fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Búið að ráða í 98% stöðugilda í grunnskólum og 96% í leikskólum

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 22. ágúst 2019 15:45

Mynd af vef Reykjavíkurborgar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðustu vikum hefur gengið vel að ráða í stöður í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt nýjasta yfirliti sem byggir á svörum stjórnenda allra skóla og frístundamiðstöðva dagana 14.-16. ágúst er búið að ráða í 98% stöðugilda í grunnskólunum, 96% stöðugilda í leikskólum og 78% stöðugilda frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva. Með fleiri leikskólarýmum hefur starfsfólki fjölgað, s.s. vegna stækkunar leikskóla og innritunar yngri barna. Þrátt fyrir aukna starfsmannaþörf er staðan í ráðningum betri nú en í fyrra, en þá var búið að ráða í tæplega 94% stöðugilda í leikskólunum miðað við 96% nú.

Leikskólar í Reykjavík sem borgin rekur eru 63 talsins, þar sem dvelja um 6.000 börn. Starfsfólkið er um 1.570 talsins.  Óráðið er í 60 stöðugildi, þar af í stöður tveggja aðstoðarleikskólastjóra, fimm deildarstjóra, 39 leikskólakennara, 4 sérkennslustjóra og 10 stuðningsliða.

Grunnskólar borgarinnar sem borgin rekur eru 36 talsins, þar sem um 14.000 börn stunda nám. Í skólunum starfa um 1.970 manns. Óráðið er í 8 stöðugildi kennara, 17 stöðugildi stuðningsfulltrúa, 14 skólaliða og eitt stöðugildi þroskaþjálfara. Staðan var mjög sambærileg hjá grunnskólunum í fyrra, en þá var óráðið í 33 stöðugildi.

Frístundaheimili borgarinnar eru starfrækt við alla 36 grunnskólana fyrir börn á aldrinum 6-9 ára. Alls verða um 4.000 börn í frístundaheimilum borgarinnar í vetur og fjöldi starfsfólks að jafnaði 950 í um 440 stöðugildum.

Hjá frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum er óráðið í um 100 stöðugildi eða um 200 starfsmenn í hálft starf. Margir háskólanemar starfa á frístundaheimilum meðfram námi og sýnir reynslan að þegar þeir fá stundatöflur geta þeir betur skipulagt vinnu sína og ráðið sig til starfa. Því er verið að ganga frá nýráðningum alla daga.

Gert er ráð fyrir að öll börn fái þjónustu á frístundaheimili í upphafi skólaárs, en verði á því tafir vegna fáliðunar, verður fyrst litið til forgangshópa en umsóknir síðan afgreiddar í tímaröð, elsta umsóknin fyrst. Þó njóta börn í 1. bekk forgangs, þá börn í 2. bekk og loks börn í 3. og 4. bekk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt