
Evrópu beinlínis vantar innflytjendur, segir í grein í The Economist sem fjallar um flóttamannavandann. Það er semsagt hagfræðilega klókt að taka við flóttamönnum, að því tilskyldu að þeir fái tækifæri til að samlagast þjóðfélögunum sem þeir koma til en séu ekki einangraðir og án atvinnu.
Evrópubúar eru að verða eldri og ríki Evrópu skulda stórar fjárhæðir. Innflytjendur eru yfirleitt ungt fólk og þeir eru tilbúnir til að vinna. Ef færi gefst eru þeir líklegir til að setja á stofn fyrirtæki. Og, þeir láta sig hafa það að vinna störf sem er nauðsynlegt að sinna, en hinir innfæddu líta helst ekki við. Það hefur ekki þurft að kosta neinu til að mennta þá – og þeir taka þátt í að borga skuldirnar sem liggja eins og farg á Evrópu.
Þetta eru köld en áhrifamikil rök. Þau bætast við mannúðarrökin sem við höfum heyrt síðustu dagana. Á Íslandi er staðan reyndar slík að menn telja að hér verði skortur á starfsfólki næstu árin.