
Davíð Oddsson gefur tóninn varðandi flóttamenn í nokkuð einkennilegum leiðara í Morgunblaðinu í gær. Þar talar hann um „flóttamannasprengju“ og gefur í skyn að hann viti eitthvað meira en aðrir um orsakir hennar.
Nú? Maður hélt að þeirra væri að leita í hinni fáránlegu herför í Írak þar sem Íslendingar voru settir í hóp viljugra þjóða og sérstakra stuðningsaðila. Var það ekki þessi innrás sem hleypti öllu í bál og brand í Írak og síðar Sýrlandi með þeim afleiðingum meðal annars að hálf sýrlenska þjóðin er lögð á flótta?
Leiðarahöfundurinn, og fyrrverandi forsætisráðherra, talar um að í flóttamannamálunum sé Íslendingum „stefnt á kaf í upplausn“.
Það er náttúrlega hægt að ræða lengi um menn sem fá ekki skilið afleiðingar gerða sinna og eru kannski blindir á þær, en svo má líka velta fyrir sér hvaða áhrif þessi skrif hafa á stjórnarflokkana og ríkisstjórnarinnar. Davíð hefur verið talinn helsti skuggastjórnandinn á þeim bæ.
Uppi eru háværar kröfur á Íslandi um að taka við miklum fjölda flóttamanna, margfalda töluna sem hefur verið ákveðið að bjóða hingað til lands. Mörgum þykir þetta einfaldlega sjálfsagt mál til að bjarga fólki sem er í bráðum lífsháska. Um þetta er fjallað í grein sem birtist í gær á hinum víðlesna vef Buzzfeed.
En nú er Mogginn semsagt búinn að setja sig upp á móti þessu – og það er ljóst að í kjósendahópi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er fullt af fólki sem er á þeirri línu, vill ekki sjá fleiri flóttamenn og er jafnvel mikið niðri fyrir vegna þess.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ríkisstjórnin ber sig að í þessu hitamáli. Ráðherrar hafa farið frekar varlega í að tjá sig. Í dag á víst að skipa ráðherranefnd um flóttamannaaðstoð. Hún hefur ekki mikinn tíma til að vinna.