Salan á 45 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka styður mjög við aðhaldsstefnu Seðlabankans í peningamálum og minnkar í raun peningamagn í umferð með mun markvissari hætti en vaxtastefna bankans. fullt tilefni er því til myndarlegrar vaxtalækkunar, en vaxtaákvörðun verður tilkynnt í fyrramálið.
Greiningardeildir Landsbankans og Íslandsbanka búast við því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum, en vaxtaákvörðunin verður tilkynnt í fyrramálið. Rökin fyrir þessu eru sögð óhagstæðari verðbólgumæling í síðasta mánuði en búist var við, auk þess sem kraftur í atvinnu- og efnahagslífi sé meiri en vænta hefði mátt miðað við hátt nafn- og raunvaxtastig.
Aðalhagfræðingur Arion banka er annarrar skoðunar. Erna Björg Sverrisdóttir sagði í viðtali við RÚV í hádeginu í dag að öll rök hnigju að því að Seðlabankann haldi vaxtalækkunarferli sínu áfram. Verðbólgumælingin í síðasta mánuði hefði verið fráviksmæling.
Rétt er að taka undir þetta álit Ernu bjargar. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur ekkert komið fram sem gefur Seðlabankanum tilefni til að hvika frá vaxtalækkunarferlinu sem staðið hefur undanfarna mánuði. Í raun má gagnrýna bankann fyrir að hafa ekki lækkað í ákveðnari skrefum en raun hefur borið vitni vegna þess að verðbólgan hefur lækkað meira en vextirnir og því hefur Seðlabankinn í raun verið að hækka vexti í gegnum „vaxtalækkunarferli“ sitt. Raunvextir eru nú hærri en þeir voru þegar vaxtalækkunarferlið hófst.
Í síðustu viku seldi ríkið 45 prósenta hlut sinn í Íslandsbanka í almennu útboði þar sem almennir fjárfestar keyptu nánast allan hlutinn. Afraksturinn var ríflega 90 milljarðar. Þessir 90 milljarðar hverfa nú úr vösum almennings í ríkissjóð og verður varið til að lækka skuldir íslenska ríkisins. Salan á Íslandsbanka hefur þannig á einu bretti minnkað peningamagn í umferð um 90 milljarða. Eitthvað af þessu rennur aftur í vasa fjárfesta sem kjósa að læsa inn hagnað af kaupunum á næstu dögum en reynslan af fyrri útboðum þar sem almenningur hefur fengið að taka þátt gefur til kynna að langstærsti hlutinn muni eiga hluti sína áfram og því er þessi minnkun peningamagns í umferð að mestu varanleg.
Það eru viðtekin sannindi innan hagfræðinnar að peningamagn í umferð ráði mestu þegar kemur að því að hafa stjórn á eftirspurn í hagkerfinu og þar af leiðandi verðbólguþrýstingi. Vaxtahækkanir eru sú leið sem Seðlabankar hafa helst beitt til að minnka peningamagn í umferð. Óhætt er að fullyrða að ríkisstjórnin og fjármálaráðherra Íslands hafi heldur betur lagst á árar með Seðlabankanum í baráttunni við verðbólguna með því að minnka peningamagn í umferð um 90 milljarða í gegnum söluna á Íslandsbanka.
Í þessu samhengi má skoða þau áhrif sem breytingar á vöxtum hafa á peningamagn í umferð. Ef horft er til heimilanna (sem fjárfestu 90 milljarða í Íslandsbanka í síðustu viku) má segja að lækkun vaxta um 0,25 prósent auki peningamagn í umferð um fimm milljarða á ári ef miðað er við að sú ákvörðun hafi áhrif á skuldir heimilanna upp á tvöþúsund milljarða. Lækkun stýrivaxta um eitt prósent myndi því auka peningamagn í umferð um 20 milljarða á einu ári, að því gefnu að bankar og lífeyrissjóðir létu stýrivaxtalækkunina renna óskipta til sinna lántakenda.
Af þessu má sjá að minnkun peningamagns í umferð upp á 90 milljarða jafngildir vaxtahækkun upp á um 4,5 prósent. Í þessu ljósi er ljóst að mjög óeðlilegt er ef peningastefnunefnd Seðlabankans stöðvar vaxtalækkunarferli sitt beint í kjölfar sölunnar á Íslandsbanka. Sú sala gefur bankanum tilefni til að horfa frekar til þess að taka mun ákveðnara skref til vaxtalækkunar en þær 0,25 prósenta lækkanir sem hafa verið ráðandi í yfirstandandi vaxtalækkunarferli. Peningastefnunefndin ætti því fremur að horfa til 0,5-1 prósenta vaxtalækkunar í stað þess að velta fyrir sér hvort lækkunin eigi að vera 0,25 prósent eða engin, eins og greiningadeildir bankanna ganga út frá.
Fróðlegt verður að sjá hver verður niðurstaða peningastefnunefndarinnar í fyrramálið. Hingað til hefur nefndinni hætt mjög til að horfa frekar í baksýnisspegilinn en fram á við varðandi vaxtaákvarðanir sínar. Nú er 90 milljarða minnkun peningamagns í baksýnisspeglinum.