Robbie Fowler, sem gerði garðinn frægan með Liverpool, segir að hann hafi verið meiri markaskorari en þeir tveir en þrátt fyrir það aldrei fengið almennilegt tækifæri með enska landsliðinu.
Fowler lék aðeins 26 landsleiki fyrir England þar sem hann skoraði sjö mörk en til samanburðar skoraði Shearer 30 mörk í 63 landsleikjum og Teddy Sheringham 11 mörk í 51 leik.
Fowler var í viðtali við Simon Jordan í þættinum Up Front á dögunum þar sem hann sagði þetta. Raunar gekk Fowler svo langt að segja að hann væri í landsliðinu í dag ef hann væri að skora jafn mikið og hann gerði á sínum tíma.
„Ég hafði skorað næstum 100 mörk áður en ég fékk kallið frá enska landsliðinu. England var með menn eins og Alan Shearer, Teddy Sheringham, Ian Wright, Les Ferdinand og Andy Cole en, í hreinskilni sagt, tel ég að ég hafi verið betri en þeir allir. Ég var kannski ekki í besta liðinu og naut ekki góðs af því að lið voru byggð upp í kringum mig, eins og Shearer hjá Blackburn og Wright hjá Arsenal.“
Með þessu segist Fowler ekki vilja gera lítið úr árangri kollega sinna, miklu frekar sé hann að furða sig á því að hafa aldrei fengið almennilegt tækifæri með landsliðinu þrátt fyrir að hafa raðað inn mörkum með Liverpool.