fbpx
Mánudagur 21.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Bensínstöðin sólin

Eyjan
Föstudaginn 4. apríl 2025 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á meðan við erum upptekin af suði hins jarðneska bulls situr sólin í hásæti sínu og stýrir bókstaflega öllu á sviðinu stóra, veröldinni.

Sólin, þessi glóandi eldstjarna, er ekki bara alheimsljósið stærsta, hún er allsráðandi orkuveita og trónir í sólkerfinu miðju.

Drottning lífs og dauða

Án sólarinnar væri jörðin bara eyðimörk, engin ljóstillífun, engin sígræn engi, engar fæðukeðjur og þar af leiðir værum við, manneskjurnar, hreinlega ekki til ef sólar nyti ekki við.

Sólin er einhverskonar eilífðarbensínstöð sem dælir ljósorku inn í hvert strá, hverja lífveru og gerir náttúrunni kleift að vakna að vori og okkur að uppskera að hausti.

Egyptarnir tilbáðu hana, Van Gogh virtist sjá hana á hreyfingu og skáldum hefur hún orðið innblástur. „Snæfríður Íslandssól“ er kannski fegursta nafngift á Íslandi?

Blessuð sólin elskar allt
allt með kossi vekur;
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Margir eru dægurlagatextar þar sem sólin kemur við sögu og hún jafnvel persónugerð: „You are my sunshine.“

Sólin horfir eflaust á okkur skælbrosandi eins og afskipt gamalmenni á öldrunarheimili: „Þarna eru þau „börnin mín“ svo upptekin af því sem engu skiptir að þau hafa meira að segja gleymt því að ég er mamma þeirra.“

Sól í hvert mál

Hugsið ykkur, öll fæða sem við innbyrðum úr náttúrunni á allt sitt undir sólarorkunni þannig að það má segja að við borðum sólargeisla í þeirri fæðu sem við neytum.

Appelsínur, þessar jarðnesku dvergsólir eða fallegu sólar-selfies, má finna nánast alls staðar á hnettinum. Ég mæli með að hugleiða appelsínum, velta þeim milli handa sinna í þakklæti, fyrir ilminn, næringuna, bragðið, já lífið sjálft!!

Ó blessuð vertu sumarsól!

Sólarupprás og sólarlag er eina klukkan sem marktæk er og við ættum í háttum að fylgja og minnir okkur daglega á fæðinguna og dauðann. Ef við eigum enga trú og hugmyndin um skapara himins og jarðar rímar ekki við okkar lífsýn þá getum við óhikað tilbeðið sólina því hún ER okkar lífgjafi.

Sólin hentar sérlega vel til tilbeiðslu efasemdarfólks því hún er sýnileg og tilvist hennar óumdeilanleg. Sólardýrkun er hluti af menningarsögu mannsins og á Íslandi eimir enn af slíkri trú því Vestfirðingar sem sjá ekki sólina frá lokum nóvember til loka janúar fagna henni með Sólarkaffi. Fallegur siður.

Hækkandi hitastig á jörðinni er ekki sólinni að kenna heldur afglöpum manneskjunnar sem þykist öllu æðri. Náttúran þarfnast nú sem aldrei fyrr fulltingis manneskjunnar svo kannski væri ekki úr vegi að við veitum sólinni meiri athygli með aðdáun okkar og elsku.

Sól úti
sól inni
sól í hjarta
sól í sinni
sól bara sól.

Þetta er einföld barnagæla en fyrirtaks bæn fyrir alla aldurshópa til að fara með að morgni dags.

Sólin er kenjótt móðir þótt hún fari ekki í manngreinarálit og skíni jafnt á háa sem lága. Hún fer hins vegar í landgreinarálit, veitir sumum þjóðum meira af sínum geislum og hlýju en öðrum þjóðum sýnir hún enga miskunn með þurrkum og uppskerubresti. Sólin unnir sér aldrei hvíldar. Þegar hún skín ekki um nætur hérna megin jarðarkringlunnar þá dælir hún lífi og nærir aðra hluta jarðarinnar.

Sólin fylgir okkur inn í eilífðina

Þeir sem hræðast dauðann þurfa engu að kvíða því eilífleikinn í boði sólarinnar bíður okkar allra. Sólin verður nefnilega lífgjafi okkar öðru sinni því þegar undir moldu er komið því þá eftir alllangan tíma verðum við aftur hluti af jarðveginum sem svo þrífst á geislum sólarinnar og skýtur upp plöntum sem næra dýr jarðar.

Ef maður leyfir heimsósómanum að ná tökum á sér þá er það huggun að hugsa til þess að það bíði manns að verða strá á íslensku moldarbarði. Mér liggur við að segja tilhlökkunarefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu

Sigmundur Ernir skrifar: Nýtt varnarbandalag Evrópu
EyjanFastir pennar
20.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti

Þorsteinn Pálsson skrifar: Varnir og viðskipti
EyjanFastir pennar
19.03.2025

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?

Ágúst Borgþór skrifar: Skjól fyrir þolendur eða eltihrella?