljá Mist segir sig og nágranna sína upplifa sig afskipta – „Höfum misgóða reynslu af áhuga og umhyggju stjórnmálamanna fyrir hverfinu okkar“
Eyjan
Í gær

Svona býr Áslaug Arna í New York – „Indæla Upper West Side er nýja heimilið mitt“

Svona býr Áslaug Arna í New York – „Indæla Upper West Side er nýja heimilið mitt“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“

Sjáðu kostulega ræðu flissandi Guðlaugs á Alþingi í dag „ÞETTA ER GEGGJAÐUR DAGUR“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur súr í pontu Alþingis – „Við skulum þá bara fara heim virðulegi forseti“

Vilhjálmur súr í pontu Alþingis – „Við skulum þá bara fara heim virðulegi forseti“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni

Orðið á götunni: Málþófið tætir fylgið af Sjálfstæðisflokknum – líka í borginni