fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Ráðherra sammála því að málefni lögreglu séu í lamasessi – ætlar að hefja undirbúning stefnumótunar

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 9. febrúar 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Alþingi í vikunni spurði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, dómsmálaráðherra út í fækkun lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu, en frá 2007 þegar embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var stofnað og fram til 2023 fækkaði lögreglumönnum þar úr 339 í 297 þrátt fyrir mikla fólksfjölgun á svæðinu, en íbúar eru nú um 250 þúsund.

Þorbjörg Sigríður spurði hvort dómsmálaráðherra teldi fáliðaða lögreglu geta sinnt grundvallarhlutverki sínu og tryggt öryggi borgaranna og hvort lögreglan byggi við öruggt starfsumhverfi svo fáliðuð, en árið 2022 voru 1,2 lögreglumenn á hverja 1000 íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Þá vakti hún athygli á að Fangelsismálastofnun hefur lýst því að vegna vanfjármögnunar hafi ekki verið hægt að boða dæmda menn til afplánunar og spurði ráðherra hvort slíkt væri boðlegt.

„Íbúum hefur fjölgað um 25 prósent en lögreglumönnum fækkað um 13 prósent. Svo mikil fækkun getur ekki gengið upp hjá embætti sem fær til meðferðar 75-80% prósent allra hegningarlagabrota. Fjárlagafrumvarp ársins 2024 færði þessu embætti 113 milljón króna aðhaldskröfu. Hjá stofnun þar sem laun eru 85 prósent af rekstrarfé hefur það strax mikil áhrif,“ sagði Þorbjörg Sigríður í ræðu sinni.

Hún benti á að þrátt fyrir að lögreglumönnum hafi eitthvað fjölgað í fyrra hafi það ekki verið raunfjölgun vegna þess að stytting vinnutíma hafi gert áð að verkum að fjölga þurfi stöðugildum.

„Árið 2022 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu um 1,2 lögreglumaður á hverja þúsund íbúa. Einn á þúsund. Til að hlutfallið yrði til svipað og þar sem hlutfallið er næst lægst á landinu þyrfti að fjölga lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu í kringum 200. Telur dómsmálaráðherra að svo fáliðuð lögregla búi við öruggt starfsumhverfi?“ spurði Þorbjörg Sigríður.

Í ræðu hennar kom fram að árið 2020 var fjöldi lögreglumanna á hverja 100 þúsund íbúa næstlægstur á Íslandi í samanburði við 32 Evrópuríki. Staðan í alþjóðlegum samanburði sé því afleit. Umdæmin á landsbyggðinni séu víðfeðm sem geri starf lögreglu á landsbyggðinni þyngra.

„Hvernig birtist þessi staða hjá fólkinu í landinu? Í viðbragðstíma lögreglu sem víða er ábótavant á landsbyggð skv. orðum hæstvirts dómsmálaráðherra sjálfrar.

Árið 2013 var mat ríkislögreglustjóra að 860 lögreglumenn væri algjör lágmarksþörf á landinu. Síðan hefur orðið mikil fólksfjölgun og fjöldi ferðamanna vaxið ævintýralega. Þeir 895 lögreglumenn sem eru starfandi á landinu í dag eru þess vegna víðs fjarri lágmarksþörf.

Til þess að ná tölunni 895 þarf reyndar að telja með alla ófaglærða og starfandi lögreglunema.

Lögregla hefur sjálf ítrekað varað við stöðunni.“

Þorbjörg Sigríður sagði Fangelsismálastofnun hafa sætt niðurskurði samfleytt í 21 ár. Síðasta áratuginn hafi 31 dómur fyrir ofbeldisbrot og fjórir dómar fyrir kynferðisbrot fyrnst. Slíkt séu óboðleg skilaboð til brotaþola og samfélagsins alls.

„Réttarkerfið getur ekki lengur verið afgangsstærð hjá ríkisstjórninni,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, þakkaði Þorbjörgu Sigríði fyrir að vekja máls á stöðu lögreglunnar í landinu.

„Það er ljóst að löggæslumál hafa þróast mikið undanfarin ár, bæði að eðli og umfangi. Landsmönnum hefur fjölgað hratt og ferðamenn eru margfalt fleiri en áður. Þessari fjölgun hafa fylgt margvísleg verkefni lögreglu og aukið álag um land allt. Á sama tíma höfum við orðið vör við aukinn vopnaburð og alvarlegri afbrot en áður, auk þess sem skipulögð brotastarfsemi hefur aukist verulega hér á landi. Þannig má nefna að alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra hefur fjölgað síðustu ár. Sem dæmi má nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna skotvopna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2016 og nærri fjórfaldast vegna eggvopna. Þá hefur umfang skipulagðrar brotastarfsemi aukist hér á landi. Þessu til viðbótar er ljóst að ógnir gegn öryggi ríkisins hafa aukist á sama tíma,“ sagði Guðrún.

Hún tók undir áhyggjur Þorbjargar Sigríðar af þróun mannafla hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og benti á að á undanförnum árum hefði embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fengið auknar fjárveitingar til að styrkja almenna löggæslu, rannsóknir og saksókn kynferðisbrota, ásamt styrkingu til að takast á við skipulagða brotastarfsemi. Einnig tók hún undir með þingmanninum um að ekki væri boðlegt að fólk komist hjá refsingum vegna þess að fangelsiskerfið hafi ekki tök á að boða dómþola í afplánun. Sagði hún ráðuneytið vera að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun í málaflokknum.

Vert er að geta þess að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur dómsmálaráðherra, hefur haft dómsmálaráðuneytið á sinni hendi í áratug, ráðherrann telur málefni ráðuneytisins í lamasessi og nú á að hefja vinnu við að móta heildstæða stefnu í málaflokknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar

Snorri Jakobsson: Fyrstu vaxtahækkanirnar 2021 voru bara upp á punt – þær síðustu of miklar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að