Gallupkönnun sem unnin var allan aprílmánuð, þar sem tíu þúsund manns voru spurðir og um helmingur svaraði eins og venjulega, sætir tíðindum. Fylgi við ríkisstjórnina mælist nú 66 prósent sem hlýtur að teljast mikill sigur eftir þær linnulausu árásir sem stjórnin hefur búið við frá upphafi. Stjórnarandstaðan hefur hamast af blindni í hverju málinu á fætur öðru án þess að hafa erindi sem erfiði. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa varið ómældum fjármunum í auglýsingar og áróður vegna fyrirhugaðra breytinga á innheimtu afnotagjalda fyrir aðgang sægreifanna að sjávarútvegsauðlind þjóðarinnar. Auk þess hafa komið upp erfið mál eins og afsögn fyrrverandi mennta-og barnamálaráðherra sem reynist svo vera stormur í vatnsglasi þegar öllu var á botninn hvolft.
Orðið á götunni er að fylgisaukning Samfylkingarinnar upp í 29,4 prósent sé mikill persónulegur sigur fyrir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Hún kemur fram af myndugleik, er málefnaleg, skelegg og ákveðin. Sumir segja að hún sé farin að minna á Davíð Oddsson þegar hann var upp á sitt besta í embætti forsætisráðherra í lok síðustu aldar. Samkvæmt þessari könnun fengju ríkisstjórnarflokkarnir samtals 36 þingmenn kjörna.
Útkoma Sjálfstæðisflokksins hlýtur að teljast áfall fyrir nýja forystu flokksins, 22,3 prósent, eftir að flokkurinn er nýbúinn að halda landsfund og skipta um forystu með allri þeirri athygli og umfjöllun sem jafnan fylgir landsfundi flokksins, ekki síst þegar kosið er um forystu eins og núna gerðist undir kastljósi allra fjölmiðla. Sigur Guðrúnar Hafsteinsdóttur kom mörgum á óvart og virðist hafa orðið hinum formannsframbjóðandanum mikið áfall. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur alla vega ákveðið að renna af hólmi og flytja til Bandaríkjanna og hefja nám.
Áslaug var frambjóðandi ráðandi afla í flokknum. Hún var studd af fyrrverandi formanni og þáverandi forystu flokksins, hún naut velvilja stórfyrirtækja í sjávarútvegi að ógleymdu Morgunblaðinu sem er í eigu sægreifanna að mestu. Einnig lögðu minni fjölmiðlar henni lið. En allt kom fyrir ekki. Guðrún kom, sá og sigraði.
Orðið á götunni er að vandi Guðrúnar Hafsteinsdóttur innan Sjálfstæðisflokksins sé einkum að sá hluti flokksins sem tapaði á landsfundi hafi ekki sýnt þann þroska að fylkja sér á bak við nýjan formann og hefur valið að nöldra úti í horni í fýlu. Þetta hafa svo sem oft áður verið örlög forystu Sjálfstæðisflokksins sem virðist haldin þeir ógæfu að geta ekki safnað flokksmönnum saman sem einni heild að baki formanni á hverjum tíma. Hermt er að Guðrún hafi ekki meirihluta þingflokksins á bak við sig, einungis sex þingmenn af 14. Meðal annars þess vegna situr flokkurinn enn uppi með Hildi Sverrisdóttur sem formann þingflokksins og einn helsta talsmann sinn á Alþingi. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Útkoma Framsóknarflokksins í þessari stóru Gallupkönnun er svo kapítuli út af fyrir sig. Flokkurinn galt afhroð í síðustu þingkosningum, fór úr 13 þingmönnum og niður í fimm, sem er versta niðurstaða flokksins frá upphafi. Fylgið reyndist þá vera 7,8 prósent en í könnun Gallup fer það enn niður og er komið í 6,1 prósent og fjöldi þingmanna niður í fjóra. Framsókn hefur enn ekki boðað breytingar til að freista þess að snúa þróuninni sér í hag. Nú er rætt um að það styttist í að flokksþingi verði flýtt þannig að Sigurður Ingi Jóhannsson geti vikið úr stöðu formanns. Talið er að Halla Hrund Logadóttir, nýr þingmaður flokksins, verði þá kjörin til formennsku í Framsóknarflokknum.
Yfirleitt bæta stjórnarandstöðuflokkar við sig fylgi þegar ríkisstjórn stendur í stórræðum eins og núverandi ríkisstjórn gerir. En sú staða er ekki upp núna. Framsókn tapar enn og Miðflokkurinn hefur einnig tapað fylgi, 3,2 prósentum og tveimur þingsætum.
Orðið á götunni er að á næstu fimm vikum, fram að sumarleyfi þingmanna, muni ríkisstjórnin styrkja sig enn frekar, einkum og sér í lagi ef stjórnarandstaðan gengur langt í tafaleikjum og málþófi í þinginu eins og fastlega er búist við. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Miðflokkur munu þá taka upp merki Pírata sem gengu yfirleitt langt í málþófi en eiga nú ekki sæti á þingi.
Merki Pírata verður haldið á lofti í þinginu á næstu vikum – stjórnarandstöðunni til háðungar.