fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Er glæsihýsi þingmanna mislukkað?

Svarthöfði
Þriðjudaginn 30. janúar 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði getur ekki annað en dáðst að uppbyggingu í miðborginni undanfarið. Í stað bílastæða og hrörlegra timburhjalla, getur nú að líta glæstar kassalaga byggingar sem minna á gámastæður, sem er vel til fundið og kallast á við athafnasvæði hafnarinnar. Þar má líka sjá steinklætt peningamusteri Landsbankans og utanríkisráðuneytisins klætt með þeirri nýstárlegu aðferð að leggja utan á það lárétta stuðlabergsstöpla, sem hvergi finnast þannig liggjandi í náttúrunni og orðið tímabært að ráða bót á því.

Líklega má rekja upphaf þessarar uppbyggingar til Ráðhúss borgarinnar sem stendur tígulega í horni Tjarnarinnar og gefur þaðan lágreistum byggingum í nágrenninu langt nef. Þar til nú að risið hefur glæsihýsi Alþingis við hlið Oddfellow-hússins við Vonarstræti sem hýsa á skrifstofur þingmanna og nefndastarf þingsins. Það eins og Mammonsmusterið er líka klætt steinklæðningu, en með heldur hefðbundnari aðferð.

Og nú hefur húsið verið tekið í notkun og um það fjallað nokkuð ítarlega í fjölmiðlum, einkanlega í Morgunblaðinu, og hrifning fjölmiðlamanna leynir sér ekki. Enda varla nema von því flogið hefur fyrir að byggingin ein og sér hafi kostað sjö þúsund milljónir og eru þá innréttingar ekki taldar, né tölvubúnaður ýmis konar og fleira smálegt. Líklega má tvöfalda þessar sjö þúsund milljónir þegar allt verður talið.

Innréttingar munu ekki af lakari sortinni og allir innanstokksmunir valdir af sérfræðilegri kunnáttusemi hönnuða hússins. Til að mynda er ekki leyfilegt að þingmenn saurgi yfirbragð innanhúss með döprum smekk sínum, ættuðum úr afdölum, móum og heiðalöndum. Auðvitað er fráleitt annað en vistarverur þessa glæsihýsis beri vott um fágaðan smekk löggildu smekkmannanna sem það hönnuðu.

Svarthöfða hnykkti við þegar hann las um óánægju einhverra þingmanna með vistina í húsinu. Sófar séu til skrauts en ekki setu og bannað sé að færa inn á skrifstofur forláta hægindastóla, nefndir Lazy-boy. Getur verið að þingmenn líti á starf sitt sem letidjobb og þeim líðist að gleyma sér í hægindum á skrifstofu sinni?

Þá fylgir sögunni að hljóðbært sé milli skrifstofa. Svarthöfði sér í hendi sinni að það er með ráðum gert – enda á pukur og undirmál ekki heima í störfum þingsins.

Jafnframt er kvartað undan því að ekki megi hengja prívat skelerí á veggi skrifstofanna. Það gefur auga leið að það er vegna þess að styttist nú til næstu kosninga og yfirstjórn þingsins áttar sig á að flestir þeir sem þar hafa nú skrifstofu munu falla af þingi senn hvað líður og ekki gengur að hafa alla veggi útataða í naglaförum eftir fjölskyldumyndir þeirra sem áðu þar um hríð.

Heldur þykir þó Svarthöfða syrta í álinn þegar kvartað er undan útsýni úr skrifstofum nýja hússins, út um glugga þess sjáist ekki annað en hvítur veggur og minni vistin helst á veru á Litla-Hrauni. Illa er þá komið fyrir þingmönnum sem þurfa að kynna sér þingmál „eftir föngum“, svo Svarthöfði leyfi sér þann sjaldgæfa munað að slá á létta strengi.

Nýlega ákvað dómsmálaráðherra að leggja drög að byggingu nýs fangelsis í stað nefnds Litla-Hrauns, því fangelsið það væri að hruni komið. Allt í einu blasir við að best fari á því að hið nýreista glæsihýsi við Vonarstræti verði hið nýja Litla-Hraun enda yrðu allir klefar eins innanstokks svo sem alsiða er í fangelsum, hljóðbærni vinnur gegn pukri og undirmálum fanganna og útsýnið úr sellunni takmarkað við næsta hvíta vegg. Allt eins og það á að vera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
31.03.2024

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar