Stóriðju- og flugfélög eru þau íslensku fyrirtæki sem menga mest. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Rætt er við Sigurpál Ingibergsson, tölvunarfræðing og gæðastjóra, sem leggur stund á loftlagsútreikninga. Erindi sem Sigurpáll hélt um þessi mál á dögunum á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar vakti athygli.
Icelandair losaði árið 2021 um 486.000 tonn og má vænta þess að losun félagsins hafi aukist í fyrra með auknum farþegafjölda eftir Covid. Alcoa, Norðurál og Icelandair eru þau þrjú fyrirtæki sem menga mest hér á landi þegar horft er til losunar á kolefni.
Ísal, Samskip og Eimskip koma næst í röðinni. Mörg stór sjávarútvegsfyrirtæki og orkufyrirtæki eru nokkuð ofarlega á listanum en Landsvirkjun er eina fyrirtækið sem spyrnir verulega við fótum gegn losun með kolefnisbindingum.
„Sigurpáll las í allar sjálfbærniskýrslur stærstu fyrirtækjanna sem eru opinberar og upplýsingarnar um mest mengandi fyrirtæki landsins eru byggðar á þeirri athugun,“ segir í fréttinni. Sjá nánar hér.