fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Á barmi forsetaframboðs

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 27. mars 2024 16:10

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona er ein þeirra sem nefnd hafa verið sem mögulegur arftaki núverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, en eins og kunnugt er hefur hann lýst því yfir að hann bjóði sig ekki fram til endurkjörs í forsetakosningunum sem standa fyrir dyrum. Í ítarlegum pistli sem Steinunn Ólína birtir á Vísi og kallar „Bréf til þjóðarinna“ segist hún vera enn að hugsa sig um hvort hún bjóði sig fram en sé að íhuga það alvarlega.

Hún segir að farið hafi um hana þegar hún var nefnd til sögunnar sem mögulegur frambjóðandi í könnunum fjölmiðla þegar ljóst var að Guðni færi ekki aftur fram. Hún segir þó að líklega geti hún sjálfri sér um kennt þar sem hún hafi fyrir kosningarnar 2012 sagst ætla að bjóða sig fram þó meira af óþekkt af alvöru. Að hennar mati hafi þá verið kominn tími til að Ólafur Ragnar Grímsson stigi til hliðar og að Ísland fengi nýjan forseta. Hún hafi með þessu viljað hvetja aðra til að bjóða sig fram gegn Ólafi en á þeim tímapuntki hafi hún hins vegar ekkert erindi átt í embættið í ljósi ungs aldurs og langrar búsetu erlendis.

Mennningarlega sinnaður forseti

Þá eins og nú hafi verið einhver djúpstæð tilfinning í henni um að:

„Á Íslandi eigi að sitja menningarlega sinnaður, alþýðlegur forseti, ekki of hátíðlegur, og sem unir við sinn heimavöll. Manneskja sem er tengd sínu samfélagi tryggðaböndum og sýnir það í verki, lætur stjórnmálin hafa sinn gang og sinnir embættisskyldum af alúð og samviskusemi.“

Hins vegar líti óneitanlega sumir svo á, ekki síst eftir forsetatíð Ólafs Ragnars, að forsetinn eigi að viðhafa íhlutun á hinu pólitíska sviði. Steinunn Ólína vísar til að umræðna um að forsetinn eigi að vera eins konar brú eða öryggisventill á milli þings og þjóðar:

„Brú milli þings og þjóðar, sem hljómar skáldlega en hvað þýðir það samt? Hvernig getur manneskja verið brú eða ventill?“

Hún segir málskotsréttinn ekki eiga að vera háður geðþótta forsetans. Hann eigi aðallega að nýta ef Alþingi ræðst gegn almannaheill með mannréttindabrotum eða landráðum.

Skylda kjósenda

Hún segir að þær skyldur hvíli á herðum kjósenda að kynna sér stefnu frambjóðenda í kosningum:

„Það er auðvelt að vera reiður eftir á en það krefst heimavinnu að minna stjórnmálamenn á skyldur sínar.“

Steinunn Ólína segir að það sé ekki enn kominn fram forsetaframbjóðandi sem hún geti fullyrt á þessari stundu að hún myndi kjósa án umhugsunar:

„Það má ekki túlka svo að mér finnist enginn frambærilegur, langt í frá. Ég er í sama vanda hvað stjórnmálin snertir því þar er enginn flokkur sem ég get fyllilega samsamað mig með og sem ég treysti til að setji þau mál á dagskrá sem mér finnast brýnast að sett verði á oddinn. Að gæta landsins, augasteins okkar allra. Náttúru þess og fegurðar, skringilegheita, og listfengis þjóðar og samfélagslegra hagsmuna.“

Hún segir Íslendinga fáa og geta gert hlutina eftir sínu höfði:

„Við þurfum ekki að apa eftir öðrum þjóðum í einu og öllu í þeirri von að mark sé á okkur tekið í hinum stóra heimi. Heimsveldin munu alltaf hafa lönd eins og okkar í hálfgerðum flimtingum og það er bara allt í lagi.“

„Við höfum tækifæri til að búa í fallegu og réttlátu samfélagi. Við þurfum aðeins að hnippa í okkar eigin samlanda, í sókn sinni eftir auði og völdum, svo þeir gleymi ekki að við berum öll skyldur í samfélagi.“

Alvarleg íhugun

Steinunn Ólína segist því næst vera alvarlega að hugleiða að bjóða sig fram til embættis forseta af fullum heilindum, nú eldri og lífsreyndari en hún var 2012. Þar vegi þyngst hvatning frá bláókunnugu fólki:

„Það hefur aldrei þvælst fyrir mér að vera þjóðþekkt persóna. Mér þykir ævinlega vænt um það þegar fólk gefur sig á tal við mig. Við erum lítið samfélag þar sem allir þekkja alla og það er notalegt. Fólk segir mér líka óspart til syndanna ef því er að skipta og það er bara gott á mig. Það hefur orðið mér hvatning til að líta í eigin barm og freista þess að skilja aðra fremur en afskrifa, sem er flóttaleið sem útheimtir enga sjálfsskoðun.“

Hún segist kunna að meta hreinskiptin samskipti og vilja að í lýðræðissamfélagi geti fólk tjáð sig óhikað án þess að eiga á hættu útskúfun og útilokun:

„Erfiðar kennslustundir lífsins hafa kennt mér æðruleysi og auðmýkt en einnig að í öllum manneskjum býr eitthvað fagurt og gott sem stundum þurfi að leita að til að sjá það.“

Raunveruleg verðmæti

Steinunn Ólína segir að hún hafi lært hvað raunveruleg verðmæti eru þegar þjóðin hafi staðið með henni og eiginmanni hennar heitnum Stefáni Karli Stefánssyni í veikindum hans:

„Sú væntumþykja og hlýja sem streymdi til mín og barnanna okkar var svo áþreifanleg og heilandi að það gerði okkur fært að ganga upprétt þrátt fyrir mikinn missi. Slíkrar hlýju og ástar í erfiðum aðstæðum óska ég öllum, ekki bara útvöldum, þjóðþekktum einstaklingum. Þannig ætti okkar litla samfélag auðvitað að vera, samfélag sem heldur þétt utan um allt sitt fólk og kemur sér saman um að það sé hinn heilagi samfélagssáttmáli.“

Steinunn Ólína segir að lokum að ef hún ákveði að gefa kost á sér í kosningunum muni hún gera það af heilum hug:

„Af djúpu þakklæti fyrir að fæðast í þessu fallega og örugga landi og hafa notið þess atlætis sem raun ber vitni.“

Pistil Steinunnar Ólínu í heild sinni er hægt að nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“