fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

Hlegið dátt í þingsal þegar Katrín var spurð hvort hún vildi verða forseti Íslands

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 4. mars 2024 17:00

Katrín Jakobsdóttir. Mynd: Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meðal þeirra sem mikið hafa verið nefnd til sögunnar þegar kemur að frambjóðendum í komandi forsetakosningum er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ákvað að nýta tækifærið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag og spurði Katrínu beint út hvort hún ætlar sér í framboð.

Guðmundi virtist eilítið niðri fyrir þegar hann steig upp í ræðustól Alþingis og sagði nokkuð alvarlegur í bragði að hvert sem hann hefði farið í kjördæmaviku Alþingis í liðinni viku hefði einni spurningu verið mikið beint til hans. Spurningu sem hann sjálfur gæti alls ekki svarað:

„Það var alveg ótrúlegur fjöldi sem spurði mig alltaf þessarar sömu spurningar og því hef ég ákveðið að spyrja hæstvirtan forsætisráðherra um það, vegna þess að ég held að hún sé sú eina sem getur svarað þessari spurningu. Þessi spurning varðar framboð til forseta Íslands.“

Við þessi orð Guðmundar var þó nokkuð hlegið í þingsal og ljóst að þingheimi var nokkuð skemmt yfir því að þingmaðurinn skyldi nýta óundirbúinn fyrirspurnatíma til að spyrja um þetta viðfangsefni. Katrín sjálf brosti í kampinn og var mögulega fegin að hafa ekki fengið erfiðari spurningu frá þingmanninum.

Guðmundur Ingi vísaði í eitt framlaga Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og vildi fá skýr svör:

„Ætlar þú í framboð til forseta Íslands? Nei eða já, af eða á.“

Loðið svar?

Katrín hló og átti bágt með að trúa að þetta væri helsta spurningin sem Guðmundur hefði fengið en hughreysti hann:

„Ég trúi því nú varla að í kjördæmaviku þingmanna Flokks fólksins hafi þetta verið eina spurningin sem þeir fengu, aðalspurningin. Þannig að ég vil hughreysta háttvirtan þingmann og segja að ég er bara enn í starfi mínu sem forsætisráðherra og verð hér áfram um sinn.“

Enn mátti heyra hlátrasköll í þingsal þegar Katrín reiddi fram þetta svar sitt.

Guðmundi Inga fannst þetta ekki nógu skýrt svar:

„Ég þakka hæstvirtum forsætisráðherra fyrir ekki svarið, vegna þess að þetta var eiginlega ekkert svar, af því að ég myndi vilja segja, eins og segir í kvæðinu: Nei eða já, af eða á. Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að bjóða sig fram til forseta eða er hún að íhuga það?“

Katrín svaraði því þannig að hún hefði ekki leitt hugann að því:

„Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru ærin verkefni í forsætisráðuneytinu.“

Í fréttum Vísis er þessum svörum Katrínar lýst sem loðnum. Það er ekki hægt að segja að Katrín hafi svarað því afdráttarlaust hvort hún hefur áhuga á framboði en að hún hafi ekki leitt hugann að því hlýtur þó að benda til að á þessum tímapukti hafi hún ekki íhugað framboð.

Gæti komist í fámennan klúbb

Áhugi er meðal pólitískra andstæðinga Katrínar á því að hún flytji sig á Bessastaði enda væru þá forsendur ríkisstjórnarsamstarfsins óneitanlega breyttar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði við Mbl.is að hún styddi Katrínu í embættið.

Ákveði Katrín að bjóða sig fram og nái hún kjöri yrði hún önnur manneskjan í Íslandssögunni til gegna bæði embætti forseta og forsætisráðherra á eftir Ásgeiri Ásgeirssyni. Þó liðu 18 ár frá því að Ásgeir lét af embætti forsætisráðherra og þar til hann var kjörinn forseti en reyndar var forsetaembættið ekki sett á fót fyrr en 8 árum áður en hann var kjörinn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“

Halldór Auðar snýr baki við Pírötum – „Niðurstaða kosninganna fyrst og fremst endurspeglun á löskuðu innra starfi“