fbpx
Mánudagur 13.maí 2024
Eyjan

Stefán frá Möðrudal, fólk og hús við Skólavörðustíg

Egill Helgason
Miðvikudaginn 3. ágúst 2016 20:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér eru myndir sem sýna breytta tíma og breytta borg. Þær eru teknar á Skólavörðustígnum sem nú er helsta ferðamannagata borgarinnar á árunum í kringum 1980. Höfundur þeirra er Finnbogi Helgason sem hafði lengi tannsmíðastofu á Skólavörðustíg 1a. Myndirnar eru teknar út um gluggann hjá Finnboga sem gaf mér góðfúslegt leyfi til að birta þær. Mér finnst þær skemmtilegar, á engri götu í Reykjavík hef ég haldið jafn mikið til og á Skólavörðustígnum, fyrir utan göturnar sem ég hef búið við.

 

247964_181415615246101_2747705_n

 

Á fyrstu myndinni sjást hús hægra megin Skólavörðustígs sem öll eru horfin. Efst er Bergshús, þar sem Þórbergur bjó á tíma Ofvitans, en þar var leikfangaverslun. Næst er hárskurðarstofa Péturs rakara sem var afar litríkur karakter, umboðsmaður hljómsveita sem hann bókaði í síma um leið og hann klippti viðskiptavini. Margir muna svo sjálfsagt eftir Gjafahúsinu sem var þarna fyrir neðan, þar voru seldar bastkörfur og fleira slíkt.

Við sjáum líka á myndinni að stöðumælavarsla hefur ekki verið kominn á það stig sem hún er nú í borginni, menn leggja hippsum happs við götuna.

 

255054_181415658579430_5503400_n

 

Á næstu mynd sést lengra upp götuna. Ég kem ekki fyrir mig hvað var á þessum árum í stóra húsinu á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis en upp úr 1980 var þarna um tíma veitingahús sem kallaðist Rán. Þar var veitingamaður Ómar Hallsson sem var í blöðum kallaður spútnikk í veitingabransanum, en hann átti líka um tíma Naustið og diskótek sem nefndist Manhattan. Ef rýnt er í myndina má greina skilti frá fyrirtæki sem enn starfar við Skólavörðustíginn. Það er úrsmíðaverkstæði ljúflingsins Helga Sigurðssonar, en hann hefur verið við götuna síðan 1967 eins og lesa má hér.

Húsin sem eru í bakgrunni, bak við Skólavörðustíginn eru horfin og einnig timburhúsið sem er innst og stóð við Bergstaðastræti.

 

248934_181417041912625_3374001_n

 

Hér er svo mynd sem sjá má að er tekin sumarið 1980. Þetta var með eindæmum gott sumar og það var Listahátíð sem hreif borgarbúa með sér og var einstaklega skemmtileg, sérstaklega útileikhúsið Els Comediantes sem kom frá Spáni. Til vinstri á myndinni er Bókin, fornbókaverslun sem var rekin af Gunnari Valdimarssyni og Snæ Jóhannessyni. Hún var síðar til húsa á Laugavegi, við hliðina á versluninni Vísi, en rann svo saman við Bókavörðu Braga Kristjónssonar. Lifir semsagt enn að nokkru leyti í búð hans á horni Hverfisgötu og Klapparstíg.

Stóra húsið aftast á myndinni er Breiðfirðingabúð. Á þessum tíma voru þar alls kyns uppákomur á vegum Listahátíðar. Húsið var upphaflega trésmiðja en var rekið af Breiðfirðingafélaginu, einu af hinum fjölmörgu átthagafélögum sem störfuðu í Reykjavík, á árunum 1946 til 1969. Þá voru þar haldnar skemmtanir og dansleikir, meðal annars komu þar fram bítlahljómsveitir. Seinna var þarna til húsa Íslenska dýrasafnið og var sá rekstur um margt sérkennilegur – uppstoppuð dýr úr safninu koma fram í mynd Stuðmanna, Með allt á hreinu.

 

254834_181416958579300_2675800_n

 

Hér er önnur mynd frá sumrinu 1980 með götulistamönnum. Þarna sést aftur hin horfna húsalengja, græna húsið lengst til hægri var Skólavörðustígur 8 en þar var til húsa Kornelíus, eins og kallað var, úra- og skartgripaverslun Kornelíusar Jónssonar. Þarna hefur götunni verið lokuð fyrir bílaumferð eins og síðar varð.

 

251284_181416775245985_5153486_n

 

Loks er hér enn ein mynd sem Finnbogi Helgason tók út um gluggann hjá sér. Þarna er horft yfir í portið hjá Breiðfirðingabúð. Á myndinni sést listamaðurinn Stefán Jónsson frá Möðrudal, Stórval öðru nafni, fá sér snæðing. Hann drekkur mjók úr fernu en fyrir framan hann er poki úr Tómasi. Kjötverslun Tómasar var neðst á Skólavörðustígnum, á horni Laugavegs, í kjallara þar sem nú er veitingahúsið Kofi Tómasar frænda. Margir sem muna eftir búð Tómasar sakna hennar enda var þar hægt að fá ýmsa gæðavöru – þetta var sannkölluð gúrme búð.

Hinn ógleymanlegi Stefán Jónsson var mikið á kreiki við Skólavörðustíginn og setti svip á götuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Um 25 þúsund gestir heimsóttu Verk og vit

Um 25 þúsund gestir heimsóttu Verk og vit