fbpx
Miðvikudagur 15.maí 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Eigum við að kenna börnunum okkar að hinsegin og trans sé flottast?

Eyjan
Sunnudaginn 13. ágúst 2023 10:00

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru margvíslegir straumar í gangi í þjóðfélaginu, og oft finnst mér það gerast, að þeir sveiflist öfganna á milli.

Í eina tíð áttu hinsegin- og transfólk mjög í vök að verjast með sína sérstöðu, nú allt í einu, lætur þjóðfélagið eins og hinsegin og trans sé það flottasta. Stórfellt gleðiefni, sem slær flest annað út, væntanlega þeim mun fleiri, þeim mun gleðilegra. Komið út í öfgar fyrir mér.

Kannske mættu menn staldra aðeins við, í þessu miklu fagnaðarlátum, og velta því fyrir sér, hvert við erum að stefna með okkar háttsemi, líferni og menningu.

Það liggur auðvitað fyrir, að venjulegt fólk, fólk með venjulega kynhneigð – mismunandi kynhneigð er það, sem þetta snýst í megin atriðum um – er það fólk, sem ber uppi mannfjölgun og framhaldstilveru mannkyns.

Það er því ansi vafasamt, að ala ómótuð börnin okkar og unglingana upp við það, að, það að vera venjulegur, sé nánast annars flokks, lítið gleðiefni; að það að vera hinsegin eða trans sé það flottasta.

Ekki er vitað með vissu, hversu mikill hluti kynhneigðar sé meðfæddur, eða, hversu mikinn hluta umhverfi og straumar í þjóðfélaginu marka. Hér þarf að stíga varlega til jarðar gagnvart áhrifagjörnu ungviði.

Samfélagið samanstendur af margvíslegum hópum, og er mér vel við flesta eða alla, enda fjölbreytileiki eitt af einkennum sköpunarverksins, náttúrulegur og eðlilegur.

Flest, sem mönnum er áskapað, er því fyrir mér eðlilegt, og vita flestir, að menn skapa sig ekki sjálfir og fá mest af því, sem þá einkennir, eðli og hneigðir, í vöggugjöf. Genin og erfðamengið ráða mikið för.

Fyrir ári síðan skrifaði ég blaðagrein með fyrirsögninni „Yfirkeyrð gleði – fólk eins og við hin“. Í rauninni sagði þessi fyrirsögn strax tvennt: 1. Að mér fyndist „gleði“ hinsegin fólks stundum yfirkeyrð 2. Að ég liti á hinsegin fólk og transfólk nákvæmlega eins og á alla aðra samfélagshópa; okkur hin.

Ég fékk víða skömm í hattinn fyrir þessa grein, og var ásakaður um, að gera árás á hinsegin fólk og grafa undan réttindabaráttu þess. Sérstaklega var ég gagnrýndur fyrir að skilja ekki vilja hinsegin fólks og transfólks til að vera „sýnileg“;  greinileg og áberandi.

Þessu svaraði ég þannig, að, ef ég ætti að veita hinsegin fólki ráðgjöf, myndi ég ráðleggja þeim þetta:

  1. Forðist, að vera of sýnileg, láta of mikið á ykkur bera og berjið bumbur ykkar hóflega.
  2. Því, með slíku eruð þið sjálf að skera ykkur úr, gera ykkur að sérstökum hópi.
  3. Leggið heldur áherzlu á, að sameinast samfélaginu, verða og vera fastur hluti af því, í sátt og samlyndi, en standið þó fast á rétti ykkar, ef/þegar á hann reynir.

Góð kona sagðist ekki skilja mína nálgun; hvað ég væri að fara.

Svarið er, að ég tel hinsegin fólk bara venjulegt fólk, og sé enga ástæðu til að vera að hampa því sérstaklega. Nær hefði t.a.m. verið fyrir Reykjavíkurborg að byggja fleiri rampa fyrir hjólastólafólk, en að mála götur og stræti hinsegin fólki til heiðurs.

Þegar samfélagið er skoðað, má greina fjölmarga hópa, sem allir hafa sín sérkenni, vegna sinna erfðamengja og gena, en eiga samt fullan rétt á að falla inn í samfélagið og vera fullgildir samfélagsþegnar.

Það er ekkert réttlæti í því, að taka þarna einn hóp út úr og hampa honum sérstaklega af opinberum aðilum, sveitarstjórnum, skólum, kirkjum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, fréttamönnum o.s.frv.

Sérstaklega finnst mér réttur opinberra aðila til þessa orka tvímælis, svo ég tali ekki um forsetaembættið. Þeir ættu að vera hlutlausir.

Mér gengur þetta til með þessum skrifum: 1. Að sýna fram á, að hinsegin fólk og transfólk sé eins og við hin. 2. Það verður að gilda jafnvægi og jafnrétti milli allra hópa. 3. Hinsegin fólk er ekki að styrkja sína stöðu með því að vilja vera „sýnilegt“ 4. Kynferðislegir tilburðir hinsegin fólks í gleðigöngum og öðru eiga ekki við. 5. Kynferðismál ættu að vera einkamál manna.

Við lifum sem betur fer í frjálsu samfélagi, þar sem allir hafa rétt á að hafa skoðun og tjá hana. Ég er að nýta mér þann rétt, eins og ég geri oft, og vona ég, að menn get metið þetta innlegg í umræðuna út frá skynsemi og yfirvegun, en láti ekki stjórnast af tilfinningasemi eða ógrundaðri samúð, svo ég tali ekki um múgsefjun.

Samfélagið samanstendur af tugum sérstakra hópa. Það á að vera jafnvægi og jafnræði á milli þeirra allra, eftir því, sem hægt er. Kynhneigð og kynferðismál eiga að vera einkamál manna, sem eiga heima í kyrrþey, ekki á torgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð
Eyjan
Fyrir 1 viku

Linda verður aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Sidekick Health

Linda verður aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Sidekick Health
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Deilt um lántökur Kópavogsbæjar – „Kópavogsbúar framtíðar eigi að axla ábyrgð á óábyrgum rekstri“

Deilt um lántökur Kópavogsbæjar – „Kópavogsbúar framtíðar eigi að axla ábyrgð á óábyrgum rekstri“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin